Sigurður er fæddur 1957, fjölskyldumaður í Kópavogi með þrjú uppkomin börn og barnabörn. Hann verður 57 ára á þessu ári og hefur ákveðið að hætta að kenna þegar hann kemst á 95 ára regluna árið 2019. Þetta ákvað hann nýlega þegar hann var að skoða kjörin sín sem kennari. Hann ákvað þá að hætta 62 ára og fara í annað starf en hann hefur alltaf unnið við meira en kennslu. Fyrir 20 árum ætlaði hann að hætta að kenna en þá „laumaði einhver því að mér að það væri sniðugt að fara í ökukennslu því maður gæti náð tekjunum aðeins upp,“ segir hann.
Fór að reikna út launin
Sigurður hefur alltaf unnið annað starf með kennslunni. Hann er hálfur Skagfirðingur og hefur meðal annars boðið upp á hestaferðir í Skagafirði. Hann hefur svo unnið sumarstörf af ýmsu tagi, til dæmis hjá Vinnuskólanum í Kópavogi. Þegar hann kemst á 95 ára regluna getur hann hætt að vinna sem kennari og fær þá 64 prósent af föstum launum. Ef hann heldur áfram að vinna þá bætast tvö prósent við eftirlaunin á ári. En hann er ákveðinn í að hætta og gera eitthvað annað, til dæmis að vinna sem ökukennari. „Ég veit ekki, þetta á allt eftir að koma í ljós en ég fór að hugsa um þetta núna út af væntanlegri kjarabaráttu. Ég fór að reikna út launin og skoða hvernig þetta er og þá vildi maður bara labba út. En kannski hækka launin og þá hættir maður við,“ segir hann.
Allavega 20 góð ár
Aldurinn leggst þokkalega í Sigurð. Hann segist vera farinn að velta aldrinum töluvert fyrir sér og gerir sér grein fyrir því að hann eigi kannski bara 20 ár eftir. Faðir hans hafi unnið til sjötugs og fengið sex til sjö ár eftir það og þess vegna sé hann sjálfur „harðákveðinn í því að vinna ekki lengur,“ segir Sigurður og bætir við að svona hafi áhrif, hann hafi farið að velta því fyrir sér hvað lífið sé stutt. „Mér finnst að maður ætti að eiga allavega 20 góð ár eftir að maður hættir að vinna, mér finnst það lágmark,“ segir hann og vonar að það gangi eftir. „Þegar maður er kominn á sextugsaldur þá er maður farinn að sjá fólk veikjast og fara og þess vegna er ég ákveðinn í þessu. Ég sé engan tilgang í því að vinna til sjötugs. Það er nóg af fólki til að vinna störfin, maður á bara að njóta barna og barnabarna,“ segir Sigurður.