Er eldri borgari en finnst ég ekki vera það

Það er líklega sama hversu mikið við eldumst, okkur finnst við ekki gömul. Að minnsta kosti ekki á meðan við höldum heilsunni. Þegar við vorum ung fannst okkur eldri borgarar gamlir. Barnabörnunum finnst sumum, afi og amma eldgömul. Orðin sem notuð eru um þetta aldursskeið, tengjast yfirleitt gömlu fólki. Það er rædd um aldraða og svo eldri borgara, sem eru þá oft yngri en þeir sem teljast aldraðir. En hvað finnst eldri borgurum sjálfum um þessi orð sem um þau eru höfð og upplifa þeir sig sem eldri borgara?

Mér finnst allt í góðu með orðið eldri borgari. Ég er eldri borgari en mér finnst ég samt ekki vera það. Móðir mín talaði ætíð um blessað gamla fólkið án þess að hún samsamaði sig þeim hópi, hún varð 93 ára.  Ætli mér kippi ekki í kynið. Ég nota samt þegar ég man gula kortið og man alltaf eftir að geta þess að ég er komin á aldur þegar ég kaupi miða í leikhús og tónleika!

Annar svaraði þessu þannig:

Nei, ekki í huganum en já, í árum talið! Ég er samt í Félagi eldri borgara í Reykjavík, tiltölulega nýlega genginn til liðs við þann félagsskap en hef aldrei sótt þar fund eða haft af samtökunum að segja. Það gæti breyst fljótlega, held að þar sé álitlegan félagsskap að finna.

Það er einnig talað um ellilífeyri og ellilífeyrisþega. Einn viðmælandi Lifðu núna hefur lítið hugsað út í þetta orð, en finnst reyndar „þegi“ frekar neikvætt. Segist sjálfur tala um að fá lífeyri eða ellilífeyri. Annar viðmælandi var hins vegar ekkert að skafa utanaf hlutunum.

Þetta hugtak þoli ég ekki og hef aldrei þolað. Þeir sem fá greidd eftirlaun „þiggja“ hvorki eitt né neitt heldur fá greitt það sem þeir hafa lagt fyrir sjálfir eða borgað með sköttunum sínum í áratugi – ef þeir lenda þá ekki í skerðingu lífeyris ríkisins – þjóðarskömminni.

Í lagatextum frá Alþingi er talað um „ellilífeyri“ og „ellilífeyrisþega“. Framkvæmdavaldið talar um „ellilífeyri“ og fjölmiðlafólk í stórum stíl sömuleiðis.

Síðast en ekki síst er óþolandi að lífeyrissjóðir skuli nota í síbylju elli-þetta og elli-hitt á vefjum sínum, útgáfuefni og í málflutningi margra (ekki allra!) talsmanna sinna. Heggur sá er hlífa skyldi. Eftirlaunamenn og eftirlaun inn, „ellilífeyrisþegar“ og „ellilífeyrir“ út – skilyrðislaust og algjörlega. Þar eiga lífeyrissjóðir að fara undan með góðu fordæmi, hvað svo sem löggjafasamkundan, stjórnarráðið og fjölmiðlakerfið dratthalast.

En skoðanir manna eru vissulega skiptar um þetta.

Mér finnst eldra fólk hafa skapað sér stóran sess í opinberri umræðu- hvaða orð sem menn hafa notað um þennan hóp.  Samtök þeirra, Grái herinn og öflugir talsmenn og -konur, s.s. þau Björgvin Guðmundsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Ellert Schram eiga þar stóran hlut að máli. Mér finnst engir fordómar speglast í þeim orðum sem þú telur upp, þvert á móti. Við eigum að vera stolt og þakklát fyrir að eldast 🙂

Annar sagðist sætta sig  nokkuð vel við  hugtakið eldri borgari.

Og mér gengur þokkalega að samsama mig við það. En býsna oft finnst mér vera fjallað um málefni „eldri eldri borgara“ undir þessu hugtaki. Og myndir við efni um eldri borgara í fjölmiðlum finnst mér oft vera nær kynslóð móður minnar heldur en minni eigin.

En ellilífeyrisþegi?

Ömurlegt hugtak og ölmusulegt. Ég mun til dæmis fyrst og fremst fá þann lífeyri sem ég hef sjálf greitt í af launum mínum. Ég er því ekki að þiggja neitt heldur er ég að fá útborguð laun sem hafa verið lögð til hliðar í þeim tilgangi.

Enn annar sagðist stoltur af því að vera eldri borgari. Og um orðið lífeyrisþegi sagði hann.

Þetta er mjög lýsandi orð og ekkert að því sem slíku. Staðreyndir eins og aldur ættu ekki að vera feimnismál. Þá er það heilsan og hugarfarið sem skiptir máli. Þeir sem komast hjá því að verða ellilífeyrisþegar deyja alltof ungir.

Mér finnst eldri borgari ekki svo slæmt, sagði annar og bætti við að það hljómaði kannski eins og heldri borgari, sem sagt virðingar vottur í orðinu.

Ég upplifi mig ekki sem eldri borgara dags daglega en samþykki alveg að ég sé orðin eldri borgari.

Ég hef  verið í skóla og vinnu með mér mun yngra fólki og hefur alltaf fundist ég vera á sama aldri og þau.

En ellilífeyrisþegi?

Ellilífeyrisþegi er fáránlegt orð yfir eldra fólk.  Yngra fólk er ekki skilgreint sem launþegi.

Þetta er ekki ástand neins eða staða.

Við spurðum þessa viðmælendur líka að því hvernig þeim fyndist orðræðan um eldra fólkið í samfélaginu.

Er ekki farið að sýna mismunandi þjóðfélagshópum meiri virðingu?  Reyndar er oft enn talað við gamalt fólk eins og börn og sýnt frá dansibölllum á elliheimilum og svoleiðis. Það hefur alltaf farið fyrir brjóstið á mér. Veit ekki nægilega mikið um þetta.

Annar sagði um umræðuna

Umræðan er í hólfum, helst er náð í eldri borgara til viðtals í þáttum eða fréttatímum ef fjallað er um eldri borgara og kjör aldraðra! Fjöldinn allur af þáttastjórnendum ljósvakamiðla er á aldrinum 35-50 ára og viðmælendur þeirra sömuleiðis.

Þegar málefni aldraðra ber á góma er oft efst í huga hve lífeyrissjóðakerfið sé vonlaust og vitlaust og þá má ekki á milli sjá hvorir vita minna um það sem þeir tala um, sjálfir spyrlarnir eða viðmælendur þeirra.

Ef heilsufar aldraðra ber á góma er fjasað um hvar ný Landspítalahús eigi að rísa …

Þetta er auðvitað í hálfkæringi sagt en samt sannleikskorn um „orðræðu um eldra fólk“!

Enn annar hafði þetta að segja.

Mér finnst ansi oft talað um eldra fólk eins og það sé ósjálfbjarga og þurfi að annast um það. Þó það eigi við um einhvern hluta hópsins má ekki gleyma öllum hinum. Fólkinu sem er hresst og sprækt, ferðast, kaupir húsnæði og bíla og nýtur lífsins. Fólkinu sem kýs stjórnmálamennina en þeir gleyma svo oft.

Annar hafði orð á því að það bæri mest á því í umræðunni hvað eldra fólk byggi við slæm kjör.

Það er að mínu viti þó aðeins lítill hluti aldraðra sem býr við slæm kjör. Það er ekki gott ástand, en það er alltaf ákveðinn hluti samfélagsins sem býr við verstu kjörin og það gildir að sjálfsögðu einnig um eldri borgara. Ég held að þarna sé fyrst og fremst um að ræða þá, sem ekki eiga sjálfir húsnæði. Það er því umhugsunarefni hvort ekki eigi að leggja áherslu á að fólk eignist sitt eigið húsnæði á meðan það er á besta aldri. Á Íslandi er besti lífeyririrnn varðveittur í fasteign.

En hér koma lokaorðin í þessari grein

Mér finnst orðræðan um eldra fólk ekki vera neikvæð í sjálfu sér, en öll framkoma stjórnvalda við eldra fólk er skelfileg.

 

Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna um orð og orðræðu: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét S. Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.

 

 

Ritstjórn júní 5, 2018 06:40