Vinkonur hjálpast að þegar aldurinn færist yfir

Allt frá tímum Ciceros sem fæddist um 100 árum fyrir Krist, hefur vináttan og gildi hennar verið mönnum umhugsunarefni. Nútímamaðurinn hefur  velt þessu fyrir sér og í Bandaríkjunum hafa nokkrir vísindamenn kannað áhrif vináttunnar á líf fólks. Talið er að vináttan geti haft veruleg áhrif á lífsmöguleika manna.  Vefurinn sixtyandme birti nýlega grein um þetta, sem fer hér á eftir í stuttri endursögn.

Grunnurinn að vináttu kvenna

Bandarísk rannsókn frá árinu 2011 sýnir fram á að batahorfur kvenna með brjóstakrabbamein sem eiga góðar vinkonur, eru mun meiri en þeirra sem eiga fáa vini. Enn aðrar kannanir eru taldar sýna að konur fæðist með meiri félagsþorska en karlar. Dagsgömul börn af báðum kynjum voru skoðuð og það kom í ljós að stúlkurnar störðu meira á andlitin í kringum sig, en dauða hluti. En það var öfugt með drengina. Stúlkunum er eiginlegra að brosa og ná augnsambandi við annað fólk, en drengjum.

Munur á hegðun kynjanna ekki eingöngu áunninn?

Feministar voru lengi þeirrar skoðunar að munurinn á  viðbrögðum stúlkna og drengja, væri afleiðing uppeldisins sem þau fengju. Nýlegar rannsóknir sýna hins vegar að þegar kemur að vináttunni, er þetta fremur spurning um náttúrulega eiginleika en lærða hegðun.  Shelly E. Taylor sálfræðingur við Kaliforníuskóla telur að konur bregðist öðruvísi við streitu en karlar. Hún telur jafnframt að konur sem eiga þétt net vinkvenna séu líklegri til að bjarga sér í lífinu og það eigi líka við um börnin þeirra. „Vináttusambönd kvenna hafa þróast þannig að þau viðhalda nauðsynlegri virkni til að lífið geti haldið áfram“, segir hún.

Bregðast við stressi á mismunandi hátt

Taylor og samverkamenn hennar tóku eftir því að þegar konur á rannsóknarstofunni þeirra urðu stressaðar, tóku þær sig til,  gerðu hreint á rannsóknarstofunni og fengu sér því næst kaffi saman. Karlar sem urðu stressaðir drógu sig hins vegar í hlé og forðuðust annað fólk. Þetta telur hún vera hormónatengd viðbrögð, en líkamar kvenna framleiða til að mynda vellíðunarhormónið Oxytocin þegar þær fæða börn.  Þetta hormón eykst líka í kvenlíkamanum þegar konan annast um aðra, eða umgengst annað fólk og virkar róandi.

Að halda vináttunni

Konur hafa auðvitað alltaf vitað að vinkonur þeirra standa yfirleitt með þeim í gegnum þykkt og þunnt í lífinu. Formæður okkar hjálpuðust að með börnin á meðan karlarnir voru úti að veiða. Konurnar sem voru heima með börnin á sjötta áratugnum, hittust reglulega í kaffi og konur á Victoríu tímabilinu drukku síðdegiste saman.

Tvær bandarískar blaðakonur skrifuðu bók um vináttu sína. Þær hafa lagt á sig mikla vinnu á liðnum árum til að halda henni, þrátt fyrir margs konar breytingar í lífinu. Þær segja það þyngra en tárum taki, að margar konur hafi nú séð til knúnar til að hætta að hitta vinkonur sínar, svo þær geti sinnt vinnunni og fjöskyldunni betur.

Konur geta ef til vill ekki hist jafn mikið á dögum Covid og áður. En það er hægt að talast við í síma, eða jafnvel á Zoom, til að ræða málin og  tapa ekki þræðinum í vináttusamböndunum.

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 5, 2022 07:00