Ekki ganga í stuttu pilsi eftir fimmtugt!

Deborah Drezon Carroll

Deborah Drezon Carroll

Að undanförnu hef ég lesið fjölmargar greinar um það hvað ég á að gera eða láta ógert. Það lítur nefnilega út fyrir að ég falli í tvo flokka, annars vegar  flokk fólks sem komið er yfir fimmtugt og hins vegar flokkinn að vera kona. Margt fólk virðist telja að því sé rétt og skylt að ráðskast með báða hópana, segir Deborah Drezon Carroll rithöfundur og pistlahöfundur í grein sem birtist á vef Huffington Post. Lifðu núna endursagði og stytti pistilinn.

  • Ekki ganga í stuttu pilsi eftir fimmtugt.
  • Láttu stutta hárið þitt grána á eðlilegan hátt af því að þú ert of gömul til að vera með sítt hár.
  • Þú þarft þetta ekki eftir fimmtugt.
  • Borðaðu þetta eftir fimmtugt.
  • Ekki borða þetta eftir fimmtugt.
  • Ekki trúa á ást við fyrstu sýn eftir fimmtugt.
  • Fólk á þínum aldri ætti ekki að drekka ( þú ert örugglega komin yfir fimmtugt ef þú heyrir þetta )

Carroll segir, ég vil byrja á því að segja við alla þessa rithöfunda: „Hættið að segja konum hvað þær mega gera“. Ég tel að sem fullorðin kona hafi ég unnið mér þann rétt að taka sjálf allar ákvarðanir er mig varða hvort sem þær eru slæmar eða góðar.

 Hafa ekki glóru

„Ég hef lifað í  meira en í hálfa öld og það ætti að vera nóg til að fólk beri smá virðingu fyrir því sem ég kýs. Ef þú ert talsvert yngri en ég þá hefurðu ekki glóru um hvað hæfir mér. Þú telur mig gamla og hefur rangt fyrir þér. Eldri, já en ekki svo gömul, ekki að það sé neitt að því að vera gömul. Fólk sem er innan við þrítugt ætti ekki að segja mér hverju ég á að klæðast, ég hef séð hvernig sá aldurshópur klæðist og hann er meira og minna í samskonar fötum og ég klæddist þegar ég var á þeirra aldri þannig að ég er einfaldlega komin langt fram úr þeim í tískunni.

Hætti að hlaupa

 Klæðnaður er eitt. Ekki segja mér heldur hvað er gott fyrir líkama minn á meðan þinn líkami er ennþá stinnur. Fyrir tuttugu árum sagði unglæknir mér að ég myndi örugglega þurfa að láta skipta um liði í hnjám ef ég hætti ekki að hlaupa. Ég svaraði því að ég hlypi hægt og stuttar vegalengdir í einu svo ég efaðist um að hlaupin væru skaðleg. Hann var harður á sínu og þar sem ég tók mark á hans miklu þekkingu á mannslíkamanum ákvað ég að fara að ráðum hans og hætta hlaupum. Næstu fimm árin leið mér ekki vel en ákvað svo að hafa boðskap læknisins að engu og halda áfram að hlaupa. Síðan hef ég hlaupið nokkra kílómetra í viku hverri og finn ekki fyrir neinum óþægindum og já, allir líkamspartar eru upprunalegir.

Virðast öll um þrítugt

Þau sem blogga um mat virðast öll vera um þrítugt. Öll vilja þau segja mér hvað ég má láta ofan í mig. Éttu kál! Steiktur matur er óvinur þinn! Súkkulaði drepur þig! Súkkulaði bjargar þér! Allt í lagi, það getur vel verið rétt. Ekki borða dýr … nema þau séu grasbítar en þá máttu borða þau … nema þú finnir til með þeim, þá máttu ekki borða þau! Og já, þau nota mikið upphrópunarmerki vegna þess að allt sem þau skrifa skiptir miklu máli!

Við eldumst en verðum ekki gömul

Sjáiði til … á þessum tímapunkti hreyfi ég mig eins og ég vil, borða það sem mig langar í og klæðist því sem mér sýnist og tek sjálf afleiðingunum ef einhverjar verða. Ég er bara þannig gerð. Það er nefnilega mikill munur á því annars vegar að eldast og hins vegar að verða gömul. Á meðan við reynum og lærum nýja hlutu munum við njóta tilverunnar. Við eldumst en verðum ekki gömul.  Mikilvægur hluti þeirrar tilveru er að halda áfram að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf. Við höfum áunnið okkur rétt til þess.  Skáldið Shel Silverstein hafði rétt fyrir sér þegar hann ráðleggur í ljóði sínu „Mustn’t“ að við ættum ekki að láta letja okkur heldur ættum við að tileinka okkur þá hugsun að allt sé mögulegt. Á öllum aldri.  „Á meðan við trúum því að allt sé hægt er okkur allt fært,“ sagði skáldið. Með þessum orðum lauk Carroll pistli sínum.

 

 

Ritstjórn júlí 29, 2016 11:30