Rúmlega 32 þúsund einstaklingar 67 ára og eldri fengu greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Ekki fá allir eftirlaunaþegar lífeyrisgreiðslur frá TR. Rúmlega 500 einstaklingar sem orðnir eru 67 ára eru með úrskurð um lífeyri en fá hann ekki því þeir eru of tekjuháir. Þeir fá ekki greiðslur samkvæmt núgildandi lögum og ekki heldur samkvæmt nýju lögunum sem taka gildi um áramótin. Þegar tölur yfir þá sem hækka þegar breytingar á lögum um almannatryggingar taka gildi kemur í ljós að lífeyrir rúmlega rúmlega 860 karla og kvenna með tekjur undir 300 þúsund krónum lækkar. Samkvæmt upplýsingum frá TR er ein helsta skýringin á því sú að margir í þessum hópi eru „búsetuskertir“ það er þeir hafa ekki búið nógu og lengi á Íslandi til að eiga fullan rétt á greiðslum frá TR. Ýmist er þetta fólk sem flutt hefur til landsins á efri árum eða Íslendingar sem bjuggu stóran hluta starfsævi sinnar í útlöndum.
Langfjölmennasti hópurinn sem sætir skerðingu eru þeir sem eru með 400 þúsund eða meira á mánuði. Í þann hóp falla 3.500 lífeyrisþegar. Helsta ástæða fyrir skerðingum þessa hóps er að samkvæmt nýju lögunum var afnuminn sú regla að lífeyrissjóðsgreiðslur skerði ekki grunnlífeyri en sú upphæð nemur 40 þúsund krónum á mánuði í dag. Þeir hinir sömu verða því af hálfri milljón króna á ári.
Mikill meirihluti 67 ára og eldri fær þó hækkanir þegar nýju lögin taka gildi en lífeyrisgreiðslur til rúmlega 28.600 einstaklinga hækka eða rétt tæplega 94 prósent þeirra sem fá lífeyri.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í blaði Sambands eldri sjálfstæðismanna að nýju lögin um almannatryggingar feli í sér mestu kjarabætur
sem eldri borgar hafa fengið um árabil. Hann tók dæmi um þrjá einstaklinga sem allir hækka við gildistöku laganna.
Í fyrsta dæminu er tekið dæmi af einstaklingi sem í dag er með 50 þúsund í lífeyrisgreiðslur á mánuði og jafn háa upphæð í aðrar tekjur. Greiðslur til hans hækka um ríflega 90 þúsund krónur á mánuði á næstu tveimur árum. Fara úr 167 þúsund krónum á mánuði í ríflega 237 þúsund á mánuði um næstu áramót. Seinni hækkunin kemur til framkvæmda 1. jan 2018 en þá hækka mánaðar greiðslurnar um 20 þúsund krónur og nema eftir það 257 þúsund krónum á mánuði.
Þá er tekið dæmi af einstaklingi sem er með 150 þúsund á mánuði í lífeyristekjur en engar aðrar tekjur. Hann fær nú 142 þúsund á mánuði, hann hækkar í 209 þúsund krónur um áramótin og í 229 þúsund krónur á mánuði 1. jan 2018. Alls nemur hækkunin 87 þúsund krónum á mánuði á tímabilinu.
Þriðja dæmið er svo af einstaklingi sem hefur engar lífeyrissjóðsgreiðslur. Hann fær á þessu ári 247 þúsund krónur á mánuði en hækkar í 280 þúsund krónur á mánuði um áramótin og í 300 þúsund krónur á mánuði 1.jan 2018. Hækkunin á tímabilinu nemur 53 þúsund krónum á mánuði.
Í öllum þessum þremur dæmum er reiknað með að einstaklingurinn búi einn og fái heimilisuppbót.
Bjarni segir að efnisatriðum nýju laganna megi skipta niður í þrjá punkta. „Í fyrsta lagi verður kerfið einfaldara, sanngjarnara og réttlátara; í öðru lagi fara lágmarksréttindi upp í 300 þúsund krónur og í þriðja lagi verður lögleitt frítekjumark sem er mikið sanngirnismál.