Fannar Karvel ungur íþróttafræðingur og vestfirðingur í húð og hár, gekk með þá hugmynd í maganum að útbúa æfingaprógramm fyrir ömmu sína Mörthu Kristínu Sveinbjörnsdóttur í Bolungarvík og senda henni vestur. Hugmyndin þróaðist yfir í bók sem nú er komin út hjá Eddu útgáfu og heitir Hreyfing – æfingar og teygjur fyrir 60 ára eða eldri.
Boltinn byrjaði að rúlla í Breiðholtinu
Fannar sem rekur heilsuræktarstöðina Spörtu í Kópavogi og kennir stundakennslu í Háskólanum í Reykajvík segist sinna öllum aldurshópum, allt frá 11 ára uppí 94 ára. Í þeim hópi séu byrjendur, offitusjúklingar og keppnismenn í íþróttum svo dæmi séu tekin. Hann kennir líka leikfimi hjá eldri borgurum. Það var íþróttafræðinámið í Háskólanum í Reykjavík varð til þess að hann kynnti sér líf og störf eldri borgara í Breiðholtinu og boltinn byrjaði að rúlla. Hann bendir á að mikil fjölgun verði á næstu áratugum í hópnum sextugir og eldri og telur að tími sé til kominn að beina sjónum að honum í líkamsræktinni. Þessi aldurshópur tilheyri almennt ekki fastagestum í heilsuræktarstöðvunum.
Sextugir stundi sömu hreyfingu og áður
Fannar segir að fólk sextugt og eldra eigi ekki að stunda annars konar hreyfingu en þeir sem yngri eru. „ Ef fólk er vant því að hjóla, klífa fjöll eða lyfta lóðum, heldur það því áfram“, segir hann. „Menn eiga ekki að hætta þegar þeir verða sextugir, en þurfa að passa sig enn betur en áður, liðamótin til dæmis. Hugsanlega sé líka skynsamlegt að hlaupa aðeins styttra en áður. En bókin sé þó meira ætluð þeim sem þurfi að koma sér af stað í hreyfingu. Hreyfingin megi ekki vera of auðveld. Öll líkamsþjálfun snúist um að reyna aðeins meira á sig, en maður treystir sér til og vera ekki of góður við sjálfan sig.
Verða gamlir ef þeir hætta að hreyfa sig
Hann segir engar töfralausnir í heilsuræktinni, en ef hann ætti að benda á alhliðahreyfingu sem hentar öllum, sé það sund. Hann segir hreyfingu mikilvæga fyrir allra. „Ef menn hætta að hreyfa sig þá fyrst verða þeir gamlir“, segir hann. „Það er 94 ára gömul kona hjá mér í leikfimi í Digranesinu. Hún gengur í leikfimitímann, hreyfir sig þar og gengur svo heim aftur. Það stoppar hana ekkert. Ef þú heldur alltaf áfram að hreyfa þig, geturðu gert það sem þú vilt“. Hann segir að gefi líkaminn sig, geri „toppstykkið“ það líka. Þetta hangi allt saman og mikilvægt að prófa nýja hluti í líkamsræktinni sem reyni líka á heilann. Það reyni til dæmis á hann að gera eitthvað alveg nýtt, eitthvað sem menn eru ekki vanir að gera.
Bók Fannars er komin í Eymundsson og einnig er hægt að fá hana í Hagkaup.