Ör þróun í bankastarfsemi, með tilkomu hraðbanka, netbanka og þjónustu í gegnum svokallað app, gerir að verkum að þjónusta útibúanna er dýrari en þessar nýju leiðir, enda fylgir rekstri útibúa kostnaður s.s. vegna húsnæðis og launa. Víða erlendis hefur þessu verið mætt með því að taka upp sérstök gjöld fyrir ákveðna þjónustu í bönkunum sjálfum. Menn greiða jafnvel ákveðið fast gjald fyrir að vera í viðskiptum við banka. Stór hluti viðskiptavinanna sér um sín eigin viðskipti við bankann í gegnum net og hraðbanka. En vaxtamunur í erlendum bönkum er líka yfirleitt minni en hér á landi, þó hann hafi farið lækkandi hér á landi undanfarin misseri.
Uggandi um eldri borgara
Það hefur einnig færst í vöxt að íslenskir bankar innheimti þjónustugjöld, svo sem af fólki sem er að greiða af lánum, eða borga með korti í öðrum banka en sínum viðskiptabanka. Rætt er um að viðskiptavinir sem enn sækja þjónustu í venjuleg útibú, muni í framtíðinni þurfa að greiða sérstakt gjald fyrir að taka út peninga sem þeir eiga í bankanum. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara er uggandi um að þetta muni bitna mest á eldra fólki sem á sparifé í bönkunum og er ekki með viðskipti sín í netbanka. „Eldri borgarar eru þeir sem eiga innistæður og það ætti að vera nægur stuðningur til bankanna frá eldri borgurum“, segir Jóna Valgerður.
Ekki búið að taka ákvörðun
Haraldur Eiðsson upplýsingafulltrúi Arion banka segir að þessi mál séu til umræðu í bankanum, en engin ákvörðun um gjald fyrir úttektir hafi verið tekin. Bankar víða um heim séu að taka upp þjónustugjöld í ríkari mæli og menn sjái fyrir sér að þróunin verði svipuð hér. Úttektargjöld verði ekki lögð á strax á morgun. Þetta hafi heldur ekki verið útfært nákvæmlega og því ekki ljóst hvort hugsanlega verði tekið sérstakt tillit til tiltekinna hópa, t.d. eldri borgara, með sérstökum afslætti eða niðurfellingu á gjöldum. Það eigi einfaldlega eftir að ákveða það. Haraldur segir líka að stærsti hópurinn sem sæki þjónustu í útibú bankans sé á aldrinum 18-40 ára en að fólk eldra en 60 ára sé u.þ.b. þriðjungur þeirra sem nýti þá þjónustu sem veitt sé í útibúum bankans.