Rannsókn Jónu Valborgar Árnadóttur um það sem hvetur miðaldra og eldri starfsmenn á vinnumarkaði, náði til átta manna á aldrinum 50 – 63ja ára. Í hópnum voru fimm konur og þrír karlar. Þetta fólk hafði mismunandi menntun og gegndi mismunandi störfum. Það er margt forvitnilegt í rannsókn hennar. Hún vitnar í lokaritgerðinni sinni í fyrri rannsóknir sem tengjast þessum málaflokki og hafa verið gerðar hér á landi, en þar kemur fram að almennt sé viðhorf til eldri starfsmanna jákvætt. Þó finnist vísbendingar um að eldra fólk sé síður ráðið til starfa og að því bjóðist færri tækifæri til endurmenntunar en yngri starfsmönnum.
„Mýtur“ og veruleiki
Hún vitnar einnig í erlendar rannsóknir og segir:
Draga má þá ályktun að þær stöðluðu myndir sem uppi eru um miðaldra og eldra fólk í dag, jafnt í vinnuumhverfinu sem annars staðar, hefti framgang miðaldra og eldra fólks í starfi og leiði til mismununar. Samkvæmt þeim vinnur eldra fólk hægar, á erfiðara með að tileinka sér nýja þekkingu og færni, auk þess sem það hefur minni áhuga á námi eða símenntun.“
Þessar staðalímyndir koma hreint ekki heim og saman við veruleikann og vitnað er til finnskrar rannsóknar sem var gerð árið 2000. Þar kemur fram að þessar „mýtur“ eigi ekki viði rök að styðjast.
Þvert á móti aukist færni með árunum, meðal annars færni til ákvarðanatöku og til að leysa vandamál. Það sama á við um viljann til að læra nýja hluti og taka þátt í þjálfunar- og fræðsluprógrömmum“.
Langar að bæta tölvukunnáttuna
Viðtölin sem Jóna Valborg tók í sinni rannsókn sýna einnig að starfsmennirnir sem hún ræddi við höfðu mikinn áhuga á frekari menntun og fannst gaman að tileinka sér nýja tækni. Svo vitnað sé orðrétt í einn viðmælanda hennar sem er rúmlega sextugur.
Núna langar mig að bæta tölvukunnáttu mína. Ég er náttúrulega ekki alin upp á tölvuöld. Auðvitað kann ég á kerfið sem ég þarf að kunna á, en ég er bara ekki nógu flínk að senda linka, setja í möppur, breyta kerfum eða svoleiðis. Ég er oft búin að tala um að ég vilji fara á námskeið í tölvum. Hef sagt það í þessum starfsmannaviðtölum en svo gerist aldrei neitt. Ég held að þeir skrifi þetta bara niður og setji þetta svo í möppu.“
Yngra fólkið þorir ekki
Annar viðmælandi segir um færni til að taka ákvarðanir:
Svo er líka þegar maður er búinn að vera svona lengi á sama stað, þá verður maður líka svolítið kannski óhræddari við að taka ákvarðanir. Það kannski vantar eitthvað, þá pantar maður það eða gerir eitthvað í því.“
Og enn annar segir um þetta:
Yngra fólkið það þorir ekki. Ég hef gaman af að fylgjast með því. Það er farið alltaf aftur og aftur annan og annan hring, en einhvern tímann þarftu að segja: Nú bara gerum við þetta. Það er svona munur á eldra og yngra fólkinu, við bara látum vaða.“