Á ekki að refsa þeim sem vilja annast aðstandendur sína heima

Landssamband eldri borgara átelur harðlega, að 99 ára gamalli konu sem var sinnt af ættingjum skuli hafa verið neitað um pláss á hjúkrunarheimili,  þar sem ættingar hennar höfðu veitt henni þá þjónustu sem sveitarfélög ella veita sínu elsta fólki.  Sambandið skorar á færni- og heilsumatsnefnd að endurmeta stöðu málsins hið fyrsta.

Horft framhjá þjónustu aðstandenda

Landssambandið undrast það sinnuleysi stjórnvalda að meta ekki þá dýrmætu umönnun sem aðstandendur veita öldruðum. Í þessu tilviki er beinlínis horft framhjá því að aðstandendur, en ekki sveitarfélagið, veittu konunni þá þjónustu sem krafist er af  færni- og heilsumatsnefnd, þegar sótt er um hjúkrunarheimili.  Þegar kemur að innlögn á svona háum aldrei má ekki vanmeta umönnun aðstandenda. Þeir létta af samfélaginu miklum kostnaði sem enginn hefur mælt á undanförnum árum.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB

Heimaþjónustan virkar ekki alltaf sem skyldi

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambandsins minnir á könnun sem Sigurveig H. Sigurðardóttir félagsráðgjafi gerði, en hún sýnir að 58% þeirra eldri borgara sem þurfa aðstoð heima, fá hana frá ættingjum og vinum.  Þórunn segir að heimaþjónustan virki ekki alltaf sem skyldi og þess vegna kjósi aðstandendur sem vilja og geta, að sjá um sitt eldra fólk heima.  Það eigi ekki að refsa þessu fólki með því að neita háöldruðum aðstandendum þess um pláss á hjúkrunarheimilum. Auk þess sé margt eldra fólk sem eigi erfitt með að þiggja aðstoð frá sveitafélagi, finnist að það sé eins og að segja sig til sveitar.

Misjafnt eftir hverfum

Þórunn segir að færni- og heilsumatsnefndirnar hafi sannarlega verið til bóta með samræmdum vinnubrögðum, en mjög þröngu nálarauga.  Við bætist vandi vegna skorts á hjúkrunarheimilum. „En við þurfum að fá fyrsta stigið til að virka eins og á Norðurlöndum, þar sem heimaþjónustan og heimahjúkrun  er sterk.  Því miður er hjálpin heim ekki alltaf að virka eins og hún á að gera hérna hjá okkur. Það eru hverfi í borginni þar sem allt gengur vel, en svo eru önnur þar sem hún virkar ekki eins vel.  Þetta þarf að athuga“ segir hún

 

Ritstjórn september 12, 2017 11:24