Með aldrinum fara menn að missa heyrn, þó fólk missi heyrnina einnig yngra og þá af mismunandi ástæðum, svo sem vegna sjúkdóma eða annars skaða. Stundum fæðast börn líka heyrnarlaus. Þó fólk missi heyrn á öllum aldri er algengt að heyrnin versni eftir 65 ára aldur. Á vefsíðu Heyrnartækni segir meðal annars
Talið er að um 10% mannkyns hafi heyrnarskerðingu að einhverju leyti sem hafi áhrif á samskiptahæfni þeirra. Faraldsfræðirannsóknir gefa til kynna að þessi prósentutala muni hækka þar sem öldruðum sé stöðugt að fjölga. Tíðni heyrnarskerðingar er mest hjá þeim sem eru 65 ára og eldri en talið að um 33% þessa aldurshóps sé með skerta heyrn og að um 50% þeirra sem eru 75 ára eða eldri. Heyrnarskerðing getur þó oft á tíðum komið fram fyrr á aldurskeiðinu. Vinna í hávaða, sjúkdómar, lyfjanotkun og ættarsaga um heyrnarskerðingu geta meðal annars orðið til þess að heyrnarskerðing komi fyrr fram“.
Hæfileikinn til að nema hátíðnihljóð minnkar með aldrinum og eitt það fyrsta sem fólk verður vart við er að það á erfitt með að heyra í fjölmenni þar sem mikill kliður er. Síðan kemur sú tilfinning að fólk sé farið að tala óskýrt og þess vegna heyri maður ekki í því. Menn fara svo að hækka hljóðið í útvarpi og sjónvarpi þegar heyrnin versnar og hætta jafnvel á endanum að sækja leikhús vegna þess að þeir heyra ekki lengur það sem sagt er á sviðinu. Þegar þannig er komið er hætta á að fólk fari að einangrast vegna heyrnarleysis, það getur ekki lengur fylgt samræðum í hópi og heyrir hvorki í leikhúsi né á tónleikum.
En heyrnin er líka öryggistæki, sem hjálpar okkur að varast hættur. Við getum verið í vanda stödd ef við heyrum ekki í reykskynjara eða bílflautu.
Það er því nauðsynlegt að gefa því gaum, ef menn eru farnir að heyra illa en oft gerist það mjög hægt og á mjög löngum tíma, þannig að menn taka varla eftir því. Það er hægt að láta mæla í sér heyrnina bæði hjá háls, nef og eyrnalæknum, en einnig hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Heyrnartækni og fleirum sem bjóða uppá þessa þjónustu.