Sigurður G. Tómasson er stórt nafn í sögu útvarps en hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu í áratugi, þar á meðal sem dagskrárstjóri Rásar 2 um árabil.
Minna hefur borið á Sigurði undanfarið sem kemur ekki til af góðu því aðspurður segist hann vera orðinn blindur. Hann tekur þátt í starfi Blindrafélagsins og er formaður AMD félagsins sem er ensk skammstöfun fyrir augnbotnahrörnun en Sigurður hefur lengi verið sykursjúkur. Þrátt fyrir að vera orðinn lögblindur situr hann ekki aðgerðarlaus því hann stýrir t.d. opnu húsi hjá Blindrafélaginu einu sinni mánuði þar sem hann fær til sín áhugaverða gesti í spjall og þar nýtist honum reynslan úr útvarpinu þar sem hann sá um sérlega skemmtilega og vinsæla útvarpsþætti. Annars segist Sigurður hafa frekar hægt um sig og njóti þess að vera til en hann og eiginkona hans Steinunn Bergsteinsdóttir textílhönnuður, búa á yndislegum stað í Mosfellsbæ. Þau festu kaup á landi rétt fyrir neðan Reykjalund, fyrir nokkrum árum þar sem Sveinn Guðmundsson í Héðni byggði upphaflega sumarbústað. Nú er sá bústaður kominn inn í byggð þótt þau séu enn í miklu næði við Varmána sem liðast hjá landinu. Svo eru þau búin að byggja annað hús eftir eigin höfði. Þarna eru þau með marga ketti, hænur og hund og njóta sveitasælunnar. Þar fyrir utan er kominn lítill tveggja ára snáði í heiminn sem sonur þeirra á og kemur reglulega í heimsókn í sveitina til ömmu og afa.
Á landi Sigurðar og Steinunnar er mikil trjárækt en Sigurður var lengi framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur og er þar enn í stjórn. Í Skógræktarfélaginu er töluverð starfsemi og Sigurður tekur þátt í þeirri vinnu og þykir það sérlega áhugavert.
Það nýjasta sem Sigurður segist hafa tekið sér fyrir hendur er að láta byggja reykkofa á landi þeirra. Þar reykir hann lambalæri og kindalæri og Steinunn býr til bjúgu og pylsur sem þau reykja líka en Steinunn er annálaður meistarakokkur svo þau hjón eiga sameiginlegt það áhugamál að útbúa hráefni fyrir sælkeramat. Þeir teljast heppnir sem lenda í matarboði hjá Sigurði og Steinunni á ævintýralandi þeirra í Mosfellssveitinni.