Herdís Hallvarðsdóttir bassaleikari og fyrrum Grýla

,,Þessi aldur sem ég er á núna er sérlega skemmtilegur,” segir Herdís Hallvarðsdóttir brosandi en Herdísi þekkja margir sem bassaleikarann í hljómsveitinni Grýlurnar. ,,Það er af því að við vitum nú að við erum ekki eilíf af því ellikerling minnir á sig þótt hún sé ekki mætt á svæðið. En ef heilsan heldur er þessi miðjualdur svo spennandi og stundum enn meira spennandi en önnur tímabil. Til dæmis af því við erum ekki með ábyrgðina á litlum börnum heldur fáum við að njóta skemmtilegu stundanna með þeim og flestir eru líka fjárhagslega betur settir en á meðan þeir voru ungir svo ævintýrin bíða.”

Hljómsveitin Grýlurnar starfaði frá 1981 til 1983 og er talin fyrsta íslenska kvennahljómsveitin. Tónlist þeirra einkenndist af framsæknu rokki sem vakti töluverða athygli. Herdís hóf tónlistarnám ung en hún lærði á píanó, básúnu, óbó, fagott, gítar og sótti söngtíma en gítarinn var lengi  uppáhaldshljóðfærið. Það var hins vegar búið að úthluta gítarnum þegar Herdís mætti á fyrstu æfingu hjá Grýlunum svo hún tók bassann. Og núna er bassinn uppáhaldshljóðfærið hennar.

Herdís ætlaði aldrei að fara aftur í hljómsveit þegar Grýlurnar hættu en svo fór að hún var fengin í hljómsveitina Hálft í hvoru þar sem hún spilaði í nokkur ár eða til 1987 þegar til varð hljómsveit sem nefndist Islandica og hún var fengin til að vera með. Sú hljómsveit sérhæfði sig í flutningi á íslenskri alþýðu- og þjóðlagatónlist og var sérlega vinsæl meðal erlendra ferðamanna. ,,Islandica er skemmtilegasta samstarf sem ég hef lent í og við spiluðum um allt í mörg ár, bæði hérlendis og erlendis.”  En burtséð frá tónlistarstörfum hefur Herdís verið að gera ýmislegt annað.

Eiginmaður hennar er Gísli Helgason blokkflautuleikari og tónskáld með meiru og þau hjónin reka saman lítið fyrirtæki.

,,Síðustu 17 ár höfum við Gísli rekið fyrirtæki sem við nefnum Hljóðbók eða Hljóðbók.is. Við byrjuðum fyrsta árið með 6 hljóðbækur og allir héldu að við værum orðin biluð að reyna þetta og fullyrtu að enginn hefði áhuga á að hlusta á bækur. Gísli er lögblindur og nýtti sér strax þekkingu sem hann hafði aflað sér, einmitt af því hann sá ekki til að lesa venjulegt letur. Til að byrja með var þetta auðvitað áhættusamt af því fólk þekkti ekki þessa tækni en reksturinn fór hægt og sígandi batnandi. Og núna er hann orðinn sjálfbær því stór hópur kýs að hlusta líka á bækur, jafnvel þótt þeir geti lesið. Við tímum ekki að hætta að vinna heldur minnkuðum frekar við okkur og erum nú í samstarfi við Storytel. Við erum enn með hljóðverið og vinnum bara minna en við gerðum áður.”

Herdís hefur varið miklum tíma í að leita sér hjálpar eftir að hafa orðið alvarlega þunglynd um tvítugt. Henni fór hægt batnandi og loks upp úr þrítugu var henni farið að batna marktækt.

Fyrir tveimur árum kynntist hún svo félagsskap sem nefnist Vinir í bata, viniribata.is, og segir ómetanlegt starf sem þar er unnið. ,,Þetta eru tólf spora samtök fyrir venjulegt fólk, en langflestir burðast með einhvern farangur í lífi sínu. Vinir í bata er ekki fyrir fíkla neitt sérstaklega þótt unnið sé eftir tólf spora fræðunum, heldur fyrir hvern sem er til að finna frið og vellíðan. Mjög margir burðast með eitthvað sem gerðist fyrir löngu síðan, gömul sár sem hefta og aldrei hefur verið unnið úr.”  Herdís segir að hún hafi nefnt við Gísla hvort ekki væri sniðugt að kanna þennan félagsskap. ,,Hann hafði engan áhuga fyrst en svo kviknaði forvitnin og við fórum bæði. Hann fann sig fljótlega í þessum félagsskap og ég tímdi ekki að hætta því mér leist svo vel á þetta, og auðvitað var ýmislegt sem ég gat unnið með í svona hóp og margt hægt að læra bar af að hlusta á hina tjá sig,” segir Herdís og brosir. Ættingjar, hjón eða vinir eru aldrei saman í hópi. Við finnum bæði að þarna lærum við betri aðferðir til að takast á við lífið og losna við gömul og heftandi samskiptamynstur, og þarna getum við, ef við viljum, einnig talað um hluti sem við höfum burðast með og höfum ekki treyst öðrum fyrir. Þessi vondu mál komast upp á yfirborðið í samræðunum og eru meðhöndluð með þessu mjúka kerfi sem Vinir í bata bjóða upp á og þá setjast þau aftur niður í sálina og eru til friðs. Þetta geta verið mál eins og meðvirkni, reiði eða gremja sem fólk er fast í og léttirinn er óskaplegur,” segir Herdís og er geinilega umhugað um að aðrir viti af þessu dásamlega fyrirbæri.

Að sögn Sólrúnar Siguroddsdóttur, sem leiðir hópinn sem kemur saman í Grensáskirkju, á upphafið að Vinum í bata  rætur að rekja til þess að Helga Steinunn Hróbjartsdóttir fór til Bandaríkjanna að kynna sér starfsemina rétt fyrir aldamótin síðustu. Helga er móðir Bjarna Karlssonar prests sem er mörgum að góðu kunnur. Hún fann þetta prógram þar og fannst skorta eitthvað ámóta í íslensku samfélagi. Hún kom heim með bækur sem hún og Margrét Eggertsdóttir þýddu og komu þessu starfi í gang í nokkrum kirkjum á landinu. Þetta er verk sem vinnur sig sjálft í raun því þetta er í raun jafningjafræðsla þar sem enginn stjórnar og þetta kostar ekkert því allir vinna í sjálfboðavinnu. ,,Ég er bara ein úr hópnum og hef notað reynsluna sem ég hef fengið í gegnum þetta starf til að hjálpa öðrum til að ná þeim lífsgæðum sem ég hef fengið sjálf. Vinir í bata er byggt á tólf spora kerfinu og nýtist öllum, ekki bara þeim sem eiga við fíkn að stríða.”

Samtökin hafa verið starfandi í um tuttugu ár og hafa fengið inni í ýmsum kirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Þau eru lítið tengd þjóðkirkjunni að öðru leyti en að fá þar húsaskjól. Fundirnir hefjast á haustin og eru einu sinni í viku. Fyrstu fjögur kvöldin eru alveg opin og allir mega koma. Það er engin skuldbinding heldur er tíminn notaður til að kynnast og myndaðir eru hópar. Í fimmtu vikunni er hópunum lokað. Þeir vinna síðan saman um veturinn og útskrifast um vorið. Það er alltaf einn reynslubolti í hverjum hópi þannig að enginn verði út undan og enginn yfirkeyri hópinn. Þetta kostar ekkert, og skipst er á að koma með meðlæti með kaffinu. Svo leggja allir til smávegis pening í kaffibauk og afraksturinn úr honum fer í útskriftarveislu sem haldin er um vorið. Að sjálfsögðu er fyllsta trúnaðar gætt í svona hópi. Þessi félagsskapur hefur verið mér til mikillar gleði, það verður lífsstíll að vinna með sporin, og þarna hef ég eignast góða vini,” segir Herdís.

Grunnurinn að vanlíðan Herdísar var kynferðisleg misnotkun sem hún varð fyrir sem barn. Hún var svo óheppin að vera fórnarlamb ókunnugra misindismanna sem sluppu af því hún sagði ekki frá heldur lenti í gildru sjálfsásökunar og einangrunar eins og fórnarlömbin gera svo oft. Herdís  sagði því ekki frá fyrr en hún var orðin tvítug en þá brast stíflan og hún brotnaði. Hún fékk sem betur fer hjálp en skaðinn sem verður við slíka misnotkun verður aldrei læknaður að fullu. Herdís segir að sársaukinn búi með manni og verði m.a. að reiði, bælingu, fælni og þrúgandi lélegu sjálfsmati. Hún lenti til að byrja með inni á geðdeild þar sem batinn hófst en hún hefur líka leitað annarra leiða, eins og hjá Vinum í bata, en trúin hefur líka verið sterkt afl í lífi Herdísar.

Herdís á tvö börn, stúlku sem hún átti fyrir og hefur alist upp hjá Gísla frá fjögurra ára aldri og svo eiga þau son saman. Dóttir hennar var að flytja heim úr námi með manni sínum og þremur börnum svo nú eru Herdís og Gísli komin í ömmu- og afaleikinn og njóta ríkulega.

Svo eignaðist Herdís áhugamál nýlega sem er að ganga út í íslenskri náttúru. Hún er búin að fara upp að gosi, búin að fara upp að Steini og ganga á Búrfell. ,,Við erum tvær að þjálfa okkur til að komast í lengri göngu í haust og þetta er ótrúlega skemmtilegt.”

Þau hjónin eru sumarbústaðafólk og eiga bústað í Grímsnesi sem þau njóta ríkulega að vera í.

Herdís er á fljúgandi fart áfram og er að læra að skilja fargið eftir og njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 20, 2021 13:59