Heimur versnandi fer, er oft haft á orði. En er það rétt? Það segja sumir, en aðrir benda á að heimurinn fari í raun batnandi, fátækt fari til dæmis minnkandi og ýmsir aðrir mælikvarðar eru notaðir til að sýna að ástandið í heiminum sé betra nú en áður. Þetta máltæki er líka stundum notað þegar eldra fólk mærir það sem áður var og hefur allt á hornum sér varðandi breytingarnar í nútímanum. Ég heyri stundum eldra fólk hneykslast á unga fólkinu og jafnvel tala niðrandi um ungt fólk. Það sé sjálfupptekið, hangi í símanum og líkamsræktinni, ófært um almenn samskipti, fyrir nú utan að þeir sem séu að taka við keflinu af eldri kynslóðinni í þjóðfélaginu viti ekkert og kunni ekkert. Þetta er samt fólkið sem eldri kynslóðin ól upp og bjó undir lífið. Þeir sem vilja að unga fólkið beri virðingu fyrir þeim sem eldri eru, verða að sjálfsögðu einnig að bera virðingu fyrir því.
Það er hins vegar víst að allar eldri kynslóðir sögunnar hafa haft af því áhyggjur að unga fólkið fari óvarlega og eigi eftir að koma okkur öllum á kaldan klaka. Það hefur samt enn ekki gerst. Ef farið er aftur alla leið til Cicero sem skrifaði bók sína um ellina árið 44 fyrir Krist, að því er talið er, má finna þar fordóma í garð ungs fólks. Þannig segir í bókinni. Það eru fyrst og fremst ungir menn og óreyndir sem hafa kollvarpað voldugum borgum, en öldungar hafa afstýrt voðanum og reist þær við á ný. Það eru sum sé þeir sem eru eldri og reyndari sem hafa bjargað málunum þegar unga fólkið var búið að koma öllu í þrot.
Bryndís Víglundsdóttir brautryðjandi í menntamálum þroskaheftra hér á landi sagði eitt sinn í viðtali við Lifðu núna, að það væri stórhættulegt fyrir þá sem eldri eru að hafa allt á hornum sér varðandi nútímann. Mér hefur oft dottið þetta í hug þegar ég fylgist með umræðunni í kringum mig. Ég man sérstaklega eftir manni sem ég þekkti. Hann var hættur formlegu starfi og kominn á eftirlaun, en sat heima og fylgdist vel með því sem gerðist á fyrrum vinnustað hans og fann unga fólkinu sem þar var að taka við, allt til foráttu. Honum fannst vankunnáttan yfirgengileg og allt á niðurleið á vinnustaðnum. Hann sem hafði kunnáttuna og reynsluna lagðist í símann til að reyna að afstýra ósköpunum og hellti sér yfir þá starfsmenn sem hann náði til.
Ég hef reynt að hafa þetta sem víti til varnaðar, því stundum dett ég líka í þann pytt að kvarta yfir nútímanum. Það var til dæmis allt svo miklu einfaldara þegar við höfðum bara fjóra stjórnmálaflokka og við þekktum persónulega flesta þá sem voru við stjórnvölinn. Hvað höfum við eiginlega að gera við alla þessa nýju flokka? En allt hefur sína kosti og galla. Nútíminn hefur sína kosti og galla, það höfum við sem eldri erum líka og unga fólkið að sjálfsögðu einnig. En það er nú einu sinni þannig að það er alltaf skemmtilegra og uppbyggilegra að horfa á jákvæðu hliðar lífsins og tilverunnar. Unga fólkið er að gera sitt besta og það er allt í lagi að hafa í huga að við sem erum núna að nálgast eftirlaunaaldurinn vorum eitt sinn ung og reynslulaus.
Unga fólkið í dag, er vel að sér, það er meðvitað um ótal hluti sem mín kynslóð var ekkert sérstaklega að velta fyrir sér, til dæmis um andlega líðan fólks og umhverfismál. Það má tala upphátt í dag um andleg veikindi, við erum farin að flokka sorp og aka um á umhverfisvænni bílum. Unga fólkinu finnst líka sanngjarnt að geta lifað af 40 stunda vinnuviku og hverjum finnst það ekki? Það er líka á einu sviði sem mér finnst ungt fólk í dag standa sig alveg sérstaklega vel. Það hugsar ótrúlega vel um börnin sín, barnabörnin okkar. Það er kannski þess vegna sem því finnst ekki lengur boðlegt að vinna alltof langa vinnudaga. Það er líka ánægjulegt að sjá unga fólkið sem er að taka við í pólitík og á ýmsum sviðum í samfélaginu, hvað það er frambærilegt og vel menntað. Ég hef fulla trú á því að börnin okkar og barnabörnin eigi eftir að bæta heiminn, þannig að það er ekkert að óttast, heimur batnandi fer.