Púður dregur fram hrukkurnar

Ragna Fossberg

Ragna Fossberg

Konur sem eru orðnar þroskaðar eiga að vara sig á of þurru meiki.  „Húðin er orðin þurr og þarf ekki á meiri þurrki að halda“, segir Ragna Fossberg förðunarmeistari, sem gefur lesendum Lifðu núna ráð um snyrtingu.  Ragna mælir með að nota léttan kremkendan farða fyrir húð sem er farin að eldast. Og liturinn skiptir miklu máli. Þessi farði eru kallaður BB farði í snyrtivörubúðunum.

Eins og höfuðið tilheyri öðrum líkama

„Við viljum að liturinn sé upplífgandi,  ekki grár og niðurdrepandi“, segir Ragna.  „Við viljum halda ferskleika í húðinni“.  Hún segir ágætt að taka einum tóni dekkri farða, en húðlitinn og ekki megi gleyma að bera farða niður á hálsinn. „Það er ekkert jafn ljótt og meik-gríma“ heldur hún áfram, „þykkur farði sem endar á kjálkabeini. Höfuðið er þá eins og það tilheyri öðrum líkama“.

Brúnkukrem undir farðann

Farðinn þarf sum sé að ná niður á hálsinn. „ En ef menn eiga mjúkt brúnkukrem ekki of dökkt, til dæmis St. Tropez“, segir Ragna, „er frábært að setja það á sig undir meik og niður á hálsinn svona tvisvar í viku.  Þá er hægt að losna við að farðinn fari í fötin .  Brúnkukrem smitar ekki út frá sér en gefur fyllingu í húðlitinn.

Púður þurrkar húðina

Ragna mælir ekki með miklu púðri yfir farðann og  heldur ekki með púðurmeiki fyrir eldri húð, eða kökumeiki.  „Púður þurrkar húðina og dregur fram hrukkur“, segir hún.   Ragna segir að það sé gott að nota svokallað „blush“ yfir farðann, en það er kinnalitur sem er til í bæði brúnleitum og bleikum litum.  Hann sé settur á með bursta sem gefi létta áferð.

Frískað uppá meikið

Ragna segir að þegar konur hafa verið með farða allann daginn, sé gott að fríska uppá það með „blush“ púðri í ferskum lit og nota bursta til að setja það á.

 

 

 

Ritstjórn október 1, 2014 14:59