„Skúrinn veitir öruggt og vinalegt umhverfi þar sem karlmenn á öllum aldri geta unnið að sameiginlegum eða persónulegum verkefnum sem þeir ákveða sjálfir á sínum eigin hraða,“ segir Hörður Sturluson verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum. Karlar í skúrum er samfélagslegt verkefni og það er opið fyrir alla karlmenn 18 ára og eldri. Þó að þetta sé opið öllum körlum þá eru það enn sem komið er eingöngu karlar á eftirlaunum sem hafa nýtt sér aðstöðuna í skúrnum. „Það er einföld skýring á því, þeir sem komnir eru á eftirlaun hafa oft mun rýmri tíma en hinir. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar menn fara á eftirlaun þá missa þeir oft tengst við félaga og kunningja og sumir hafa misst maka sinn. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun þeirra,“ segir Hörður og bætir við að verkefnið sé að erlendri fyrirmynd. Það byrjaði í Ástralíu en hefur slegið í gegn víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Þannig eru rúmlega 400 skúrar á Írlandi þar sem yfir 10.000 karlar hittast í hverri viku. „Rauði krossinn í Hafnarfirði réð mig til að sjá um þetta verkefni og ég fór meðal annars til Írlands að kynna mér hvernig þeir hafa staðið að þessu þar. Þeir byrjuðu fyrir átta árum og hafa því orðið góða reynslu sem þeir miðla til okkar. Fyrsti fundurinn okkar hér á Íslandi var í desember og þá mættu 15 til 20 karlar. Við héldum svo áfram að hittast og kynna verkefnið í vetur. Fyrsta mál á dagskrá var að finna hentugt húsnæði og það fengum við í apríl. Síðan hafa menn verið að innrétta og koma húsinu í stand. Við ætlum að byrja með 30 karla en getum örugglega bætt fleirum við því það mæta ekki allir alltaf þegar það er opið.“
Nú er búið að innrétta kaffistofu og þar fær listmálari í hópnum aðstöðu. Það er komið myrkvaherbergi því tveir hafa mikinn áhuga á ljósmyndun. Svo hafa karlarnir líka fengið allskonar smíðatól að gjöf frá fyrirtækjum og velunnurum enda hafa margir karlar mikinn áhuga á smíðum. „Hér kennir hver öðrum og allir hjálpast að. Menn vinna að hugðarefnum sínum á sínum forsendum. Markmið karla í skúrum er að skapa aðstæður þar sem heilsa og vellíðan karlmanna er í fyrirrúmi, þar sem þeir halda sér við líkamlega, andlega og félagslega. Hugmyndafræðin byggist á rannsóknum þar sem kemur fram að karlmönnum finnst best að tala saman þegar þeir eru að vinna með eitthvað í höndunum og þegar þeir standa saman öxl í öxl frekar en beint á móti hver öðrum. Aðaltakmark Karla í skúrum er að koma í veg fyrir félagslega einangrun og neikvæðar afleiðingar hennar, með því að skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra forsendum,“ segir Hörður.
Karlar í skúrum er staðsett að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði. Hörður segir að það sé draumurinn að stækka verkefnið enn frekar og opna á skúra á fleiri stöðum, hann vilji til dæmis opna skúr í Garðabæ. Núna í júní og júlí er opið í Hafnarfirði á þriðjudögum frá klukkan 14.00 og fimmtudögum frá klukkan 10.00. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar geta sent Herði tölvupóst hordur@redkross.is