Tengdar greinar

Frumleg hálfsystkini Janusar

Bókin Samfeðra eftir Steinunni G. Helgadóttur hefur fengið góða dóma og er á metsölulistanum í Bókabúðum Eymundsson. Bókin segir frá Janusi, sem kemst að því þegar móðir hans fellur frá að hann á ellefu hálfsystkini á svipuðu reki víðsvegar um landið. Hann leggur af stað í ferðalag, þjóðhátíðarárið 1974 til að kynnast þessum systkinum sínum.  Fyrstu hálfsystkinin sem hann kynnist eru þríburar, þrjár stúlkur sem eru þegar sagan gerist, á leið í ferðalag til San Francisco. Móðir þeirra er sögupersónan í þessum kafla og vitnar einatt í það hvað var að gerast í útlöndum, þegar þetta eða hitt  átti sér stað í hennar lífi. Dæmi:

Á meðan ég geng þennan spotta í vinnuna brennur hótel í Belgíu með ægilegum afleiðingum. Sumir velja meira að segja að kasta sér út um glugga í von um um að lenda í neti slökkviliðsins sem virðist svo örsmátt, langt fyrir neðan, en aðrir láta sig bara hafa það að brenna inni.

Þetta frétti ég þó ekki fyrr en morguninn eftir, þegar ég stend falin á bak við gardínuna og hlusta á útvarpið með öðru eyranu á meðan ég horfi á eftir stelpunum fylgja Janusi  í rútuna.

Það er skemmtilegt stílbragð að láta ýmsa aðra en Janus og systkinin segja söguna af því þegar hann hittir hálfsystkinin, nú eða hittir þau ekki. Almennt er sagan vel skrifuð og skemmtileg. Blaðamaður Lifðu núna, hafði sérstaklega gaman af frásögninni af drottningu hringvegarins, hálfsysturinni Brynhildi sem er einstæður og atvinnulaus bifvélavirki sem situr uppi með gamlan ónýtan Bedford, þegar kærastinn yfirgefur hana fyrir aðra konu og tekur með sér glænýjan Volvo flutningabíl sem þau áttu.

Allir í bænum, frá gamlingjunum á dvalarheimilinu til stráksins í húsinu á móti sem missti fyrstu barnatönnina í vor, vita nú að Anton er farinn frá mér fyrir Flutningamiðstöðvarprinsessuna því fréttir af þessu tagi næða á milli húsanna hér. Allir vorkenna mér og ég er niðurlægð en held mér gangandi með líflegum hugmyndum um hefnd þó ég viti ósköp vel að ef hann Anton léti sjá sig hér í dyrunum myndi ég taka honum fagnandi, læsa hann inni hjá mér og gleypa lykilinn.

Það vantar ekki húmorinn og frásagnargleðina í þessa bók og merkilegt að leigubílstjórinn sem lýst er í einum kafla bókarinnar og virðist frekar fráhrindandi persóna og jafnvel litlaus, hafi eignast öll þessi frumlegu og skemmtilegu börn. Það er sannarlega hægt að skemmta sér við að lesa þessa bók, á sólarlausum sumardögum, eða bara í sumarleyfinu.

 

Ritstjórn júní 26, 2018 12:00