Eftirlaunamenn í Danmörku búa líka við skerðingar

Margir eftirlaunamenn bera ekki nógu mikið út býtum þó þeir séu á vinnumarkaðinum. Það þarf að hækka frítekjumarkið úr 60.000 krónum á ári í 100.000 krónur á ári, segir framkvæmdastjóri Faglige Seniorer í Danmörku í grein sem birtist á vefsíðu samtakanna. Þar segir jafnframt að eftirlaunamenn sem séu í vinnu, borgi himinháa skatta.

Kannast einhver við þetta? Frítekjumarkið á mánuði í Danmörku er 84.000 krónur, í íslenskum krónum eða lægra en hér, þar sem frítekjumarkið er 100.000 krónur íslenskar á mánuði. Samtök eftirlaunafólks í Danmörku vilja að það verði hækkað í 140 þúsund krónur á mánuði.

Eftirlaunafólk flykkist út á vinnumarkaðinn, segir í þessari dönsku grein. Á síðustu fjórum árum hafa 50.000 nýir eftirlaunamenn streymt út  á danska vinnumarkaðinn.  Þetta er mun meiri fjölgun en í öðrum aldursópum.

Ein skýringanna á þessu er að eftirlaunaaldur hefur verið að hækka í Danmörku og það er full þörf fyrir þetta fólk á vinnumarkaðinum.  Það skiptir líka máli að fólk sem er 65 ára og eldra ræður sig í auknum mæli í fullt starf eða hlustastarf. Það er miklu meira um það en áður.

Það fylgja þessu ákveðinir kostir, segir í greininni. Eftirlaunafólkið hefur ánægju af að taka til hendinni, þjóðfélagið fær fleiri vinnandi hendur og skatttekjur hins opinbera aukast.  En gallarnir fyrir eftirlaunafólkið eru þeir  að eftirlaunin skerðast og jaðarskatturinn vegna launavinnunnar er himinhár.

Það er ekki verið að tala um eftirlaunafólk í fullri vinnu. Það þarf ekki á tekjum frá ríkinu að halda, heldur horfa menn á þá sem eru í hlutastörfum með takmarkaðar tekjur af launavinnu, segir í greininni. Það eru þeir sem verða fyrir skerðingum ef þeir fara að vinna. Þetta er nákvæmlega útskýrt í greininni, en danska kerfið er nokkuð frábrugðið kerfinu hér, þannig að það er  flókið að bera það beint saman við aðstæður hér á landi.

Það segir jafnframt í greininni, að það sé eftirspurn eftir eldra fólki í vinnu. Í nútímafyrirtækjum þar sem skipulag er sveigjanlegt, getur komið sér vel að hafa eldra fólk með reynslu í vinnu, jafnvel þó það sé í hlutastarfi.

Faglige seniorer vilja sum sé  láta hækka frítekjumarkið úr rúmlega einni milljón íslenskra króna á ári í tæp 1700 þúsund. (úr 60.000 dönskum krónum í 100.000) og telja að það geti gert stórum hópum eftirlaunamanna mögulegt, að drýgja tekjur sínar með launavinnu. Samtökin vilja hvetja eftirlaunafólk til að vinna og telja að það komi samfélaginu til góða og auki skatttekjur ríkisins. Það hagnist allir á því.

 

Ritstjórn júlí 9, 2018 11:24