Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða var í morgun í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu og gagnrýndi þar tekjutengingar í almannatryggingakerfinu. Hún sagði að ríkið gengi alltof langt í að skerða bætur fólks úr almannatryggingakerfinu vegna þeirra greiðslna sem það fær úr lífeyrissjóðakerfinu. Það valdi því að margt fólk sem sýndi fyrirhyggju og lagði fyrir, sjái þess ekki stað í betri kjörum eftir starfslok. Grípum niður í frásögn af viðtalinu á vef RÚV
Það eru miklar tekjutengingar í kerfinu. Almenningur er óánægður með það, sem er mjög skiljanlegt, að þeir sem hafa verið að leggja fyrir í lífeyrissjóð að þeir sjá kannski lítið í eigin vasa af því að ríkissjóður tekur greiðslur á móti með skerðingum á almannatryggingakerfinu.“ Þórey segir að þetta þurfi að skoða betur og móta þurfi skýra framtíðarsýn á lífeyriskerfið. Byggt hafi verið upp mjög öflugt lífeyrissjóðakerfi sem standi undir sínu hlutverki. „En að sama skapi þá kemur ríkissjóður og skerðir greiðslur frá almannatryggingum. Það gerist alltof hratt að mínu viti.“ Hún segir að þetta sé ekki aðeins hennar skoðun heldur heyrist óánægjuraddir víða vegna þessa. Að auki séu tekjutengingarnar mismunandi. Þannig sé allt tekjutengt þar sem sjóðir séu með mikla samtryggingu en viðbótarlífeyrissparnaður og séreign séu ekki tekjutengd.
„Eins og staðan er núna þá er stór hluti fólks sem er verið að þrýsta niður á bara einar greiðslur, alveg sama hvað það sýndi mikla fyrirhyggju á lífsleiðinni í að leggja fyrir. En auðvitað vitum við líka að það er fullt af fólki sem hefur ekki færi á að leggja fyrir sjálft,“ sagði Þórey á Morgunvaktinni á Rás 1.
Hér má hlusta á viðtalið við Þóreyju.