Hvað er faxvél ?

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hitti reynda fjölmiðlakonu frá stórveldi einu í austri í vor og bað hún mig um að koma í heimsókn og kenna á stuttu endurmenntunarnámskeiði fyrir blaðafólk þar í landi nú á haustdögum. Mér þótti heiður að þessu trausti og sagði já. Í kjölfarið fékk ég sent boðsbréf þessu til staðfestingar og í barnaskap hélt ég að málið væri í höfn og ég gæti lagt upp í ferðalagið með vegabréfið og boðsbréfið upp á vasann.

Ég var í höfuðborginni á dögunum og til öryggis leit ég við í sendiráði viðkomandi lands. Þar var ég upplýst um að málið væri nú ekki svona einfalt. Boðsbréf í tölvupósti væri ekki gilt. Annað hvort boðsbréf með bláum stimpli eða boðsbréf í gegnum fax væri forsenda vegabréfsáritunar, einnig passi sem væri gildur minnst 6 mánuðum eftir heimsóknina, ljósmynd með hvítan bakgrunn, gleraugnalaus ætti ég að vera og skartgripalaus, alls ekki brosandi og bæði eyru sýnileg. Umsókn, sem væri að finna á heimasíðu sendiráðsins, þyrfti að fylla vandlega út, prenta út og undirskrifa og loks þyrfti ég að koma með 4.500 krónur í seðlum og greiða á staðnum.

Ég fór út með þennan lista. Sendi konunni góðu beiðni fyrir  þremur vikum um að senda mér í snigilpósti löglegt boðsbréf með bláum stimpli. Ekkert bólaði á bréfinu og þá voru góð ráð dýr þar sem nú styttist í ferðalagið og ferlið við vegabréfaáritun tekur 10 daga þegar búið er að skila öllu inn. Faxið góða virtist vera bjargvætturinn. Háskólinn á Akureyri gefur upp faxnúmer, en vélin reyndist biluð. Ég hafði samband við Akureyrarbæ, útvarpsstöðina í bænum, pósthúsið, símafyrirtæki, Náttúrufræðistofnun og Íslandsbanka. Sumir sögðust vera með rykfallna faxvél einhvers staðar sem væri hætt að virka. Einhver hafði farið með tækið á haugana. Aðrir horfðu á mig og spurðu hvort ég væri að villast á öld. Ungur maður horfði á mig stórum augum og spurði – hvað er faxvél ?

Í gærkvöldi fékk ég skilaboð frá tæknimönnunum í háskólanum. Þeim hafði tekist að hrista faxvélina í gang með afli og út skrölti boðsbréfið. Á meðan ég var að skrifa þessar línur datt svo inn í gegnum lúguna tilkynning um að ég ætti ábyrgðarbréf á pósthúsinu. Ég er því sennilega á leið í heimsókn til stórveldisins í austri, með boðsbréf upp á vasann bæði á faxi og með bláum stimpli. Geri aðrir betur !

Þessi örvæntingarfulla leit í mín að faxvél rifjaði upp mín fyrstu kynni að þessari merkilegu vél og hversu miklu tilkoma hennar breytti í öllum samskiptum. En faxið heyrir greinilega sögunni til. Ég legg því til að Þjóðminjasafnið eignist eintak af þessu merka samskiptatæki fortíðarinnar áður en það verður of seint og auk þess legg ég til að sendiráðið góða endurskoði viðhorfið til boðsbréfa í gegnum tölvupóst.

 

 

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir september 10, 2018 06:27