Og ellefu og tólf..lyfta hælum.. og einn..og tveir.. og þrír… og fjórir……kallar Brynjólfur Björnsson leiðbeinandi í vatnsleikfiminni í Laugardalnum, undir fjörugum harmónikutónum. Sólin skín og rúmlega 40 þáttakendur hreyfa sig í takt við leiðbeiningar Brynjólfs. Stundum eru þó fleiri í tímunum, allt uppundir 80 manns, enda er vatnsleikfimin ókeypis. Það er einnig boðið uppá vatnsleikfimi í Sundhöllinni, Breiðholtslaug, Grafarvogslaug, Árbæjarlaug og Vesturbæjarlaug.
Svaka fín stemming
„Aðsóknin er mest þegar fer að vora og sumra og veðrið er gott, en svo fækkar aðeins yfir veturinn“, segir Brynjólfur þegar við náum tali af honum og bætir við að hópurinn í Laugardalslauginni sé mjög öflugur, fólk sé farið að þekkjast og stemmingin í hópnum sé góð. Hann segir sama eiga við um hinar Reykjavíkurlaugarnar. „Það er svaka fín stemming alls staðar og lítið um að fólk komi og fari. Fólk er það lengi, það kynnast allir og þekkjast vel og þeir sem stunda vatnsleikfimina finna fyrir breytingu“ segir hann. „Liðleikinn eykst og menn fara aftur að geta gert ýmislegt sem þeir voru hættir að gera, svo sem eins og teygja sig upp í efri skápa. Ég heyri í mörgum sem segja „Þetta heldur í mér lífinu“. Það er hreyfingin, teygjurnar og svo félagslegi þátturinn hann er rosalega mikilvægur. Sundlaugin býður fólkinu alltaf í kaffi eftir síðasta tíma vikunnar og þá sitja menn og spjalla“. Hann segist verða var við að eldri borgaranir hafi mikið að gera í dag, jafnvel meira en þegar þeir voru í vinnu og telur að flestir viti núna af því sem er í boði fyrir þennan aldurshóp. Vatnsleikfimin hefur verið í sundlaugum borgarinnar í 40 ár og Brynjólfur varð þess var fyrir svona 15-20 árum að menn vissu ekki af henni og að hún væri í boði ókeypis fyrir eldra fólk. „En ég held að það viti þetta allir núna“, segir hann.
Heldur manni gangandi
Blaðamaður Lifðu núna spjallaði við nokkra þáttakendur í vatnsleikfiminni sem voru mjög ánægðir með tímana. „þetta er alveg dásamlegt og heldur manni gangandi“, sagði 84 ra ára gömul kona. Hún sagðist þurfa á þessu að halda og kaffinu á eftir. „ Ég er slæm af slitgigt og annað hvort verður maður að gera eitthvað eða maður liggur bara einhvers staðar. Það er nauðsynlegt að hreyfa sig þegar maður er kominn á þennan aldur og ég hef alltaf gert það“, sagði hún. Það voru raunar fleiri sem nefndu að það væri gott fyrir fólk með slitgigt að fara í vatnsleikfimi. Eldri kona sagðist fara reglulega, „Þó maður sé stundum latur í leiðinlegu veðri fer maður alltaf. Stundum verður maður dasaður á eftir, það er mótstaða í vatninu og ef maður vill gera æfingarnar vel, finnur maður fyrir þeim eftirá.. Mér finnst það frábært framtak hjá borginni að bjóða uppá þetta ókeypis fyrir eldra fólk sem er orðið 67 ára.
Svo er vatnsleikfimin ókeypis
Nokkrir þeirra sem voru í vatnsleikfiminni fóru í heita pottinn á eftir og við hittum þá fyrir í sjópottinum, en í honum er sjór, eins og heitið gefur til kynna. Öll eru þau ánægð með vatnsleikfimina. Einni konunni finnst gott að vakna út í daginn og hafa þann tilgang að fara í sundið í yndislegu umhverfi „Með fólki sem er gaman að kynnast“. Önnur segir gott fyrir þá sem búa einir að kynnast fólki og spjalla. Það keyri fólk áfram á veturna að fara í sundið og þegar þangað sé komið, sé veðrið alls ekki jafn slæmt og í fyrstu virtist. „Svo er vatnsleikfimin ókeypis“, segir ein kvennana í hópnum og segist ekki myndu fara nema af því svo væri. Þau eru sammála um hversu gott það er að sækja leikfimina. „Annars værum við öll lögst í kör“, segir ein og allir í pottinum fara að skellihlæja.
Sjáðu hvaða þjónustu Reykjavíkurborg býður eldri borgurum með því að smella hér á Upplýsingabanka Lifðu núna.