„Þegar ég loks horfðist í augu við mín eigin gen í föðurætt tók við atburðarás sem var eins og stjórnlaus hvirfilbylur, bylur sem gekk yfir tilfinningalífiðog þurrkaði út allar skilgreiningar á réttu og röngu. Freistandi er að láta sem ekkert hafi gerst því enginn vill vera dæmdur fyrir þá synd sem karlmenn hafa verið hálshöggnir fyrir en konum drekkt,“ segir Ásdís Halla Bragadóttir rithöfundur og athafnakona í formála að bók sinni Hornauga. Þegar að blóðfaðir Ásdísar Höllu var fundinn ákvað hún að kynnast föðurfólki sínu betur og heillaðist fljótlega af sögu formæðra sinna. Hún leitaði fanga í skjalasöfnum heima og erlendis, gróf upp áður óbirt einkabréf og umdeildar játningar. Í þessum merkilegu konum fann hún hinn helminginn af sjálfri sér, í konum sem höfðu ýmsu áorkað en jafnframt misstigið sig illa og verið litnar hornauga. Lifðu núna greip á tveimur stöðum niður í bókinni þar sem Ásdís Halla segir frá sambandi sínu við hálfbróður sinn.
Til að gera langa sögu stutta stóð ég við loforðið sem ég hafði gefið syni Halldórs um að hafa samband við hann ef í ljós kæmi að einhver áhöld væru um faðerni mitt. Við ákváðum að hittast á kaffihúsi til að ræða málin og hann átti frumkvæði að því að bjóðast til að fara í DNA-próf til að kanna hvort skyldleiki væri með okkur. Ef prófið útilokaði skyldleika væri engin ástæða til að hitta Halldór sjálfan eða hafa frekari kynni af þeim feðgum. Mér fannst það hljóma vel því mér fannst ekki eftirsóknarvert að hefja samskipti við hugsanlegan blóðföður ef í ljós kæmi að við værum ekki skyld og hann þar að auki á pari við þann mann sem móðir mín lýsti.
En um leið og ég hitt son hans fékk ég það á tilfinninguna að samskipti mömmu og Halldórs – um það bil níu mánuðum fyrir fæðingu mína- hefðu verið öllu nánari en hún vildi kannast við. Hann var hærri en í meðallagi, brúnhærður, með svipaðan húðlit og ég, og líkamsbeitingin var óþægilega kunnugleg. Þegar hann lagði höndina á borðið á kaffihúsinu brá mér við að sjá líkindin, hendurnar mótaðar á sama hátt og mínar, sýnileiki æðanna sem þræddu handarbakið var það sama – þykkt húðarinnar og áferð hennar, allt nauðalíkt. Þó var það fasið eða einhvers konar taktur í samskiptunum sem mér fannst kunnuglegastur, hvernig hann beitti röddinni og notaði áherslur og þagnir þegar hann sagði mér allt það helsta um Halldór og fjölskylduna.
Nokkrum vikum síðar staðfesti DNA-prófið að tengsl væru okkar á milli og að maðurinn, sem hét fullu nafni Halldór Kr. Hjartarson, væri hinn raunverulegi faðir minn. Að óreyndu hafði ég talið að fullorðið fólk eins og ég léti það ekki slá sig út af laginu að eignast nýja ættingja. Hvað eftir annað hafði það gerst í mínu lífi en aldrei höfðu tíðindin haft varanleg og dramatísk áhrif á tilfinningalíf mitt.
Skyndilega var allt breytt. (22-23)
Ég varð ráðvillt og skildi ekkert í því hversu upptekin ég var af hálfbróður mínum og samskiptum við hann. Ég hafði mig til áður en ég hitti hann, keypti ný föt og naglalakk, málaði mig og notaði ilmvatn. Barnaleg eftirvænting einkenndi fasið. Ég viðurkenndi varla fyrir sjálfri mér hversu spennt ég var og reyndi annað slagið að telja mér trú um að þetta gæti ekki gengið. Eða hvað? Hugsanirnar fóru í hringi. Gat þetta gengið eða ekki? Gat ég jafnvel látið það eftir mér að upplifa þá líkamlegu snertingu við spegilmynd mína sem ég þráði svo heitt?
Í fyrstu vonaðist ég til að þessar furðulegu kenndir gengju hratt yfir en þegar þær gerðu það ekki var óhjákvæmilegt að ræða líðanina við Aðalstein. Ég kveið samtalinu og ýtti því á undan mér en til að búa mig undir það fór ég að leita að umfjöllun og fræðigreinum sem skýrt gætu hrifningu hálfsystkina. Ég var ekki búið að leita lengi þegar ég fann greinar um fyrirbæri sem kallast Genetic sexual attraction og mætti á íslensku nefna genetíska kynferðislega hrifningu eða einfaldlega genahrifningu. Mér var brugðið við orðalagið og þá sérstaklega hugtakið sexual attraction, sem er svo sóðalega óviðeigandi á milli ættingja.
Skilgreiningin nær yfir hrifningu á milli tveggja fullorðinn einstaklinga sem í flestum tilvikum eru hálfsystkini, en einnig eru dæmi um hrifningu á milli foreldra og fullorðinna barna. Tilfinningarnar er oft gagnkvæmar, en stundum eru þær einungis frá einum aðila til annars. Ekki er um að ræða þvingun heldur frjálsan vilja sjálfráða einstaklinga sem oftast eru í tilfinningalegu uppnámi vegna endurfunda eða nýlegra kynna. Ástandið er lítt rannsakað vegna þess hve vandræðalegt og dulið það er, en talið er að um helmingur þeirra sem hitta ný systkini eða foreldra sem þau hafa ekki alist upp með upplifi þráhyggju eftir mjög nánum samskiptum og í sumum tilvikum líkamlegum. (202-203).