Tengdar greinar

Vinskapur og ást skipta miklu fyrir heilsuna

Á vefnum sixtyandme, hafa birst greinar þar sem sjónum er beint að því sem hefur áhrif á heilsuna. Þessi kafli sem hér fer á eftir, lýsir því hversu mikil áhrif vinátta og góð sambönd við aðra hafa á líf okkar. Þessi grein fer hér á eftir í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

Mikilvægi sambanda

Einmanaleiki tengist ótímabærum andlátum. Að vera einmana snýst um að vera einangraður félagslega. Það er sár tilfinning manneskju sem finnst hún vera ein í heiminum. Einmanaleika í nútíma samfélögum er stundum líkt við faraldur .

30% kvenna sem eru 75 ára og eldri eru einmana, samkvæmt könnun sem gerð var í Kanada. Í þessari sömu könnun kom fram að félagsleg tengsl auka líkurnar á því að menn lifi af hvaða ár sem er, um 50%. Þettta sýnir hversu mikilvægt það er að hlúa að sínum félagslegu tengslum. Öll viljum við tilheyra hópi, en hvernig ræktar þú þín félagslegu tengsl?

Góðu fréttirnar eru þær að aðrar rannsóknir hafa leitt í ljós að það bætir heilsuna verulega að taka þátt í félagsskap af ýmsu tagi, alveg sama á hvaða aldri fólk er. Það fylgir því alveg sérstakur bónus, því fólk sem er félagslega virkt hreyfir sig meira en hinir sem ekki eru það.  Öll sambönd við aðra skipta máli, ef þau eru einlæg og koma frá hjartanu. Þetta á líka við um sambandið við okkur sjálf.

Sambandið við okkur sjálf

Fylgist með því af og til, hvernig þið ræðið við ykkur sjálf, um ykkur sjálf. Talið þið eins við ykkur og þið talið við bestu vini ykkar?  Eruð þið elskuleg, góð og styðjandi við ykkur sjálf? Takið þið eftir litlum sigrum sem þið vinnið, í stað þess að einblína á það sem er ekki nógu gott? Gangið núna að speglinum og segið ykkur, hversu mikið þið elskið og virðið manneskjuna sem þið sjáið. Þið hafið gengið í gegnum mikla reynslu til að verða að þeirri manneskju sem þið eruð í dag.

Að eignast vini

Manneksja sem fór nýlega á eftirlaun, langaði að eignast persónulega vini. Hún byrjaði á að skoða það í nokkrar vikur hvernig hún hugsaði um sig og hvað henni fannst hún eiga skilið. Smám saman fór hún að skoða hópa í nágrenninu, sem hún átti sitthvað sameiginlegt með. Þar kom hún auga á fólk sem hún gæti eignast að vinum.

Þegar upp var staðið, skildi hún að það var mikilvægt að átta sig á þeirri vináttu sem býðst. Góð vinátta snýst um að treysta og vera náin öðrum. Þetta er spurning um gagnkvæmni, um að gefa og taka á móti. En eftir hverju er fólk að sækjast í samskiptum við aðra, þar sem því líður vel og getur verið það sjálft?

Að eiga kærasta eða kærustu

Svo eru það rómantísku samböndin. Fyrir sumt fólk, er það mjög mikilvægt að eiga í rómantísku sambandi þar sem nánd er til staðar. Ef menn eiga ekki í slíku sambandi og upplifa það sem tilfinningalegt tóm, er það raunverulegt tóm fyrir þeim.

Það sem við vitum, er að ef fólk á í nánu og traustu rómantísku sambandi, dregur það úr stressi og hefur þannig jákvæð áhrif á heilsu og lífsgleði.  Á hinn bóginn hefur samband sem einkennist af deilum og tilfinningalegri fjarlægð, neikvæð áhrif á þesa þætti. Sambandið þarf að vera traust og náið til að það virki og sé gott fyrir okkur.

Að leggja vinnu í sambandið

Að veita einhverjum athygli snýst um kærleika. Þetta á við um fjölskyldumeðlimi, vini og jafnvel ókunnugt fólk. Prófið að veita öðrum athygli. Þegar ömmustrákurinn minn var lítill, áttum við okkar sérstaka samverutíma sem við kölluðum gæðastundir. Ég var með honum og við gerðum það sem hann langaði til. Ég var ekki með neina dagskrá og gerði engar kröfur. Þessar stundir reyndust hamingjustundir fyrir hann.

Þegar ég er með vinum mínum kalla ég þetta að ganga og kvakka. Og reglan er að hlusta meira en kvakka.  Eigið þið vini sem ykkur langar til að kynnast betur‘ Sendið þeim skilaboð, hringið í þá, bjóðið þeim í kaffi og gönguferð, eða farið saman í bíó. Þeir hafa kannski einmitt verið að bíða eftir tækifæri til að kynnast ykkur betur. Gerið það sem hentar ykkur. Sumir vilja hitta vini nokkrum sinnum í viku, aðrir kannski bara einu sinni í viku eða tvisvar.

Samfélagsmiðlar

Rannsóknir sýna að það getur veitt fólki vellíðan að nota samfélagsmiðla til að vera virkur í samskiptum við annað fólk. Skoðið hvernig þið notið samfélagsmiðla og hvernig ykkur líður með þau samskipti. Ef þið eruð hress og glöð, er allt í lagi, en ef þið eruð þreytt, þunglynd eða döpur skuluð þið endurskoða samfélagsmiðlanotkunina.

Samfélagsmiðlarnir geta líka verið ein leið til að vinna ekki í samböndum við fólk. Skoðið enn og aftur hvort þið látið notkun ykkar á samfélagsmiðlum koma í veg fyrir að þið hittið fólk í eigin persónu. Það er hægt að byrja á því að taka sér frí frá samfélagsmiðlunum dag og dag og sjá hvernig það virkar. Kannski langar ykkur í lengra frí þegar upp er staðið.

Samfélag

Fyrir utan persónuleg samskipti, getur það eytt tilfinningunni um að við séum félagslega einangruð, að taka þátt í félagsstarfi, af einhverju tagi. Þið gætuð líka eignast vini með því að vera dugleg að sækja slíka starsfsemi.

Hvaða hópum tilheyrið þið? Hvaða hópum hefðuð þið áhuga á að vera með í? Hugsið um trúfélög, bókaklúbba, sjálfboðaliðstarf í þágu lista eða félagslegra umbóta. Það er líka hægt að ganga í hópa sem fara reglulega í gönguferðir, fara í fjallgöngur eða hjóla.

Ritstjórn júlí 4, 2023 07:00