Boð og bönn veitingastöðum og hótelum á árum áður

Wilhelm W.G. Wessman

Wilhelm W.G. Wessman skrifar

Oft heyrist sagt að störf í hótel- og veitingahúsum séu lálaunastörf sem allir geta sinnt og ekki þurfi neina þekkingu til að sinna. Þetta er stóri misskilningurinn og ástæðan fyrir því að staða ferðaþjónustunnar er á þeim stað sem hún er í dag, að mínu viti stefnulaus.

Sannleikurinn er sá að hótel- og veitingamennska krefst mikillar menntunnar og reynslu, sérstaklega í landi sem er eitt dýrasta ferðamannaland í heimi.

Þær leikreglur og kröfur sem voru í gildi fyrir 25-30 árum síðan eiga ekki endilega við í dag, en aðrar eru komnar í staðinn. Grunnurinn er samt alltaf sá sami að veita góða þjónustu.

Eftirfarandi eru nokkrar reglur og lög sem voru í gildi þegar ég hóf störf  í greininni 1960, nánar tiltekið í Klúbbnum við Lækjarteig og voru enn í góðu gildi þegar ég kom heim úr framhaldsnámi og hóf störf á Hótel Sögu árið 1967

Janúar 1961. Elly Vilhjálmsdóttir söngkona syngur í Klúbbnum. Ljósmynd: Pétur Ómar Þorsteinsson

Á þessum árum var öllum veitingastöðum lokað klukkan eitt eftir miðnætti föstudaga og laugardaga, en klukkan ellefu þrjátíu aðra daga. Þurr dagur var á miðvikudögum, en þá mátti ekki  afgreiða sterka drykki, eingöngu léttvín með mat. Þetta varð til þess að sá siður varð til að gestir pöntuðu „könnukaffi“ eftir mat eða síðdegis. Þetta þýddi kaffi og cognac í rjómakönnu sem gestir helltu síðan út í kaffi. Þetta þurftu þjónar að fara mjög laumulega með, því vökul augu víneftirlitsmanna voru allstaðar. Ef þjónar voru uppvísir að þessu átti veitingahúsið á hættu að missa vínveitingaleyfði um skemmri eða lengri tíma.

Á þessum árum var lítið um að gestir pöntuðu ekki gistingu fyrirfram og kæmu án þess að eiga pantað, sem við kölluðum „Walk in guests“

Um þessa gesti giltu ákveðnar reglur sem oft voru túlkaðar þannig af almenningi  að stefna hótelanna væri byggð á fordómum. Svo var þó ekki, heldur voru þær til að veita öðrum gestum þann frumrétt, sem er að fá næturfrið.

Þeir sem komu án þess að panta fyrirfram voru oftar en ekki gestir sem voru ekki búnir að fá nóg þegar veitingahúsin lokuðu kl. 01:00, eða fólk af Reykjavíkursvæðinu sem stóð í illdeilum á heimilum og óreglu.

Gestir sem komu af eðlilegum ástæðum, eins og við kölluðum það, eins og  t.d. fólk sem misst hafði húnæði sitt eða stóð í  viðgerðum á húsnæði á Reykjavíkursvæðinu var velkomið.

Fínt skal það vera. Wilhelm fer hér yfir síðustu atriðin varðandi skipulag 75 ára hófs Eimskipafélags Íslands

Oft bjuggu hermenn ofan af Velli hjá okkur á Hótel Sögu yfir helgar, bæði einir og með fjölskyldur og voru þá með leyfisbréf frá hernum um að þeir mættu fara út af vellinum.

Óbreyttir hermenn sem máttu fara í Þórskaffi á miðvikudögum reyndu oft að fá herbergi eftir kl. 24:00 en það var sá tími sem þeir áttu að vera komnir upp á Völl. Ef þeir voru teknir inn kostaði það alltaf vesen. Íslenska lögreglan og herlögreglan komu alltaf í heimsókn til að leita að strokumönnum og var það undir hælin lagt hvort þeir fóru sjálfviljugir eða starfsfólk þyrfti að standa í stappi við að koma þeim út

Vertíðarsjómönnum fylgdi oft mikil drykkja, slæm umgengni og ónæði fyrir aðra gesti.

Hér er ein stutt saga af slíkri uppákomu. Það var í desember að starfsmaður ætlaði að ná upp herbergjanýtingunni á sinni vakt, en oft var mikil samkeppni á milli vakta um hver herbergjanýtingin væri á viðkomandi vakt. Um miðnættið snöruðust inn þrír velslompaðir sjóarar og báðu um gistingu. Hótelið var nánast tómt og með því að taka þá inn hækkað hann herbergjanýtinguna um 3%, svo hann lét slag standa, lét þá greiða gistinguna fyrirfram og afgreiddi þá með lykla. Einhverja bakþanka fékk starfsmaðurinn og fór í eftirlitsferð. Þegar hann kemur upp á ganginn þar sem sjóararnir eru sér hann á eftir einum á harðahlaupum með sjónvarpið í átt að útidyrunum. Hann stoppar hann og spyr, ætlar þú að stela sjónvarpinu? Sjóarinn snýr sér við og segir, ert þú að væna mig un þjófnað? Þeir fengu gistingu á öðrum stað á vegum ríkisins.

Daginn eftir þegar ég er nýkominn á vakt, er hringt í mig frá gestamóttökunni og sagt að það sé maður sem vilji hitta hótelstjórann. Ég sagði þeim að vísa honum inn. Þegar maðurinn kemur í dyrnar segir hann, ert þú þessi hótelstjóri?, já segi ég. Hann horfir á mig og segir svo, heyrðu góði hvað heldur þú að þú sért, þú lætur mann greiða fyrirfram og svo er maður hirtur af löggunni. Ég svaf ALDREI í rúminu og nú vil ég fá endurgreitt!

 

 

 

Ritstjórn apríl 18, 2019 08:17