Í fréttum var þetta helst árið 1950 

Inga Dóra Björnsdóttir

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar:

Þegar móðir mín sáluga fór á eftirlaun, hóf hún nám í bókbandi. Það varð til þess að hún þræddi fornbókaverslanir bæjarins, en á þessum árum voru nokkrar slíkar enn starfandi í Reykjavík. Þar keypti hún bækur með útslitna kili og kápur og eins bækur í pappírskiljum og batt þær inn af mikilli natni. Ein gersemin sem hún fann, var Almanak Hins íslenzka þjóðvinafélags árið 1952, en það var sjötugasti og áttundi árgangur ritsins. Árið 1952 var hlaupár og fyrsta ár eftir sumarauka. Ritstjórar Almanaksins voru þeir Leifur Ásgeirsson og Trausti Einarsson, báðir prófessorar við Háskóla Íslands. Þar sem ég var fædd árið 1952, sendi móðir mín mér Almanakið, en það hefur að geyma Árbók Íslands 1950 sem Ólafur Hansson tók saman. Ég fann það nýlega við tiltekt og gleymdi mér fljótt við lestur þess, og hér koma nokkrar af helstu fréttum frá Íslandi á því herrans ári 1950.

Hinn 1. desember það ár var haldið nákvæmt manntal um land allt. Íbúar landsins reyndust vera 144.263, en tíu árum áður, eða 1. desember 1940, voru þeir alls 121. 474.  Þjóðinni hafði fjölgað um 22.789 manns á einum áratug. Talsvert var af erlendu verkafólki á landinu, einkum Þjóðverjum, sem störfuðu bæði í sveitum og kaupstöðum. Hvort þeir voru taldir með, er ekki ljóst.

Fyrstu mánuði ársins var veðrátta mild víðast hvar á landinu, en vorið var fremur kalt, einkum norðanlands. Um Jónsmessu snjóaði niður undir byggð í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Sumarið var ákaflega óþurrkasamt um allan austurhluta landsins, en á landinu verstanverðu var góð þurrkatíð. Um haustið var tíð víðast hvar góð, en á jólaföstu voru víða mikil frost og snjóalög, einkum norðan –og austanlands.

Ofsaveður gengu oftar en einu sinni yfir landið þetta ár, og ollu þau víða tjóni og sums staðar slysum, og símabilunum. Um sumarið voru miklar rigningar á austurlandi og 19.ágúst féll skriða á hús á Seyðisfirði, sem varð fimm manns að bana. Þann 26. september var mjög dimmt víðast hvar á landinu fram eftir öllum degi og sól bláleit að sjá. Ekki fékkst full skýring á þessu fyrirbrigði, en þess varð einnig vart í Bretlandi. Talið var, að það hafi stafað af eldgosi á Filippseyjum, sem var skömmu áður, eða frá skógareldum í Norður-Ameríku.

Kosningar fóru fram snemma vors þetta ár og 14. mars tók ný ríkisstjórn til starfa, mynduð af fulltrúum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Steingrímur Steinþórsson var forsætisráðherra og í ríkisstjórninni með honum sátu Bjarni Benediktsson, Björn Ólafsson, Eysteinn Jónsson, Hermann Jónasson og Ólafur Thors. Ísland varð aðili að Evrópuráðinu snemma á kjörtímabilinu.

Atvinnuleysi var talsvert í landinu, bæði úti á landi og í Reykjavík. Mikil ólga var á vinnumarkaði og mörg mislöng verkföll áttu sér stað. Í ársbyrjun fóru t.d. flugvirkjar í verkfall og stóð það til 19. apríl. Í maí og júní fóru vegagerðarmenn víða um land í verkfall, en lengsta og áhrifamesta verkfallið var verkfall togarasjómanna. Það hófst 1. júlí og stóð til 6. nóvember. Heildarafli fisks þessa árs varð nokkru minni fyrir vikið, hann minnkaði um 14.000 tonn. Árið 1949 var hann 337.000 tonn, en fór niður í 323.00 tonn árið 1950. Greiðsluhalli Íslands gagnvart Evrópu var 65 milljónir og notuðu Íslendingar fé frá Marshall-áætluninni til jafna þann halla. Íslensk yfirvöld gripu einnig til hins gamalkunna ráðs að fella krónuna og lækkaði gengi hennar um 42.6%.  Íslendingum til ánægju þá var skömmtun á ýmsum vörum afnumin, t.d. vefnaðarvörum og skófatnaði. Annað sem gladdi þjóðina var koma fyrsta togarans af tíu, sem ríkisstjórnin hafði látið smíða í Bretlandi, en hann var gerður út frá Akureyri. En sennilega gladdi það landann enn meir, þegar Gullfoss, hið glæsilega nýja farþegaskip Eimskipafélags Íslands, sigldi inni í höfnina í Reykjavík í maí. Það sumar var það í förum milli Reykjavíkur, Leith og Kaupmannahafnar. 

48 nemar luku embættisprófi frá Háskóla Íslands, flestir í lögfræði, eða 11 manns, átta urðu læknar og aðrir átta urðu viðskiptafræðingar, fimm urðu prestar, fjórir luku kennaraprófi í íslenskum fræðum og einn nemi lauk námi í tannlækningum. 10 nemar luku fyrri hluta námi í verkfræði.

36 af þeim sem útskrifuðust voru karlar, en tvær af þeim konur.  Það voru þær Ragnhildur Ingibergsdóttir, sem lauk námi í læknisfræði og Karólína Einarsdóttir, sem lauk námi í íslenskum fræðum. Einn nemi lauk B.A. prófi við skólann.

122 stúdentar útskrifuðust frá Menntaskólanum í Reykjavík, 57 frá Menntaskólanum á Akureyri og 18 nemar urðu stúdentar frá Verslunarskólanum.  446 nemar þreyttu landspróf vorið 1950 og stóðust 307 prófið, en 139 nemar féllu á prófinu.

Embættisveitingar voru að vonum margar. Skipað var í læknisembætti, dýralæknisembætti, prestsembætti, skólastjórastöður, námsstjóra-og kennarastöður. Þrír karlmenn voru skipaðir prófessorar við Háskóla Íslands. Einnig voru menn skipaðir í bæjarfógetaembætti, og einn var gerður að ráðuneytisstjóra. Nær einu embætti sem konur voru skipaðar í, voru kennaraembætti í barnaskólum, þrjár urðu almennir kennarar, en ein kona varð sundkennari í gagnfræðaskóla. Tvær konur voru skipaðir kennarar við Kvennaskólann. Tvær konur fengu embætti sem skólastýrur húsmæðraskóla. Það voru þær Helga Kristjánsdóttir, sem varð skólastýra húsmæðraskólans á Akureyri og Ásdís Sveinsdóttir sem fékk sams konar stöðu við húsmæðraskólann á Blöndósi.

Merkasti atburðurinn í menningarlífi þjóðarinnar þetta ár var vígsla Þjóðleikshússins, sem var opnað með mikilli viðhöfn á sumardaginn fyrsta, 20.apríl. Margir erlendir gestir voru viðstaddir við athöfnina, og í júní sýndu gestir frá Konunglegu óperunni í Stokkhólmi „Brúðkaup Fígarós“ á fjölum Þjóðleikshússins.

Íþróttalíf í landinu var mjög fjörugt og voru mörg íþróttamót haldin. Allmargt erlendra íþróttamanna heimsótti Ísland, þar á meðal ólympíumeistarinn í tugþraut, Robert Mathias. Íslenskir íþróttamenn kepptu líka á erlendri grund og varð Gunnar Huseby Evrópumeistari í kúluvarpi og Örn Clausen varð annar í tugþraut á Evrópumeistarmótinu í frjálsum íþróttum í Brussel. Baldur Möller varð skákmeistari Norðurlanda á norrænu skákmóti, sem haldið var í Reykjavík í júlí og ágúst.

Á árinu létust að vanda nokkur hundruð Íslendingar. Einu nöfn hinna látnu, sem ég kannaðist við, var nafn langömmu minnar, Hallfríðar Brandsdóttur ljósmóður á Seyðisfirði, og nafn Guðjóns Samúelssonar prófessors og húsameistara ríkisins, en hann lést 25. apríl árið 1950. Stærsti nafnhópurinn sem lést þetta ár, voru konur, sem hétu Guðrún. En þetta ár lést líka kona, sem hét Kolþerna, en það nafn hafði ég aldrei heyrt. Samkvæmt bókinni „Nöfn Íslendinga“ voru þrjár konur nefndar Kolþerna í Sturlungu. Árið 1703 hétu 14 konur Kolþerna, en átta árið 1801. Árið 1910 voru tvær konur á Íslandi með þetta nafn, en eftir það hefur það ekki verið notað. Merking nafnsins mun annað hvort vera „þjónustustúlka“, eða „þerna“, komið af fuglsnafninu þerna.

Alls fórust 45 Íslendingar í sjóslysum á árinu, 14 í umferðaslysum og 11 af öðrum slysförum á landi. 28 útlendingar drukknuðu undan Íslandsströndum, 27 þeirra voru Kínverjar, sem voru í áhöfn á breska olíuskipinu Clam, sem fórst undan Reykjanesi 28. febrúar, 1950. Það slys sem best hefur geymst í minningu þjóðarinnar frá þessu ári, er án efa Geysisslysið. Hinn 14. september rakst Skymasterflugvélin Geysir, sem var á leið heim frá Luxemburg, á hábungu Vatnajökuls suður af Dyngjufjöllum.Vélinni hvolfdi og annar vængur hennar brotnaði. Um borð var sex manna áhöfn, fimm karlar og ein kona. Eftir fjögurra daga leit fannst vélin og öllum til mikillar gleði, var áhöfnin enn á lífi. Hjálparleiðangur frá Akureyri kom áhöfninni til bjargar og eins bandarískum flugmönnum, en þeir höfðu verið sendir til að ná í áhöfnina og lent vél snni á Vatnajökli, en þeim tókst ekki að koma henni á loft á ný. Annars voru flugsamgöngur í landinu greiðar, jafnt innan lands sem utan. Íslensk flugþerna, Margrét Guðmundsdóttir að nafni, vann það sér til frægðar að vera kjörin flugþerna ársins, Miss Airways, í alþjóðasamkeppni í London.

Töluvert var um stórframkvæmdir bæði í landbúnaði og í iðnaði. Tveir stærstu votheysturnar sem byggðir höfðu verið á landinu voru reistir á Korpúlfsstöðum. Stórtækar vinnuvélar voru fluttar inn til landsins til að ræsta fram mýrar og skógrækt var efld. Flutt voru inn lerkifræ frá Rússlandi og Síberíu og grenifræ frá Alaska. Hafin var skógrækt í Heiðmörk, friðlandi Reykvíkinga. Nýjungar á sviði iðnaðar voru töluverðar, ýmsum nýjungum var komið á í fiskvinnslunni og Gólfteppagerðin í Reykjavík hóf framleiðslu gólfrenninga úr notuðum fiskilínum. Unnið var að stækkun verksmiðjunnar Gefjunar á Akureyri og fataverksmiðjan Hekla á Akureyri hóf framleiðslu á prjónasilki. Sú frétt að hafin væri framleiðsla á efninu kaseini úr undanrennu á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík,vakti sérstaklega athygli mína, en kasein er mjólkurefni sem notað var við framleiðslu á málningu, lakki og lími. Allt frá því ég fór til Leníngrad haustið 1970, þá sautján ára gömul, hef ég haft mikinn áhuga á Rússlandi. Ég hef til dæmis lesið allar bækur rússnesku blaðakonunnar og rithöfundarins Svetlönu Aleksijevitj, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2015. Ein bók hennar fjallar um umsátrið um Leningrad, sem er eitt lengsta umsátur  mannkynssögunnar. Það hófst 3. september 1941 og lauk 872 dögum síðar, eða þann 7. janúar 1944. Um 1, 117 milljónir manna, karlar, konur og börn, létu lífið, og telja sumir að í raun hafi verið um þjóðarmorð að ræða. Fólk dó í unnvörpum úr hungri og, eins og viðmælendur Svetlönu sem lifðu ósköpin af sögðu frá, lögðu íbúar borgarinnar sér allt til munns, sem þeir gátu, meðal annars sugu þeir lím á gólfteppum, en límið hafði mjólkurefni að geyma. Þessi frásögn greyptist í huga mér, þvílík neyð að lifa af með því að sjúga lím úr gólfteppum! – Og nú veit ég hvað þetta mjólkurefni heitir, sem notað var í gólfteppalím og hvernig það var framleitt, úr undanrennu!

 

 

 

 

Inga Dóra Björnsdóttir ágúst 12, 2019 07:14