Stefán Jökulsson var landsþekktur útvarpsmaður til fjölda ára en hefur lengi starfað sem kennari. Frá árinu 2003 hefur Stefán verið lektor við Kennaraháskólann, sem síðar varð menntavísindasvið Háskóla Íslands, en næsti afmælisdagur verður hans sjötugasti sem þýðir að hann mun láta af störfum á þeim tímamótum. Stefán er líka nafntogaður tónlistarmaður en hann spilaði með Hauki Morthens og Lúdó og Stefáni sem ungur maður og var í hljómsveitinni Orion með bræðrunum Snorra Erni og Sigurði Snorrasonum og spilaði þá á trommur. Hann kom líka lengi fram með Ragnari Bjarnasyni á Mímisbar á Hótel Sögu þar sem Stefán spilaði á hljómborð undir söng Ragnars.
Staða Stefáns í Háskóla Íslands hefur snúist um miðlun og miðlalæsi, sem eru mikilvægir þættir í námi, sér í lagi eftir stafrænu byltinguna. Hann kennir líka aðra þætti með sérstakri áherslu á efnisgerð og sköpun. Stefán stýrði til dæmis námskeiði á vegum Háskólans sem nefndist “Þú ert snillingur” og segir að námskeiðið hafi í raun gengið út á að sýna nemendum hvað þeir gætu verið öflugir á mörgum sviðum ef þeir nýttu sér árangursríkar aðferðir til að leysa hæfileika sína úr læðingi. Námskeiðið var sérlega vel heppnað en þegar Háskólinn þurfti að fella niður valfög í samdrættinum á sínum tíma hafi það verið fellt niður. Nú þegar hann hætti að vinna komi vel til greina að hann endurveki námskeiði á eigin vegum. “Námskeiðið var bæði bóklegt og verklegt og sköpunarkraftur nemenda var virkjaður,” segir Stefán. “Allir bjuggu eitthvað til eins og ljóð eða sömdu lag o.s.frv.” Undirstaða námskeiðsins segir Stefán að hafi verið búddísk sálfræði þar sem hann sagði nemendum frá sköpun út frá austrænum hugmyndum. Hann segir að búddísk sálfræði hafi lengi verið nokkurskonar aukabúgrein hjá sér og hann hafi kafað nokkuð djúpt ofan í þau fræði og langi þess vegna til að vinna meira með þau. Stefán býr einn og lítur ekki á það sem annars flokks líf heldur hentar það honum vel á þessum tímapunkti í lífinu.
Hann á tvö börn og fimm barnabörn, Ingibjörgu, sem rekur jógastúdíóið Yoga Shala og býr í Reykjavík með sína fjölskyldu og svo soninn Stefán Jökul sem er búsettur í Svíþjóð með fjölskyldu og hefur stofnað þar eigið sprotafyrirtæki. Þar er afi Stefán eins oft og hann getur, var þar til dæmis í mánuð í sumar, og notaði tímann meðal annars til að lesa eitthvað vekjandi, til dæmis bók sem heitir “Living alone and loving it” eftir Barböru Feldon. Stefán segir að út hafi komið margar bækur um þetta efni því neikvæðir fylgikvillar þess að vera einhleypur geti komið upp hjá öllum en í flestum, ef ekki öllum tilfellum séu til úrræði. “Maður þarf að fara út fyrir boxið og rífa upp girðingar sem maður hefur sett upp sjálfur og þá kemur maður auga á hvað lífið getur verið gjöfult.” Hann segist sjálfur vera dálítill einfari en sé meðvitaður um það. Það sé auðvitað engum hollt að einangrast, sem sé algengt meðal fólks á efri árum, og því ætli hann að blanda meira geði við fólk. Það sé tilhlökkunarefni. Eitt af því sem Stefán gerir er að sækja tónleika og var til dæmis að fara á tónleika hljómsveitarinnar Moses Hightower daginn eftir að viðtalið var tekið. Hann segist hafa mjög gaman af að fylgjast með framsæknum ungum tónlistarmönnum á Íslandi og að þetta unga fólk, sem hann sé að fara að hlusta á daginn eftir, sé einmitt dæmi um það.