Veislumatur á örskotsstundu

Það getur komið sér vel þegar bjóða á fólki í mat, að geta keypt  veislumatinn nánast tilbúinn. Verslunin Fylgifiskar kemur sterk inn, þegar þannig stendur á og blaðamaður Lifðu núna hefur sérstakt dálæti á rétti sem þar er búinn til en það eru tortillur. Eins og heitið gefur til kynna er þetta mexikóskur réttur. Þetta er þunn kaka og inní hana er vafið reyktum laxi, tómötum, rauðlauk, spínati, osti og pestó. Þetta er ótrúlega ljúffengt og slær undantekningalaust í gegn hjá gestunum.

Guðbjörg Glóð Logadóttir framkvæmdastjóri Fylgifiska segir það einmitt keppikefli þeirra að það taki ekki langan tíma að laga matinn heima og að hann sé hollur og góður. „Við leggjum mikið uppúr ferskum hráefnum og gerum alla rétti frá grunni, bæði sósur og annað. Við höfum mikið fyrir þessu, en kjósum frekar að hafa þetta svona en fara stuttu leiðina og fólk finnur að það skilar sér í bragðinu“, segir hún.

Blaðamaður hefur oft boðið uppá þennan rétt og hann er alltaf jafn góður og vekur ævinlega lukku. Það þarf sem sagt bara að fara í Fylgifiska og kaupa vefjurnar tilbúnar og yfirleitt má reikna með einni á mann, hugsanlega smá viðbót ef mikið matfólk er væntanlegt í matinn. Vefjurnar setur blaðamaður í eldfast mót. Örlítil olía er sett á botninn í mótinu og vefjunum er síðan raðað í það. Síðan má strá rifnum osti yfir ef vill. Ofninn er hitaður í 200 gráður og það tekur um 15 mínútur að elda réttinn, eða þangað til osturinn er orðinn gullin brúnn.

Með þessu er gott að bera fram hrásalat, til dæmis blaðsalat með avocado, gúrku og lauk eða annað sem fólk á í ísskápnum.  Það er svo ómissandi að hafa með réttinum sýrðan rjóma og salsasósu. Það tekur skamma stund að útbúa þennan rétt og meðlætið, svo er bara að taka vefjurnar út úr ofninum eftir korter, setja hann á borðið – og veislan er til!!

 

Ritstjórn febrúar 25, 2023 15:45