Annir eða iðjuleysi – eftir starfslok

Á meðan sumir geta ekki beðið eftir að setjast í helgan stein vita aðrir ekki hvað þeir eigi af sér að gera. Það hlýtur að verða leiðigjarnt að sigla endalaust um Karíbahafið eins og sumt fólk kýs, eða glápa á Netflix daginn út og inn. Hér er sönn saga um írskan smið sem fór að skrifa bækur eftir sextugt. Bækur hans hafa vakið heimsathygli þótt þær séu hræðilega vondar.

Hér eru þremenningarnir með eina af bókum Rockys.

Laumuskrif í garðskúrnum

Norðurírskur húsasmiður og sölumaður fór að skrifa erótískar bækur undir dulnefninu Rocky Flintstone. Hann var rúmlega sextugur, kominn á eftirlaun og fannst þetta bráðskemmtilegt. Konan hans vildi engan subbuskap á heimilinu svo hann neyddist til að skrifa í garðskúrnum.

Fyrsta bók hans, Belinda blikkaði I, nútímasaga um kynlíf, erótík og ástríður. Hvernig kynþokkafyllsta sölustúlkan hreppir háa bónusa með því að vera sú besta í að smeygja sér úr háu hælunum, kom út í mars 2015 og síðan hafa nokkrar bæst við. Bækurnar segja frá Belindu Blumenthal, alþjóðasölustjóra hjá Steeles Pots and Pans, sem blikkar augunum oft.

Þótt Rocky sé bæði eiginmaður og faðir veit hann fátt um kvenlíkamann en löng reynsla hans úr byggingariðnaðinum nýtist honum vel til að lýsa umhverfinu. Erótískar athafnir eiga sér iðulega stað á meistaralega vel lögðu parketi.

Jamie, sonur Rockys, hélt að faðir hans væri með skáldsögu í smíðum og þegar faðir hans sýndi honum afraksturinn fylltist hann vantrú og hryllingi. Síðan sá hann spaugilegu hliðarnar á skrifunum og fyrir nokkrum árum stofnaði hann hlaðvarpið My Dad Wrote a Porno, ásamt tveimur vinum sínum. Það fékk afar góðar viðtökur og mikla hlustun víða um heim og í New York Times var það kallað einstakt menningarfyrirbæri. Á mydadwroteaporno.com er hlaðvarpið að finna og einnig hlekk á amazon.uk þar sem kaupa má bækurnar.

Fyrir nokkrum árum sýndi Stöð 2 skemmtiþátt, eða spjallsýningu frá HBO með Jamie og vinum hans. Þátturinn var sérlega vel þýddur af Oddi J. Jónassyni en það skiptir öllu máli til að húmorinn skili sér.

Hér eru setningar úr bókum Rockys og komu fram í þættinum á Stöð 2:

„Geirvörtur hennar voru orðnar á stærð við stálboltana sem héldu skrokk Titanic-skipsins saman.“

„Hann greip í leghálsinn á henni.“

„Ég ætla að punghátta mig.“

„Losti og fagleg virðing ólgaði um líkama hennar.“

„Hann kastaði henni á sérlega vel lagt parketið.“

Margt má sér til gamans gera 

Margt annað en að skrifa vafasama erótíska texta í garðskúrnum er hægt að finna sér til dundurs og hér eru nokkrar hugmyndir sem vonandi nýtast einhverjum.

Sjálfsvarnaríþróttir eru ekki bara góðar fyrir líkamann heldur halda þær hugsuninni skarpri.

Dans. Tangó, salsa, samkvæmisdansar … alls konar námskeið í boði.

Að safna bókum, óvenjulegum jólakúlum, listaverkum og bara hverju því sem gleður þig … sumt er hreinlega fjárfesting.

Lestur. Að geta lesið eða hlustað á bækur eins og mann lystir er auðvitað algjör dásemd. Með sögu í eyrunum er skemmtilegra að fara í göngutúr eða gera húsverk.

Skriftir. Býr rithöfundur í þér? Íslensk vefnámskeið eru í boði sem hjálpa fólki af stað við að skrifa bók eða ljúka við óklárað verk.

Elda og halda matarboð fyrir vini og vandamenn hljómar vel. Ef eldamennska er ekki þín sterkasta hlið en þig langar samt að bjóða til veislu, geturðu skellt þér á matreiðslunámskeið. Til dæmis hjá Salt eldhúsi ef þú býrð suðvestanlands.

Allt sem reynir á hugann er gott fyrir okkur, eins og að leysa krossgátur, sudoku, orðaleit eða púsla. Svo er það líka gaman.

Tónlist. Hefur þig alltaf langað til að læra á gítar eða píanó? Láttu vaða.

Hreyfing er holl fyrir líkama og sál, við vitum það en erum sum latari en við ættum að vera. Best er auðvitað að finna hreyfingu sem hentar okkur og við höfum ánægju af. Fjallgöngur, jóga, gönguferðir, ræktin, hvað heillar þig mest?

Fuglaskoðun er sögð vera einkar skemmtileg fyrir unga sem aldna.

Að læra nýtt tungumál á að vera sérlega gott fyrir heilastarfsemina. Ókeypis tungumálaapp í símann þinn og málið dautt.

Bókaklúbbar eru æði, stofnaðu þinn eigin ef þú finnur engan sem vekur áhuga þinn.

Námskeið í öllu á milli himins og jarðar eru auglýst reglulega.

Klúbbastörf. Því ekki að ganga í félagsskap á borð við Oddfellow, Lions, Kiwanis eða Rótary? Félög sem láta gott af sér leiða og fagna flest nýju fólki.

Húsbílaklúbbar virðast ansi skemmtilegir fyrir þá sem eiga slíka bíla.

Matarklúbbar eru sígildir, gaman að hitta vinina og snæða góðan mat með þeim.

Ferðalög eru hreinlega nauðsynleg til að lyfta okkur upp. Það þarf ekki alltaf að vera Tene, heldur bara skrepp upp á Skaga eða helgarferð til Köben.

Ættleiddu fullorðinn hund eða kött. Þú færð að launum mikla ást og hver hefur ekki þörf fyrir hana?

Heimsæktu söfn. Þau eru fjölbreytt og nýjar sýningar settar upp reglulega.

Bíó, leikhús, tónleikar, alltaf gaman.

Texti: Guðríður Haraldsdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn nóvember 2, 2023 07:00