Líklega er ekki óalgengt að 57 ára karlmaður haldi að hann sé ódauðlegur. Þannig var ég. Nýfluttur til Danmerkur. Búinn að koma mér fyrir ásamt minni yndislegu sambýliskonu og nýtt líf blasti við. Eitthvað sem ég hafði oft látið mig dreyma um í baslinu heima.
Nýja hreiðrið stóðst allar væntingar og veðurfarið líka. Bara blíða frá því við fluttum og líka í sálartetrinu. Í sjálfu sér hefur í engu breytt að bakverkur, sem hrjáði mig um misseraskeið, hafi að lokum verið greindur sem afleiðing krabbameins með rætur í lungum.
Aðgerð á hryggjarlið tókst vel og kom í veg fyrir að meinið stefndi hraðbyri inn í merg og mænu. Í framhaldinu tók við geislameðferð og síðan lyfjameðferð. Allt hefur gengið með ágætum, eins vel og ég gat ímyndað mér, eftir að læknirinn kvað upp sinn dóm um að meinið væri ólæknanlegt en hægt að halda því í skefjum.
Bakið er vissulega að stríða mér og vekur mig um nætur. Eða réttara sagt málmfleygarnir milli hryggjarliðanna. Engu að síður er gott að vakna lifandi eftir misgóðan svefn. Ég veit líka að eftir góðan kaffibolla og tvær ferðir upp og niður stiga er ég kominn í gírinn. Þá hefst ferðalag mitt um netið.
Ég staldra mest við íslensku og dönsku fréttamiðlana. Fyrir mig er ómetanlegt að hafa aðgang að jafngóðum og traustum netmiðlum og þeim íslensku. Þar nýti ég mér breiddina og finnst ekkert verra þótt örli á pólitískri slagsíðu í sumum þeirra. Ef mér er ofboðið á Miðjunni þá skunda ég bara yfir á Viðskiptablaðið og næ áttum einhvers staðar á leiðinni. Svo bæti ég við smádassi af Útvarpi Sögu.
Fjölbreytnin er gæfa íslenskra fjölmiðla. Besta viðbótin og aðhaldið hefur verið frá félagsmiðlunum, þar sem hver og einn hefur rödd án ritstjórnar. Þar sé ég líka í seinni tíð hugsjónafólkið sem er ekki bundið á pólitíska klafa. Njörvað niður í flokksfjötra.
Það er ekkert sem kallar á nýjan Davíð eða Ólaf Ragnar. Miklu frekar heilbrigð skynsemi, kreddulaus umræða þar sem málin eru vegin og metin. Ekki út frá hagsmunum peningaaflanna, eins og flokkapólitíkin var svo samtaka um í áratugi.
Engu að síður er athyglisvert að sjá hvernig margir fjölmiðlar leiða umræðuna um veiruna ógnvænlegu alltaf að stöðu fyrirtækjanna, markaðsvirði þeirra. Heilsa almennings og velferð kemur iðulega númer tvö eða þrjú.
Ég ætla ekki að spá íslenska velferðarkerfinu hruni. Engu að síður gæti það hæglega orðið ef velmeinandi fólk í öllum flokkum og utan þeirra stendur ekki vörð um leifarnar af því.
Vísítölufréttir viðskiptablaðanna hljóta fyrr eða síðar að víkja fyrir gengi mannskepnunnar.