Sjónvarp Símans sýnir um þessar mundir þáttaröðina Jarðarförin mín, í leikstjórn Kristófers Dignus. Þættirnir hefjast á því að Benedikt hættir störfum vegna aldurs og fær að vita að hann er með illkynja heilaæxli. Benedikt er fráskilinn, á einn son og eina sonardóttur. Góður vinur hans kemur einnig við sögu í þáttunum og gömul kærasta hans sem er prestur. Þættirnir lýsa í stórum dráttum því, hvernig Benedikt bregst við þessum breyttu aðstæðum og hvernig sambandi hans við fólkið í kringum hann, er háttað. Hann hefur ekki beint lifað lífinu eftir áfall snemma á lífsleiðinni og þegar dauðinn bíður hugsanlega handan við hornið, fer hann að endurmeta ýmislegt og ákveður í framhaldinu að skipuleggja sína eigin jarðarför, daginn áður en hann fer í aðgerðina þar sem æxlið er fjarlægt.
Laddi, fer með hlutverk Benedikts í þáttunum sem eru mjög vel gerðir. Laddi leikur ákaflega vel, sem kemur ekki á óvart þó hér sé hann hreint ekki í gamanhlutverki. Þættirnir eru almennt vel leiknir og myndatakan alveg sérstaklega góð. Ýmsir staðir á höfuðborgarsvæðinu eru sýndir frá nýju sjónarhorni sem er forvitnilegt og gefur þáttunum sérstakan blæ. Hljóðið í þáttunum er einnig mjög gott. Þættirnir eru sex. Fyrsti þátturinn var sýndur í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans á sunnudaginn var, en þeir sem eru áskrifendur að Sjónvarpi Símans geta horft á þá alla þegar þeim hentar. Annar þátturinn í þessari röð verður sýndur á sunnudagskvöldið kemur klukkan 20.