Sprenging í netverslun komin til að vera?

Síðastliðnar vikur hefur kauphegðun Íslendinga tekið miklum breytingum. Nú hafa 20 þúsund manns þurft að vera í sóttkví og 18 þúsund í einangrun vegna covid ástandsins sem hefur þýtt að fólk hefur þurft að reiða sig á vini eða ættingja með öll aðföng. Þeir óheppnu þurftu síendurtekið að vera í tveggja vikna sóttkví vegna smits annarra sem þeir höfðu komist í snertingu við en voru einkennalausir sjálfir. Í ljós kom að í þessu ástandi komu bestu hliðar fólks í ljós og allir voru tilbúnir að rétta hjálparhönd sem var eitt af því góða sem Covid 19 bar með sér. Þegar upp verður staðið hafa síðastliðnir mánuðir ef til vill orðið til þess að meiri samhugur og samkennd hefur ríkt meðal manna og það er gott.

Flestir kannast við að vilja ekki íþyngja ættingjum og vinum of mikið með “kvabbi”. Þegar búið var að biðja sama fólkið aftur og aftur að fara út í búð var nærtækt að setja sig inn í þjónustu sem margar verslanir hafa boðið upp á í nokkurn tíma en hefur ekki verið í almennri notkun. Nú virðist vera orðin breyting þar á, því æ fleir hafa áttað sig á þægindunum við þjónustu verslana sem hafa boðið viðskiptavinum að velja vörur á netsíðum sínum, sem eru síðan sendar heim að dyrum.

Heimkaup sexfaldaði veltuna

Guðmundur Magnason.

“Þetta eru mjög áhugaverðir tímar í vefverslun,” segir Guðmundur Magnason framkvæmdastjóri Heimkaups en Heimkaup sexfaldaði veltuna í matvöru í mars og apríl frá því árið á undan. “Hins vegar er vöxturinn mikill þannig réttara er að tala um vöxt milli mánaða og þá erum við að tala um fast að fjórföldun,” segir Guðmundur. “Sérlega áhugavert var að sjá hvernig meðalaldur notenda snarhækkaði strax í kjölfar COVID. Þetta átti sérstaklega við um nýskráningar. Í janúar voru nýir viðskiptavinir að meðaltali rúmlega 36 ára en í mars voru þeir rúmlega 44 ára. Síðan tókum við sérstaklega eftir því að hlutfallslega voru það notendur yfir 60 ára sem tóku best við sér. Ég hef enga trú á öðru en þessi hópur muni halda áfram að nýta sér þjónustuna því þetta er svo svakalega þægilegt. Pabbi minn er 85 ára og er alveg hættur að fara út í búð og burðast með pokana heim, verslar allt á Heimkaup.is!” segir Guðmundur.

 

Nettó opnar 2.000 fermetra miðstöð undir netverslun

Gunnar Egill Sigurðsson.

Nettó hefur opnað 2.000 fermetra miðstöð í Sundagörðum undir netverslun fyrirtækisins. “Þetta er í fyrsta sinn sem miðstöð af þessari stærðargráðu er opnuð undir dagvöru á Íslandi en það er gert til að mæta þeirri sprengingu sem orðið hefur í netverslun fyrirtækisins,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

“Með miðstöðinni er hægt að auka flæði netverslunarinnar, stýra birgðastöðu betur og fjölga heimsendingum til muna,” segir Gunnar Egill. “Í húsnæðinu er meðal annars sérsmíðaður 100 fermetra frystir og 200 fermetra kælir til að halda vörum við kjöraðstæður. Miðstöðin veldur byltingu í netverslun okkar. Með opnun hennar náum við að að auka flæði til muna og anna aukinni eftirspurn. Þessi sprenging sem hefur orðið í netversluninni hefur flýtt áætlunum okkar um nokkur ár og því kjörið tækifæri núna til að straumlínulaga ferla,“ segir Gunnar Egill, „Það tók ekki nema viku að koma húsnæðinu upp. Að ná þessu á svo stuttum tíma er í raun ótrúlegt en með öflugu starfsfólki og skýru skipulagi tókst þetta. Kollegum okkar í Danmörku finnst ótrúlegt að við höfum getað opnað svona aðstöðu með svo skömmum fyrirvara.“ Gunnar segir að unnið verði allan sólarhringinn til að anna eftirspurn. „Starfsmenn okkar munu vinna á vöktum bæði til að auka skilvirkni og mæta kröfum viðskiptavina okkar,en ekki síður til að draga úr hættu á smitum,“ segir Gunnar Egill. Nettó bætti nýlega við á sjötta tug starfsmanna í netversluninni auk þess sem um tuttugu starfsmenn hófu störf hjá samstarfsaðilanum aha, sem sér um að koma vörunum heim til fólks.

Samkaup rekur rúmlega 60 verslanir undir merkjum Nettó, Samkaup Strax, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Árið 2017 hóf Nettó fyrst stóru verslananna heimsendingu á matvöru og annarri dagvöru í samstarfi við aha og hefur hún vaxið jafnt og þétt síðan en þó tekið áberandi kipp síðastliðnar vikur.

 

Ekki á leiðinni að hætta að vesla á netinu

Nanna Rögnvaldardóttir.

Nanna Rögnvaldardóttir er ein af þeim sem hefur um nokkurt skeið nýtt sér að kaupa inn á netinu og segist ekki muni hætta því. “Já, ég byrjaði að versla á netinu fyrir tveimur árum eða svo og undanfarið ár hef ég keypt líklega um 80% af öllum matvörum og hreinlætisvörum á netinu,” segir hún. “Þetta hentar mér einstaklega vel, er þægilegt og sparar tíma og fyrirhöfn og ég fæ vörurnar upp á stigapall hjá mér, þarf ekki að burðast með þær sjálf heim, sem kemur sér einstaklega vel fyrir bíllausa manneskju. Ég held örugglega áfram að kaupa mat á netinu eins og ég gerði áður, helst að ég fari í búð til að kaupa fisk eða eitthvað sem mig vantar úr kjötborði eða sérversluum. Allt annað held ég örugglega áfram að kaupa á netinu.

Kosturinn er líka að maður getur velt betur fyrir sér hvað maður á að kaupa, minna mál að hætta við, maður þarf ekki að hlaupa fram og aftur um búðina með kerruna til að skila aftur í hillu, getur staðið upp og rölt fram í eldhús til að gá hvort þetta eða hitt sé til eða ekki og  situr þá ekki uppi með fimm bauka af karríi af því að mann minnir alltaf að það vanti. Svo er ekkert stress, maður situr bara heima hjá sér í rólegheitum, velur í körfuna og sleppur við að sitja föst í umferðinni á heimleiðinni,“ segir Nanna og fagnar þessari nýjung en segist þó áfram muni fara í fiskbúiðina eða skoða kjöt í kjötborði ef mikið liggi við.

Ritstjórn maí 7, 2020 07:57