Guðdómlegir þorskhnakkar með sítrónukartöflumús

Þetta er mjög einföld uppskrift en hún er afskaplega góð enda þorskhnakkar eitt mesta ljúfmeti sem hægt er að hugsa sér. Kartöflumúsin fer alveg sérstaklega vel með þorskinum og gerir hann svolítið öðruvísi. Uppskriftin er af vefnum Fiskur í matinn og það er Leifur Kolbeinsson matreiðslumeistari sem á heiðurinn af henni. Uppskriftin er fyrir fjóra.

800 g þorskur

400 g skrældar kartöflur

safi og börkur af 1 sítrónu

2 msk rósmarín, fínsaxað

150 ml jómfrúarolía

salt og pipar

Sjóðið kartöflurnar við vægan hita í söltu vatni þar til þær eru tilbúnar. Hellið vatninu af þeim og stappið þær með kartöflustappara. Kryddið til með salti og pipar, sítrónusafa og berki og hellið ólífuolíunni varlega út í. Blandið öllu vel saman og smakkið til. Steikið fiskinn í u.þ.b. 3 mín. á hvorri hlið á vel heitri pönnu og kryddið með salti og pipar. Berið fram með kartöflumúsinni.

Ritstjórn júlí 13, 2018 10:58