Viðteknum hugmyndum um ellina kollvarpað

 

Allir vita að með aldrinum daprast líkaminn og hugurinn – og að lífið verður ekki jafn skemmtilegt og áður.

Allir vita að aldrinum fylgir óhjákvæmilega að vitsmunirnir láta undan.

Allir vita að afköst í vinnu minnka með aldrinum.

Allir virðast hafa rangt fyrir sér um þetta.

Þannig hefst grein sem birtist nýlega í bandaríska blaðinu Wall Street Journal og er hér í lauslegri þýðingu. Þar segir ennfremur;

Þvert á þær hugmyndir fólks, að ellin sé tími einmanaleika, depurðar og hrörnunar, sýna æ fleiri rannsóknir að lífið verður á margan hátt betra þegar við eldumst.

Excel tafla OKÞessu til staðfestingar er tafla sem birtist í blaðinu, sem hér hefur verið íslenskuð, sem sýnir annars vegar í appelsínu gulu hugmyndir fólks á aldrinum 18-65 ára um ýmsa þætti sem það muni þurfa að kljást við með hækkandi aldri og svo hins vegar hugmyndir þeirra og reynslu sem eru 65 ára og eldri um sömu þættina.  Það er ekki beint samræmi þarna á milli.

Það hefur lengi verið almennt viðtekin hugmynd að ánægja með lífið minnki með aldrinum, „En það merkilega er, að vísindamenn eru að komast að raun um að það er alls ekki rétt“, er í blaðinu haft eftir Timothy Salthouse, sálfræðiprófessor við Háskólann í Virginiu.

Staðreyndin er sú að þeim rannsóknum fer fjölgandi sem sýna að ánægja með lífið og almenn vellíðan vex með aldrinum. Vinátta fólks verður jafnvel innilegri, þar sem fólk fer að setja það sem mestu máli skiptir í forgang, segir Karen Fingerman, sálfræðiprófessor við Háskólann í Austin í Texas.

Aðrir fræðimenn hafa komist að því að þekking og ákveðnir vitsmunalegir þættir halda áfram að þróast og það getur jafnvel unnið gegn hrörnun í heilanum sem hefur áhrif á hvernig hann vinnur úr upplýsingum og setur hlutina í samhengi. Sérþekking dýpkar, sem getur aukið afköst og sköpun. Því er líka haldið fram að hæfileikinn til að sjá deilumál frá mörgum hliðum og leysa þau, aukist með aldrinum.

Vissulega fylgja ellinni ýmsir erfiðleikar. Það eldast ekki allir jafn vel. Og þegar fólk er orðið háaldrað fara ýmsir langvinnir sjúkdómar að herja á það, svo sem sykursýki, taugaspenna og heilabilun. Þessir sjúkdómar taka þannig sinn toll, bæði af andlegri og líkamlegri heilsu.

Samt sem áður er það þannig, að einungis 10% af eldri kynslóðinni falla undir hugmyndina um gamalmennið sem er niðurdregið, lasið, pirrað og upptekin af meltingartruflunum, segir Paul Costa, vísindamaður hjá National Institutes of Health, en hann stýrði öldrunarrannsókninni Baltimore Longitudinal Study of Aging í meira en þrjá áratugi. „Hin 90% gera það alls ekki, segir Dr. Costa.

Í greininni eru raktar sex goðsagnir um ellina – ásamt rannsóknarniðurstöðum sem kollvarpa algengum misskilningi um ellina. Við hjá Lifðu núna munum fjalla nánar um þær á næstunni.

 

Ritstjórn janúar 6, 2015 15:26