Þau urðu áttræð í sumar

Þrjár stórstjörnur hafa átt áttræðisafmæli í sumar. Það eru í aldursröð þau Tom Jones, Nancy Sinatra og Ringo Starr. Öll slógu þau í gegn á árunum milli 1960 og 1970, eða fyrir rúmri hálfri öld síðan. Upplýsingarnar sem hér fara á eftir eru meðal annars fengnar af vefnum Wikipedia.

Tom Jones

Tom Jones, þarf líklega  ekki að kynna fyrir neinum. Hann átti óteljandi lög á vinsældalistum um allan heim, þegar hann var uppá sitt besta. Lögin Delilah og Green Green Grass of Home, eru eftirminnileg en fyrsta lagið sem hann sló í gegn með árið 1964 var lagið „It´s Not Unusual“   Tom Jones, sem heitir Thomas John Woodward,  fæddist í Suður Wales  árið 1940.  Samkvæmt frásögnum var hann syngjandi frá því hann var lítill drengur og söng í fjölskylduboðum, brúðkaupum og í skólanum.  Hann giftist æskuástinni Melindu Rose Trenchard, eða Lindu eins og hún var kölluð,  þegar þau voru sextán ára og mánuði eftir brúðkaupið fæddist þeim sonurinn Mark. Tom Jones fór að vinna fyrir þeim við ýmis störf, en söng jafnframt í hljómsveit á þessum tíma, sem vakti ekki sérstaka athygli. Allt breyttist þegar hann var „uppgötvaður“ og flutti til London. Hann sló hressilega í gegn með laginu „It´s Not Unusual“  og segja má að næstu ár hafi verið óslitin sigurganga, þar sem hann átti hvern smellinn á fætur öðrum á vinsældalistum um allan heim.  Leið hans lá til Bandaríkjanna og hann var um tíma talinn með tekjuhæstu skemmtikröftum. Þeir Elvis Presley urðu vinir og sungu saman á tímabili. Seinna gerði Tom Jones það gott í Sjónvarpi. Um áramótin 2000 söng hann í nýársfagnaði í Washington, í boði Bills Clinton. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín á ferlinum.

Tom Jones var alræmdur kvennamaður og hélt ítrekað framhjá eiginkonunni. Hann sagðist hafa sængað hjá 250 „grúppíum“ á einu ári, þegar frægðarsól hans reis sem hæst. Hann eignaðist einn son utan hjónabands. Þrátt fyrir þetta var hann giftur Lindu á meðan hún lifði, en hún lést úr krabbameini árið 2016.  Tom Jones býr nú í London.

Margir muna eftir söng- og leikkonunni Nancy Sinatra, en líklega er hún þekktust fyrir lögin sem hún sló í gegn með á sjöunda áratug síðustu aldar. Meðal frægustu laga hennar eru „These Boots Are Made For Walkin´“ og „Somethin‘ Stupid“, sem hún söng ásamt föður sínum Frank Sinatra.  Hún lék einnig í nokkrum kvikmyndum meðal annars á móti Elvis Presley og Peter Fonda.

Nancy Sinatra

Nancy Sandra Sinatra fæddist í New Jersey 8.júní árið 1940 og var elsta dóttir foreldra sinna, söngvarans Franks Sinatra og fyrstu eiginkonu hans Nancy Barbato, en þau eignuðust síðan tvö börn til viðbótar.  Fjölskyldan flutti til Kaliforníu þegar Hollywood ferill Franks komst á flug og þar lærði Nancy á píanó auk þess sem hún lagði stund á dans, leiklist og raddþjálfun.  Hún byrjaði ung að syngja, en vakti fyrst verulega athygli þegar hún söng lag Lee Hazlewood „These Boots Are Made For Walkin´“  Faðir hennar hafði fengið Hazlewood til að aðstoða hana við söngferilinn sem hafði ekki gengið sérstaklega vel.  Með tónlist hans, aflituðu hári, mikilli augnmálningu og fötum frá Carnaby Street í London, náði hún að slá í gegn á sjöunda áratugnum.

Nancy var tvígift, hún var lengst af gift Hugh Lambert sem lést árið 1985. Þau eignuðust tvær dætur.

Ringo Starr

Einna þekktastur þessara þremenninga er án efa bítillinn Ringo Starr, en hann heitir Richard Starkey, sem hefur sennilega ekki þótt nógu poppað nafn í bransanum þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni.  Íslenskir fjölmiðlar fjölluðu heilmikið um áttræðisafmæli hans á dögunum, en hann átti afmæli 7.júlí og er fæddur árið 1940.  Þegar Ringo var 13 ára, ætlaði hann að verða trommuleikari. Það gekk  eftir og þegar honum var boðið að ganga til liðs við hljómsveitina The Beatles árið 1962 ákvað hann að slá til. Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar „Please Please Me“, kom úr árið 1963, bítlaæði greip um sig austan hafs og vestan og flestir sem eru komnir yfir miðjan aldur þekkja framhaldið. Ringo samdi nokkur lög bítlanna, meðal annarra „With A Little Help From My Friends“.  Hann tók þátt í þremur kvikmyndum Bítlanna, en sú fyrsta „A Hard Days Night“ kom á markaðinn árið 1964.

Ringo hefur gefið út 18 sólóplötur um dagana. Sú fyrsta kom út árið 1970 og bar heitið „Sentimental Journey“  Ég gerði hana fyrir mömmu, sagði hann um plötuna. Ringo hélt áfram að sinna tónlist og var lengi með hljómsveitina All Starr Band, sem var ekki alltaf skipuð sömu hljóðfæraleikurum, en einn sona hans lék með honum í sveitinni. Hann kom líka fram með  gömlum og nýjum félögum sínum við ýmis tækifæri.  Árið 1981 lék hann í kvikmyndinni „Cavemen“, en þar lék hann á móti hinni fögru Barböru Bach, sem hann varð ástfanginn af um leið og hann sá hana og giftist síðar. Ég varð ástfanginn um leið og ég sá hana ganga um borð í flugvélina og er svo lánsamur að hafa átt ást hennar síðan, segir hinn áttærði bítill.

 

 

Ritstjórn júlí 16, 2020 08:11