Íslensk kjötsúpa að hausti

Nú er nýja lambakjötið komið í verslanir og hefðbundinn haustmatur á borðum margra landsmanna. Við eigum okkar þjóðarrétti og einn af þeim er kjötsúpan. Upphaflega varð hún til þegar húsmæður voru að nýta afganga og búin var til kjarngóð súpa. Nýja rótargrænmeti var látið sjóða með lambakjötinu og úr varð kjarngóð súpa sem öllum varð gott af. Spánverjar eiga sinn þjóðarrétt sem varð til á svipaðan hátt þegar eldaður var afgangamatur á stórri pönnu úti á akrinum fyrir vinnumennina sem voru að skera haustuppskeruna. Þetta kölluðu þeir paella og er nú orðinn tískuréttur og hver veit nema kjötsúpan okkar verði einhvern tímann að tískurétti. Galdurinn við uppskriftina sem hér fylgir, og er nokkuð hefðbundin, er að í henni er mikið af heilum svörtum piparkornum en ekki malaður pipar. Skemmtilegt er að bíta í heil kornin og finna sterkt bragðið af þeim.

Uppskrift fyrir 4 og afgangur daginn eftir.

1 kg súpukjöt, skorið í nokkuð smáa bita

300 g gulrætur, skornar í bita

300 g gulrófur, skornar í bita

2 laukar, skornir í bita

1/2 dl súpujurtir ef vill

300 g kartöflur, skornar í bita

1 blaðlaukur, skorinn í seniðar

lítill blómkálshaus, skorinn í bita

100 g grænkál, skorið í hæfilega bita

salt

2 msk. heil piparkorn

1 grænmetisteningur

2 dl vatn

Kjötið er sett í pott með vatninu. Suðan er látin koma upp og síðan er öll fita og froða veidd ofan af. Soðið við vægan hita í um 30 mínútur.

Rótargrænmetinu er síðan bætt saman við og soðið í um 20 mínútur. Svo er blaðlauk, blómkáli og súpujurtum bætt í og kryddað  með salti og piparkornunum. Það má einnig setja hrísgrjón eða soðið bygg og fer það þá í pottinn á sama tíma og rótargrænmetið. Þannig verður súpan enn matarmeiri sem veitti ekki af þegar erfiðisvinna var daglegt brauð. Allt hráefnið er einstaklega hollt og súpan verður enn betri daginn eftir.

Ritstjórn október 30, 2020 10:09