Hefur þú tekið eftir því að nokkuð dásamlegt er að gerast í heimi karlmanna þessa heims. Kannski ekki allra karla við allar aðstæður en sannarlega þegar kemur að börnum í fjölskyldum þeirra. Þeir hafa tekið til sín ákall samfélagsins um að taka þátt í uppeldinu í meira mæli.
Ungir feður og börn þeirra
Áður fyrr var undantekning ef feður sinntu daglegum þörfum barna sinna. Auðvitað tóku þeir til hendi af og til en þeirra hlutverk var að vera útivinnandi á meðan mæður barna þeirra voru heima og sinntu þeim. Þeir mest gamaldags færðu rök fyrir því að flest af því sem börnum kæmi við væru “kvennastörf!
Þessa mynd, sem við sjáum í gömlum bíómyndum, var auðvitað ekki alltaf sönn sem betur fer. Það sem var hins vegar satt var að mest af vinnunni á heimilunum hvíldi á herðum kvenna.
Í dag er myndin breytt. Við sjáum unga menn með börn sín í poka á maganum eða að ýta kerru eða við skólahliðið að bíða barna sinna í lok skóladags. Þeir taka auk þess líka þátt í heimilisstörum til jafns við konur sínar.
Afar og barnabörnin
Sama þróun á sér stað hjá öfum. Þeir taka mun meiri þátt í lífi barnabarnanna en sinna eigin barna. Þeir njóta þess að segja þeim sögur. Þá vaknar spurningin hvort þeir séu að leitast við að vinna upp tímann sem þeir misstu af með eigin börnum. Það má vel vera en staðreyndin er sú að auðvitað hafa þeir meiri tíma og áhuga núna á að verja honum með barnabörnunum. Þegar þeirra eigin börn voru lítil tók vinnan allan þeirra tíma en nú átta þeir sig á því hversu mikið tíminn með barnabörnunum gefur þeim. Þeim líkar tilfinningin sem þeir finna þegar þeim er óhætt að sýna mýkri hliðar sínar sem börnin draga fram. Þegar þeirra börn voru lítil hrópaði samfélagið á þá að þeir ættu að vera harðir og kaldir karlar.
Auðvitað hefur lífið leikið suma grátt og margir afar hafa horfið úr lífi barnabarna sinna af ýmsum ástæðum. Það er missir allra og þegar upp er staðið vitum við nú að allir græða á nánari samskiptum.
Fögnum breytingum
Hver svo sem ástæðan er fyrir breyttum samskiptum eigum við að fagna þeim og nýta til góðs. Því auðvitað voru gömlu siðirnir margir alls ekki til að varðveita. Fögnum breytingum sem gera okkur kleift að inna þetta mikilvæga starf að ala upp næstu kynslóð vel af hendi. Og á meðan fjölskyldur eru mismunandi og taka þessum breytingum á ólíkan hátt þá græða börnin alveg örugglega að hafa fleiri í hópi þeirra nánustu sem annast þau.
Rannsóknir sýna mikilvægi sagna
Þegar kynslóðin sem nú er gengin var að ala sín börn upp bjuggu börn iðulega við þau forréttindi að búa í návígi við ömmu og afa, stundum í sama húsi. Þá var sagan fyrir augum þeirra og eyrum daglega og amma og afi voru dugleg að halda sögum að þeim. Nýjar rannsóknir sem gerðar voru í Yale háskólanum í New Haven í Connecticut í Bandaríkjunum, sýndu mikilvægi þess að börn kynntust uppruna sínum eins vel og frekast væri kostur. Það hefði mikið með andlega líðan og jafnvægi barnanna að gera að þau þekktu uppruna sinn. Þegar nándin var meiri hér áður fyrr kom þessi mikilvægi þáttur eðlilega inn í líf barnanna. Í dag þarf að minna fólk á mikilvægi þess að fræða börn um ættarsöguna og segja þeim frá skemmtilegum persónuleikum aftur í ættum sem þau geta ef til vill samsamað sig við.
(Þýtt og staðfært af vef Sxity and me.)