Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar
gudrunsg@gmail.com
Nú líður að jólum – enn einu sinni. Lundarfarið meyrnar og hugurinn reikar til liðins tíma – til tíma „tuttugu kossa“. Móðuramma mín var Vestfirðingur og afar stolt af uppruna sínum. Allt sem kom „að Vestan“ var gott. Ekki þurfti að spyrja að áliti hennar á fólki úr þeim landsfjórðungi – „hann er að Vestan“ sagði hún með nokkurri þykkju ef fundið var að einhverjum sem þaðan var ættaður. Frá Vestfjörðum og einkum Bolungarvík gat ekki komið nema gott fólk.
Eitt var það sem amma mín „að Vestan“ hafði alist upp við og gaf ríkulega áfram til sinna afkomenda og það var ástríkið. Hún var svo sannarlega alin upp við ríkidæmi í þeim efnum hjá góðum fósturforeldrum. Móður sína missti hún tíu daga gömul en ólst eftir það upp hjá föðurbróður sínum og konu hans. Þar á bæ tíðkaðist að kyssa fólk vel og vandlega bæði þegar það kom í heimsókn og þegar það kvaddi. Ömmu minni dugði varla nema „tuttugu kossar“, eins og pabbi minn orðaði það einhvern tíma hlæjandi.
Ég hef stundum, núna í Kóvid-19 ástandinu, hugsað til ömmu. Hvernig ætli henni hefði liðið á þessum tímum þar sem allir eiga helst að vera í tveggja metra fjarlægð frá öðru fólki. Svona ástand hlýtur að vera kossaglöðu og ástríku fólki erfitt, það sér hver maður. Nándina vantar, hlýjuna og þá altumvefjandi tilfinningu sem skapast við faðmlög, góðar móttökur og notalegar kveðjur.
Tími hinna „tuttugu kossa“ er þó vonandi ekki liðinn. Við höfum væntanlega ekki neinu gleymt í þeim efnum. Bráðum kemur bóluefni og fólk getur aftur nálgast án þess að hafa óþægilega á tilfinningunni að það sé að gera eitthvað sem ekki má.
Ég hef ekki gert mér betur ljósa grein fyrir mikilvægi nándarinnar fyrr en á þessum hremmingartímum sem Kóvid-19 hefur verið okkur hér og í öllum heiminum. Mér hefur þótt rækilega ásannast hve orðatiltækið „maður er manns gaman“ er rétt og satt.
En þrátt fyrir veiruna koma jólin til okkar og aðrar hátíðarstundir. Við verðum þá bara að senda hvert öðru „tuttugu fingurkossa“ og reyna að gleðjast saman eftir föngum. Þegar allt kemur til alls er það hugurinn, hið hlýja hugarþel sem mestu skiptir. Ástúð í augnaráði og tali gleður okkar nánustu og góða vini kannski ekki síður en „tuttugu kossar“. Allténd verður það að duga okkur þangað til aftur skapast tækifæri fyrir þá nánd sem er okkur öllum svo mikilvæg. Hafi maður haft grun um að slíkt skipti verulegu máli hér áður þá er sá grunur nú orðinn að fullri vissu.