Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar
Þegar ég var lítil stelpa voru jólin töfrandi tími tilhlökkunar og táknuðu allt sem var gott og skemmtilegt. Líklega geta mjög margir sagt það sama um sínar bernsku-jólaminningar enda hefur verið sagt að allt okkar jólahald sem fullorðinna snúist um að reyna að endurlifa góðu tilfinningarnar sem við upplifðum í bernsku og kenna þær börnunum okkar. En hvernig voru þá þessi bernskujól sem ég man eftir? Yfir þeim hvílir í mínu minni, rósemd og hátíðleiki. Auðvitað hafa einhverntíma verið læti í þremur systkinum sem öll voru á sama aldri, spennuföll og skælur en mér finnst samt að það hafi verið í minna lagi á jólunum. Ljósin voru færri en í minningunni skærari, gleðin fólst mikið í tilhlökkun og var minna lituð af kaupæði og auglýsingaflóði. Það var eplakassi í kjallaranum sem ilmaði af jólum, litlu jólin í skólanum voru mikið tilhlökkunarefni og þessar fáu jólaseríur sem notaðar voru, voru hengdar upp á Þorláksmessu og ekki fyrr. Jólin voru einhvernvegin styttri og desember var sannarlega ekki allur undirlagður eins og nú tíðkast. Við fengum reyndar í skóinn en mandarína eða moli af suðusúkkulaði dugði okkur fullkomlega. Engum datt í hug að jólin hæfust í verslunum heldur áttu þau að hefjast í hjörtunum og Jesúbarnið átti síst minna pláss en jólasveinar og Grýla. Jólahald var líklega svipað á flestum heimilum, að minnsta kosti þeim heimilum þar sem ég þekkti til en hversdagsleikinn var líka mun hversdagslegri en núna og jólin urðu þannig stórkostlegri og meiri tilbreyting.
Við systkinin áttu bókina um jól í Ólátagarði eftir Astrid Lindgren og í okkar huga var það jólalegasta bók í heimi. Hún er sannarlega gott dæmi um það hversu vel Astrid Lindgren tókst að lýsa upplifun barna af raunverulegri tilveru, ekki síður en ævintýraheimum með drekum og göldrum. Bókin var tekin fram og lesin á aðventunni og ég man vel hvað okkur systkinum gramdist þegar hún var orðin útslitin og keypt var ný,- og hafði verið þýdd upp á nýtt. Okkur fundust helgispjöll að orða hlutina öðru vísi en við höfðum vanist. Börnin okkar áttu svo auðvitað að upplifa sömu töfrana í bókinni og við gerðum og kannski var þeim ekki einu sinni gefið tækifæri á að hafa aðra skoðun. Og nú er ég nýbúin að lesa Jól í Ólátagarði fyrir barnabarnið mitt í Bandaríkjunum, í gegnum alnetið að sjálfsögðu. Hann er reyndar bara tveggja ára þannig að textinn var aðlagaður að hans þroska og skilningi,- en textinn er reyndar aukaatriði í þessu samhengi þar sem myndirnar eru svo magnaðar. Enda var það svo að bókin hélt athygli hans næstum því á enda,- og er það bara vel af sér vikið. Eitt fannst mér samt ákaflega athyglisvert. Í bókinni er engin amma, en það er einn afi á heimilinu, bæði blindur og ákaflega gamlaður þar sem hann situr með stafinn sinn og er bara áheyrandi að allri gleðinni og utanveltu. Drengurinn okkar í Vermont benti strax á afann og sagði ákveðinn, „afi Friðrik“.
Ég hló auðvitað góðlátlega að þessu þar sem maðurinn minn á það eitt sammerkt með afanum í bókinni að vera með hvítt hár og skegg. Fannst mér. Svo eiginlega runnu á mig tvær grímur þegar ég gerði mér grein fyrir því að þrátt fyrir að við séum rétt að nálgast sextugt og upplifum okkur ekki gömul, þá erum við orðin þriðja kynslóðin, og það þýðir auðvitað að við erum á sama stað og hann afi í bókinni. Enda er ekkert víst að hann hafi verið mikið eldri, kannski var hann með gláku sem í þá daga þýddi snemmkomna blindu oft á tíðum, engin bólgueyðandi lyf voru til og sannarlega ekki líftæknilyf. Ekki var farið að skipta um liði t.d. í hnjám og því getur bara vel verið að afinn blindi og farlama hafi verið á svipuðum aldri og við erum núna. Bókin er jú byggð á bernskuminningum Astridar Lindgren og hún var 10 ára á því herrans ári 1917, fyrir meira en hundrað árum síðan.
Þriðja kynslóðin og sú fjórða býr reyndar líka við aðrar aðstæður en árið 1917. Afinn í bókinni bjó með næstu kynslóðum og hann var umkringdur börnum og barnabörnum. Þannig var það bara þá. Nú til dags flytja börnin okkar að heiman í flestum tilvikum, þau eignast sín eigin börn og gera hlutina á sinn hátt. Það færist meira að segja í vöxt að ungt fólk haldi sín eigin jól án eldri kynslóða og þannig verða hefðirnar auðvitað ekki eins fastmótaðar. Við sem nú erum komin yfir miðjan aldur vöndumst því að halda jólin með fjölskyldunni í stærra samhengi, engum datt í hug að það ætti að vera öðruvísi. En nú erum við afarnir og ömmurnar að takast á við nýjan raunveruleika sem er sá að börnin okkar taka sér það frelsi að skapa sínar eigin hefðir og halda sín eigin jól.
Þau velja sjálf hver þeirra jólamatur á að vera, hvort þau kjósa lágstemmd jól eða litrík og hávær, hvort jesúbarnið fær að vera með, jólasveinarnir, eða hvort jólin eru bara hátíð þar sem lífinu er fagnað í öllum sínum myndum. Mér finnst þetta frelsi í raun algjörlega frábært! Jafnvel þótt það kosti að Jól í Ólátagarði verði þýdd mörgum sinnum upp á nýtt.
Jól eiga að vera allskonar, það eina sem skiptir máli er að við höldum okkar hátíð, eignumst töfrandi minningar og njótum þess að vera fjölskylda. Við gamlingjarnir getum sannarlega notið þess líka að eiga okkar jól og skapað okkur nýjar hefðir sem fullorðið fólk án nokkurra kvaða annarra en að láta okkur líða vel. Við hjón ætlum til dæmis að breyta til og fá hráefnið í jólamatinn sent heim, tilbúið og hanterað til fulleldunar á síðustu metrunum. Þannig eyðum við ekki öllum aðfangadegi í að elda mat og getum farið í gönguferð í rólegheitum eða horft á góða bíómynd. Ég get líka vel hugsað mér að borða jólamatinn og fara svo snemma að sofa en opna pakka á náttfötunum á jóladag eins og þeir gera í Ameríkunni. Það er spurning hvað ég kemst upp með mikið frjálslyndi.
Einmanaleiki á jólum er auðvitað til og getur verið sár og auðvitað sakna ég stundum afkomenda minna á jólum en ég sé líka kostina við öðruvísi fyrirkomulag. Það er ekki eins og jólin séu eini möguleikinn til að njóta samvista við barnabörnin og það er fullt af öðrum góðum og gefandi samverustundum. Foreldrar nútímans vinna mikið og eiga oft fáar frístundir með börnunum sínum og þá er mikilvægt að geta verið saman á eigin forsendum um jólin en þurfa ekki að þjóna duttlungum afa og ömmu með sínar hugmyndir um jólahald.
Vonandi tekst okkur að finna sátt um fallega og ljúfa jólahátíð þar sem við höldum jól að okkar geðþótta, hvort sem það nú byggist á gömlum hefðum og minningum eða bara einhverju glænýju. Margir eru tilneyddir til að vera fjarri ættingjum þessi jól og því er kannski einmitt tækifæri til að skapa sínar eigin hefðir. Fátt er svo með öllu illt að ekki megi finna eitthvað gott í því.
Gleðilega jólahátíð, förum varlega og njótum þess að vera til.