Gunnar Smári Egilsson skrifaði þessa færslu á Facebook síðuna sína í dag. Lifðu núna fékk leyfi hjá honum til að birta hana á sínum vef.
Ég fór með mömmu í bólusetningu í Orkuhúsið í morgun. Það var fallegt. Í salnum var fólk sem verður nírætt á þessu ári og eldra. Þetta er rjóminn af sinni kynslóð. Ég kíkti inn á Hagstofu og sá að það eru um 560 manns níræðir í dag af um 2700 sem fæddust fyrir níutíu árum. Það eru því flestir dánir. Svo hafði veikasta fólkið fengið sprautur á hjúkrunarheimilunum. Í Orkuhúsinu voru þau hressustu; sum komu með göngugrind eins og mamma, fáein voru í hjólastólum en lang flest á tveimur jafnfljótum, sum kvik í hreyfingum sem væru þau fimmtug.
Allt sístemið gekk eins og í sögu, starfsfólkið indælt, áhugasamt og tillitssamt. Þegar heilbrigðiskerfið virkar þá er það frábært. Við sem erum á biðlistunum, þau sem þurfa að neita sér um lyf vegna fátæktar og þau sem ekki fá þjónustu vegna fjárskorts eða skipulagsleysis sjá aðra hlið af kerfinu, kaldari og grimmari. En ef við sleppum inn, þá er heilbrigðiskerfið mestu verðmæti okkar samfélags.
Ég sá mann klæða sig aftur í peysuna sína og signa sig áður. Það hefur hann örugglega gert síðan hann gat klætt sig sjálfur. Áður hafði mamma hans signt hann. Eins og mamma mín gerði áður en hún klæddi mig í ullarbolinn. Þegar ég gat klætt mig sjálfur lagði ég ullarbolnum og sleppti signingum.
Það var þónokkuð af börnum og barnabörnum með foreldrum sínum þarna í Orkuhúsinu. Ég hefði vilja spjalla aðeins við það fólk, en það voru ekki tækifæri til þess. Það hefur svolítið vafist fyrir mér undanfarnar vikur og mánuði hversu illa ég er undirbúinn fyrir að eiga ósjálfbjarga foreldri. Kannski er það mér að kenna, kannski er allt fullt af leiðbeiningum þarna úti, heilu bókasöfnin sem fjalla um þennan kafla lífsins þegar við förum að sinna foreldrum sem eitt sinn sinntu okkur. En ég hef misst af þessum leiðbeiningum, rambaði bara inn í þessar aðstæður og er að glíma við þær á sama tíma og ég er að reyna að átta mig á þeim, skilja áhrif þeirra á mömmu og sjálfan mig, meðtaka fegurð þess að þurfa á hjálp að halda og geta auðveldlega veitt hana, í samblandi við dimman tón dauðans sem enginn getur flúið. Fyrir mér er þetta eins og ég hefði þurft að læra foreldrahlutverkið gagnvart börnunum mínum án þess að heyra nokkurn tala um barnauppeldi, foreldraábyrgð eða neitt sem gat hjálpað mér við að axla nýtt hlutverk.
En þótt ég geri mér grein fyrir að ég sé voða vitlaus og hefði getað undirbúið mig miklu betur, þá grunar mig að við sem samfélag höfum talað of lítið um þetta æviskeið, þegar við þurfum að ganga foreldrum okkar í foreldrastað. Og svo allt fólkið sem sinnir veikum mökum á heimilunum! Hvað ætli það sé stór hópur? Þúsundir? Um daginn talaði ég við mann í þeim aðstæðum og fannst ég skynja að hann væri að hverfa inn í þetta hlutverk, eins og persóna hans væri að gufa upp.
Ég er með zoom-spjallþátt sem kallast Rauða borðið og er sendur út hér á Facebook og víðar. Ef þú ert í svona aðstæðum og vilt spjalla um þær þá máttu gjarnan hafa samband við mig. Ég held að við þurfum sem samfélag að tala miklu miklu meira um þessa hluti. Þannig byggjum við upp samfélagið, með því að deila reynslu okkar, styrk og vonum, en líka ugg, varnarleysi og ráðaleysi.