Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni Flest er sjötugum fært. Þar gerir hún að umtalsefni skerðingar vegna atvinnutekna þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur og vilja auka tekjur sínar með vinnu. Í greininni segir meðal annars.
Lífeyrir skerðist um 45% af atvinnutekjum umfram 100.000 krónur á mánuði. Þá eru atvinnutekjur auk þess skattlagðar. Því er ávinningur lífeyrisþega af atvinnu nánast enginn. Af hverju þarf þetta að vera svona? Hvers vegna má fólk sem „komið er á ákveðinn aldur“ ekki afla sér tekna og borga af þeim skatta eins og aðrir, hafi það á annað borð vilja og getu til og eftirspurn sé eftir kröftum þeirra?
Þessi skerðing er ekki hagstæð fyrir samfélagið. Hún sviptir fólk mannréttindum sem er frelsi til sjálfsbjargar og athafna. Fólk fær ekki að leggja sitt til samfélagsins vilji það gera það. Því er meinuð sú andlega og líkamlega heilsubót sem getur falist í því að vera áfram þáttakandi á vinnumarkaði.
Óþarfa sóum á mannauði á sér stað. Borgarar með mikla reynslu og þekkingu eru dæmdir úr leik. Þetta stangast á við fyrirkomulag þessara mála í mörgum nágrannalöndum okkar. Víða í Evrópu hefur fólk rétt til að vinna eins lengi og það vill. Iðulega er kallað eftir störfum fólks þótt það verði sjötugt.
Kolbrún segir að endurskoða þurfi einstrengingslegar relgur um starfslok og skerðingar vegna atvinnutekna eldri borgara hér á landi. Fólk um sjötugt sé við betri heilsu en var fyrir áratugum. Hún bendir á að Flokkur fólksins á Alþingi hafi barist gegn því að aldraðir séu þvingaðir til að láta af störfum og flutt frumvarp um afnám skerðinga lífeyris vegna atvinnutekna. Sjálf hafi hún lagt fram tillögu um sveigjanleg starfslok í borgarstjórn.
Borgin ætti að hætta að nota aldursviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afmunið alfarið.
Fyrir þá sem vilja skipta um starf vegna aldurs, eða t.d. minnka við sig, getur borgin skoðað leiðir til að bjóða upp á tímabundnar ráðningar, hlutastarf eða verktakavinnu við ákveðin verkefni, allt sem hentar hverjum og einum og styrkir atvinnulífið. Eldri borgarar búa yfir mikilli reynlu og þekkingu sem getur nýst áfram.
Í lok greinarinnar segir Kolbrún að Reykajvíkurborg sem sé stærsta sveitarfélagið eigi að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga í þessum efnum.