Er aldurinn bara tala? Stundum finnst manni það og stundum ekki. Allt er breytingum háð. Líka það hvað telst að vera gamall. Ellefu ára barni finnst tvítugt fólk gamalt, 65 ára manneskju finnst sjötugt ekki svo hár aldur. Þetta er allt afstætt.
Öll viljum við samt að okkur líði vel og að við lítum ekki út fyrir að vera „eldgömul“ eins og sonarsonur blaðamanns orðaði það, þegar hann spurði ömmu sína af hverju hún væri orðin svona … eldgömul? Á netinu má finna grein sem fjallar um það sem gerir okkur ellilegri en við erum og lætur okkur líða eins og við séum eldri en tölustafurinn gefur til kynna. Kíkjum aðeins á þessi 10 atriði.
1. Að hætta að fylgjast með tískunni
Það er enginn að tala um það að eldra fólk eigi að klæða sig eins og táningar. Þetta snýst frekar um að vera ekki alltof mikið úr takti við strauma tískunnar á hverjum tíma. Hver man ekki eftir fermingarmyndunum frá sjötta og sjöunda áratugnum, þegar fermingarbörnin voru eins og litlir karlar og kerlingar. Túperað hár, vá hvað það gerði stelpurnar gamlar. Við tengjum ákveðinn klæðnað og ákveðna hártísku gjarnan ákveðnum aldri. Eitt sinn var það flott að strákar væru með sítt hár og stelpur líka. Permanent var líka í tísku á ákveðnum tíma. Margir reyna eins og þeir geta að líta út á efri árum, eins og þeir gerðu þegar þeir voru ungir. Vera með svipaða hárgreiðslu og leita uppi föt sem líkjast þeim sem þeir klæddust þá. En það merkilega er, að það gerir fólk eldra en það er. Málið er að temja sér smám saman klassiskan stíl bæði í fatnaði og hárgreiðslu, stíl sem er tímalaus og skilgreinir ekki aldur fólks.
2. Svefnleysi
Það er ekki tilviljun að menn tala um að þeir hafi sofið eins og börn. Ef fólk er þreytt og með bauga undir augunum af svefnleysi, líður því eins og það sé orðið gamalt, finnst það miklu eldra en það er. Að vera úthvíldur gerir fólk sannarlega unglegra. Það getur haft næga orku ef það er vel úthvílt.
3. Að vera geðvondur
Að gretta sig og hleypa brúnum verður einungis til þess að fólk verður hrukkótt. Geðvondur karl eða dyntóttar kerlingar er það sem okkur dettur fyrst í hug þegar við hittum einhverja sem eru alltaf í vondu skapi.
4. Að neita að læra nokkuð nýtt
Það er ekki hægt að kenna gömlum hundi að sitja. Hvað með það, ef það er hægt að kenna gömlum hundi að sitja, þá getur hann ekki verið gamall, ef eitthvað er til í þessu gamla orðtaki. Það er nefnilega hægt að halda huganum ungum með því að halda áfram að þroskast sem manneskja.
5. Að einangra sig
Það eru til margar kvikmyndir og hryllingssögur um gamlar manneskjur sem búa aleinar í stóru, gömlu og afskekktu húsi. Menn þurfa að umgangast aðra til að halda sér lifandi og ungum. Það er engum blöðum um það að fletta að það getur verið ákaflega erfitt að hitta fólk og blanda geði þegar við eldumst. En það er hægt og við verðum að gera það. Ganga í klúbba, fara á námskeið og taka þátt í sjálfboðavinnu. Umfram allt gera hluti sem neyða þig til að umgangast annað fólk. Þér mun líða betur og finnast þú yngri. Ef það er eitthvað sem Covid hefur kennt okkur er það þetta. Við þurfum á hvert öðru að halda.
6. Áhyggjur
Áhyggjur eru eðlilegar að ákveðnu marki, en of miklar áhyggjur eru það ekki. Menn sem eru áhyggjufullir verða hrukkóttir í andliti. Það tekur sinn tíma að hugsa stöðugt um eitthvað sem gæti farið úrskeiðis. Áhyggjurnar geta tekið upp allan þinn tíma ef þú gætir ekki að þér.
7. Að vera sófakartafla
Sófakartöflur er orð sem er notað í ensku um þá sem sitja í sófanum dagana langa og hreyfa sig aldrei. Við sjáum stundum eldra fólk sem er orðið næstum eins og hluti af innbúinu í stofunni. Það situr í hægindastól allan liðlangann daginn með fjarstýringuna í hendinni. Það er eins og svefngenglar og horfir endalaust á sjónvarpið. Eldra fólk sem er á ferðinni, hvort sem það gengur eða er í hjólastól, lítur út fyrir að vera hressara og yngra en sófakartöflurnar.
8. Að liggja í rúminu næstum allan daginn
Næsti bær við sófakartöflurnar sem sitja í sófanum allan daginn eru þeir sem komast varla úr rúminu og liggja þar mest allan daginn. Það er nokkuð öruggt að þeir sem gera það missa bæði andlega og líkamlega færni. Að hafa sig út úr rúminu snýst um að halda færninni, nú eða tapa henni alveg niður ef menn hafa sig ekki í að breyta háttum sínum.
9. Að vera neikvæður
Fúll á móti. Hvað finnst okkur um fólk sem er þannig? Það lítur trúlega út fyrir að vera eldra en það er. En hvað finnst okkur um æskuna? Hún er í augum flestra tákn um von, möguleika og grósku. Ef menn eru jákvæðir geislar frá þeim gleði og ánægja, sem laðar stöðugt að enn meiri gleði og ánægju.
10. Að vera stöðugt reiður
Stöðug reiði og æsingur munu ganga af mönnum dauðum, löngu áður en þeirra skapadægur rennur upp. Þar með er ekki verið að gera lítið úr sársaukanum og óréttlætinu sem margir hafa orðið fyrir. Það er mikið misrétti og mikil grimmd til í veröldinni. Gerið allt sem þið getið til að bæta það sem miður fer í heiminum, gerið það á fallegan hátt og af krafti, í von um að það sé hægt að bæta og bjarga veröldinni.