Þórunn Sveinbjörnsdóttir renndi sér á sleða niður Miklubrautina þegar hún var lítil stelpa og börnin í hverfinu hjóluðu stundum uppí kálgarðana fyrir innan byggðina, þar sem Kringlan er núna. „Það var ekkert til á þessum árum“, segir Þórunn. „Mamma og vinkonur hennar saumuðu handa okkur dúkkur. Það var hægt að kaupa höfuðin á þær. Svo voru dúkkufötin saumuð úr bútum. Það var líka prjónað og heklað á okkur“ segir hún.
Þrjár tegundir af brauði
Þórunn segist líka muna eftir skömmtunarseðlum þegar hún var enn yngri, en þá bjó fjölskyldan um tíma á Vegamótastíg rétt fyrir ofan Mál og menningu. Þá var bakarí og mjólkurbúð á Skólavörðustígnum þar sem Tösku og hanskabúðin er. Þórunn man eftir að hafa verið send þangað til að kaupa hálft brauð, en þá fengust eingöngu þrjú brauð, fransbrauð, normalbrauð og rúgbrauð. Mjólkin var keypt í brúsa. Á Miklubrautinni var skipt við Árnabúð sem var á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar og Krónuna, sem var í Mávahlíð.
Ísskápar fáséðir
„Það voru notaðar ausur til að setja mjólkina á brúsana, en síðan komu glerflöskur með áltappa og það var hægt að kaupa bæði hálfan og heilan lítra. Þar á eftir komu mjólkurhyrnurnar sem voru eins og þríhyrningar á alla kanta. Ísskápar voru fáséðir á þessum árum. „Við fengum ekki ísskáp fyrr en 1956“, segir Þórunn. En hún segir að hús hafi gjarnan verið byggð þannig á þessum tíma að í þeim voru kaldir útveggjaskápar sem gerði að verkum að hægt var að halda matnum í lagi, sérstaklega yfir vetrartímann.
Fæddist á Snæfellsnesi
Þórunn varð seinna formaður Starfsmannafélagsins Sóknar og ein fyrsta konan sem tók sæti í stjórn lífeyrissjóðs. Hún er nú formaður Félags eldri borgara í Reykjavík. Hún fékk snemma mikla réttlætiskennd og kynntist lífs- og kjarabaráttunni í gegnum foreldra sína. Þau voru af Snæfellsnesi og þar fæddist Þórunn á Hofsstöðum í Miklaholtshreppi árið 1945. En þegar hún var ársgömul fluttu foreldrar hennar til Reykjavíkur á Vegamótastíginn, rétt fyrir ofan Mál og menningu. Faðir hennar var lögreglumaður og tók þátt í kjarabaráttunni. Hann var í Byggingafélagi lögreglumanna sem byggði íbúðir fyrir félaga sína á Miklubraut 80-90 og þangað flutti fjölskyldan.
Dönsuðu saman á lokaballinu
Þórunn kynntist mannsefni sínu, Þórhalli Runólfssyni, í Gaggó Aust árið 1959. „Við dönsuðum saman á lokaballinu þetta vor og það var upphafið að okkar sambandi sem hefur ekki slitnað síðan. Við vorum 14 og 15 ára“. Aðspurð segir hún að þetta sé góð ending, enda eigi þau dóttur sem er orðin 51 árs. Hún segir að þau eigi vini sem hafi byrjað sín sambönd um svipað leyti. Hún viti ekki galdurinn á bak við að samband haldi svo lengi, en þau myndu segja ef þau væru spurð „It was meant to be“.
Velferð barnanna númer 1
Þórhallur er íslenskukennari og íþróttakennari sem er núna kominn á eftirlaun. Þau eiga þrjú börn og átta barnabörn. „Við höfum átt sömu áhugamál“, segir Þórunn. „Númer eitt er velferð barnanna okkar. Annað áhugamál er skógræktin sem við höfum stundað í 25 ár. Hún hófst í Gunnarsholti, þar sem við plöntuðum ásamt fjölskyldu Þórhalls, 26.000 plöntum í minningarreit um foreldra hans. Við festum svo kaup á landi vestur í Dölum árið 2000, þar sem við erum með skógrækt. Þar er búið að planta yrir 30.000 plöntum.
Frí vegna veikinda barna
Þórhallur og Þórunn hófu búskap árið 1967. Síðar fór hún að vinna úti, á leikskóla. Hún var valin trúnaðarmaður á vinnustaðnum, fór á námskeið hjá Sókn fyrir trúnaðarmenn og var komin í samninganefnd félagsins árið 1981. Þannig má segja að hennar réttindabarátta hafi byrjað. Réttur til að vera heima hjá veikum börnum varð fyrst að veruleika í kjarasamningum Sóknar og voru í byrjun 7 dagar en lengdist síðar í 10 dagar.„Þetta brann á konum og einnig að fá húsmóðurreynsluna metna sem starfsreynslu“, segir Þórunn.
Fóru aldrei til sáttasemjara
„Það endaði með því að lífaldursákvæði komu inní kjarasamninga þannig að konur sem voru búnar að vera heimavinnandi, þurftu ekki að byrja í lægsta flokki ef þær fóru út á vinnumarkaðinn“. Hún segir að menntamál hafi frá upphafi verið eitt helsta áherslumál Sóknar. Hún tók þátt í kjarasamningum Sóknar í ein fjórtán ár og á þeim tíma fóru þær aldrei til sáttasemjara. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem var formaður Sóknar og síðar Þórunn og stjórn félagsins, höfðu þá staðföstu stefnu að leysa samningana á heimavelli og samningafundir voru ævinlega haldnir í Sóknarhúsinu. En svo var félagið sameinað í Eflingu og þá voru teknar upp nýjar aðferðir.
Fengu alla til að vera með
Þórunn fær glampa í augun, þegar þjóðarsáttarsamningarnir eru nefndir. Hún tók þátt í þeim og segir að það hafi verið „allt önnur Ella“ en samningarnir sem áður voru gerðir. Aðferðin gekk út á að búa sig vel undir viðræðurnar og að fá alla til að vera með. Þetta var byggt á félagslegum grunni. „Menn vildu snúa við þróun víxlhækkana launa og verðlags. Þegar laun hækkuðu um 25% var hækkunin kannski tekin tilbaka um næstu mánaðamót með gengisfellingu eða verðhækkunum. Það tókst að snúa þessu við og ég tel að góður undirbúningur hafi haft þarna úrslitaþýðingu“ segir Þórunn.
Þarf að ýta á stjórnvöld
Þórunn hefur verið formaður Félags eldri borgara í tvö ár Hún segir að félagið anni ekki öllu því sem þarf að gera, en samkvæmt lögum þess, á það að standa vörð um kjaramál eldra fólks, félagsmál og vera málsvari hópsins útá við. Henni finnst róðurinn býsna þungur „ Þetta gengur allt mjög hægt“ segir hún og að það þurfi stöðugt að vera að ýta á þessi mál gagnvart stjórnvöldum og sveitafélaginu. En eldri kynslóðin er mjög breiður hópur. Þar er mikill mannauður að hennar mati og hún telur að opna þurfi fyrir þann möguleika að fólk fái að vinna lengur.
Heilsuefling og forvarnir
Hún vill líka sjá að það sé borin meiri virðing fyrir eldra fólki, þekkingu þess og reynslu. Félagið hefur verið í samstarfi við 5 grunnskóla í Reykjavík, í verkefni þar sem eldri borgarar lesa með börnunum. „Það gengur vel og ég myndi vilja sjá fleiri svona verkefni“, segir Þórunn. Hún segir að eining þurfi að gera risaátak í heilsueflingu og forvörnum eldra fólks. Það þarf að taka fyrir hreyfingu, hollt matarætði og hugarleikfimi. Þetta sé lykilatriði til að mæta fjölgun aldraðra á næstu árum.
Hér fyrir neðan eru svipmyndir úr lífi Þórunnar, alveg frá því hún var lítil stelpa.