Rannsókn sem var gerð fyrir um tveimur áratugum, sýndi að þá töldu menn að fólk væri orðið gamalt þegar það næði 68 ára aldri. En tíminn líður og núna segir fólk að menn verði ekki gamlir fyrr en þeir verða áttræðir.
Fólk um áttrætt vinnur enn
Rannsókn á þessu, sem var gerð fyrir um tveimur árum af vefsíðunni PayingTooMuch.com, náði til 2000 Breta fertugra og eldri. Þeir voru spurðir hvenær þeir teldu að fólk væri orðið gamalt. Aldurinn – 80 ára – er næstum 20 árum hærri en fyrri kynslóðir höfðu talið vera aldurinn þegar menn yrðu gamlir. Þeir sem gerðu könnunina segja að þessa viðhorfsbreytingu megi rekja til þess að fólk fari nú seinna á eftirlaun, sé virkara í eigin lífi og að margir þekki eldra fólk sem er enn á fullu í atvinnulífinu. Nefnt er til sögunnar fólk eins og þáttastjórnandinn Regis Philbin og leikkonan Angela Lansbury og ekki skyldu menn heldur gleyma leikkonunum Maggie Smith og Judy Dench sem báðar urðu áttræðar í desember síðast liðnum.
Sitja ekki lengur og prjóna
„Eitt sinn var það þannig, að fólk var álitið gamalt um leið of það fór á eftirlaun. En nú líta menn öðruvísi á, enda er fólk er farið að lifa heilbrigðu og virku lífi langt fram á áttræðisaldur,“ sagði einn talsmanna PayingTooMuch. com í samtali við Daily Mail. „Hugmyndin um eldra fólk er ekki lengur sú að það sitji heilu dagana í stól og prjóni eða horfi á svarthvítar myndir, svona rétt áður en það fær sér síðdegisblundinn. Fyrir marga er eftirlaunaaldurinn upphafið að nýju og spennandi lífi. Eftirlaunafólk ferðast um allan heim, fer að stunda ný áhugamál og þess eru jafnvel dæmi að fólk lifi virkara og skemmtilegra lífi en það gerði þegar það var yngra“ sagði hann.
Fleiri búast við að vinna lengur
Árið 1991, eða fyrir rúmum 20 árum, bjuggust einungis 11% vinnandi manna við því að þeir myndu vinna fram yfir 65 ára aldur. En árið 2013 töldu 36% þeirra að þeir myndu gera það. Nýja rannsóknin leiddi líka í ljós að einn af hverjum fimm Bretum taldi að hann gæti náð 90 ára aldri áður en farið yrði að líta á hann sem gamlan. 93% sögðu „Þú ert eins gamall og þér finnst þú vera“ og 83% sögðu að þeim fyndust þeir yngri en aldurinn segir til um, að meðaltali um 11 árum yngri. Rétt rúmum 60% fannst að það væri mjög langt þangað til þau yrðu gömul.
Miðaldra 35-58 ára
Aðrar rannsóknir sýna að hugmyndir manna eru mjög ólíkar þegar kemur að aldri. Það má nefna eina sem var gerð árið 2010. Þar taldi meðalmanneskjan að ungur aldur endaði þegar fólk væri 35 ára, en menn yrðu gamlir 58 ára. Það þýðir að fólk er miðaldra þau 23 ár sem eru þarna á milli.
Það er nefnilega það!