Tvö þingmál sem varða réttindi eldri borgara voru á dagskrá Alþingis í dag, fimmtudaginn 27. janúar. Er þar annars vegar um að ræða þingsályktunartillögu um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur. Hitt málið er frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem tryggi að réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldist óbreyttur þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, en meðflutningsmenn eru átta aðrir þingmenn úr þremur flokkum á Alþingi – VG, Flokki fólksins og Viðreisn. Það er þingflokkur Flokks fólksins sem stendur að baki lagabreytingartillögunnar um réttinn til aldurstengdrar örorkuuppbótar.
Þingsályktunartillagan hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra, í samráði við félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, að hefja viðræður við samtök opinberra starfsmanna um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur.“
Í greinargerð segir að markmið tillögunnar sé að veita opinberum starfsmönnum möguleika á að vera áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð, ef þeir vilja og treysta sér til. Tillagan var fyrst lögð fram á 150. löggjafarþingi 2020 og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar eftir fyrri umræðu og bárust umsagnir frá BSRB og Landssambandi eldri borgara. Málið var lagt fram að öðru sinni á 151. löggjafarþingi og barst þá umsögn frá Alþýðusambandi Íslands auk fyrri umsagnar BSRB.
Stéttarfélög styðja tillöguna
Í umsögn sinni fagnaði BSRB tillögunni auk þess sem samtökin lýstu sig reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu sem í henni fælist. Lögð var áhersla á samráð við stéttarfélög opinberra starfsmanna og að einungis væri um að ræða heimild til að halda áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð. Vísað var til heimildar í kjarasamningi BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að framlengja ráðningu starfsmanna sem hafa náð 70 ára aldri um allt að tvö ár. Starfsmenn ríkisins eiga hins vegar ekki sömu möguleika og opinberir starfsmenn sveitarfélaga til að vinna eftir sjötugt. Þá var bent á að lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna tækju ekki við iðgjaldagreiðslum eftir að starfsmaður hefði náð 70 ára aldri. Landssamband eldri borgara ítrekaði að nauðsynlegt væri að endurskoða starfslok vegna aldurs m.a. í ljósi þess að lífaldur hefði hækkað til muna síðastliðna áratugi. Þá taldi sambandið hina svokölluðu 70 ára reglu bæði úrelta og í ósamræmi við mannréttindi. Minna má á að um þetta var fjallað í viðtali við bandaríska prófessorinn Jan Fritz hér á Lifðu núna í desember sl.
Lagabreytingarfrumvarp líka lagt fram áður
Frumvarpið um óskertan rétt til aldurstengdrar uppbótar á lífeyri vegna örorku eftir að taka ellilífeyris hefst var líka lagt fram bæði á 150. og 151. löggjafarþingi 2020 og 2021. Í greinargerð segir að þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára, þ.e. nær þeim aldri þegar réttur til töku ellilífeyris myndast, fellur niður réttur hans til aldurstengdrar örorkuuppbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldurstengdri örorkuuppbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og er þeim verulega íþyngjandi.
Á 151. löggjafarþingi bárust umsagnir um frumvarpið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands og Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við frumvarpið.
Bæði mál, þingsályktunartillagan og frumvarpið, „sofnuðu í nefnd“ eftir fyrstu umræðu á síðasta þingi og eru nú lögð fram aftur óbreytt.