Að búa heima eins lengi og hægt er? 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir f.v. formaður LEB og FEB-Reykjavík skrifar

Þessa setningu er víða að finna í áætlunum stjórnvalda og í mörgum skýrslum um eldra fólk og lífið þegar halla fer á tommustokkinn. Hver er vilji eldra fólks nú til dags? Með mun lengri lífaldri er margt að breytast og kröfur til gæðalifs eftir starfslok mun meiri en var. Meðallífaldur karla komin yfir 80 ár sem er með því hæsta í heiminum. Það er ekki langt síðan að karlar vissu ekki hvernig það væri að hætta að vinna og eiga sinn eigin tíma. Hvað þarf þá til að fólk geti búið sem lengst heima og séð að mestu um sig sjálft.

Um síðustu aldamót var algengt að fólk segði: „Ég vil fá heimilishjálp“ þegar 67 ára aldri var náð. Smám saman var þessum fyrrum skoðunum fólks breytt með nýrri hugsun um að það að geta gert hlutina sjálft væri eðlilegt og bætti færni og sjálfstæði fólks. En með hækkun lífaldurs hefur þörfin fyrir aðstoð færst til, og líka aukist, þegar hærri aldri er náð. Það má segja að þessi staða sem nú er upp,  þörfin fyrir nákvæmlega það sem gerir fólki fært að búa sem lengst heima hafi verið í umræðunni í nokkur ár og nokkur sveitafélög náð að bregðast við að einhverju leyti. Hvað er það sem hindrar að þetta gangi upp?

Þeim sem eru að eldast bjóðast glæsilegar íbúðir, en henta þær nógu vel?

Eitt atriðið er búsetan sjálf. Fólk býr oft áfram í sínu húsi og sumir minnka við sig. Æ, algengara er að fólk flytji í íbúðir ætlaðar eldra fólki. Eru þær skipulagðar þannig að fólk geti notið þess að flytja ekki aftur? Alls ekki nema í undantekningartilfellum. Og, nei engan veginn. Það vantar mikið uppá að gæði þessara íbúða séu ásættanleg. Arkitektar og hönnuðir hafa greinilega ekki fylgst með þróun erlendis á sviði bygginga sem ætlaðar eru eldra fólki. Hvernig stendur á því? Engin skýring.

Þarf virkilega að breyta reglugerðum til að fólk opni augun og fari að hanna og teikna með eldra fólk í huga. Nokkur atriði eru í lagi svo sem hurðabreidd, engir þröskuldar og breiðari sturtuklefadyr. Það sem vantar hrópar á okkur. Skápar upp í loft í eldhúsum eiga ekki að vera til í íbúðum fyrir eldra fólk. Slys í heimahúsum segja það alveg skýrt. Snúrur niður við gólf eru líka hættulegar. Setja skal innstungur í rétta hæð.

Selerni eru allt of lág. Þetta vita allir. Nema arkitektar og verkfræðingar. Hvað þá að fara að huga að „smart“ salernum í a.m.k. íbúðum þeirra sem eru skilgreindir sem fatlaðir eða með sjúkdóma sem hindra hreyfigetu. Gluggar sem ná niður í gólf eru arfavitlaust fyrirbæri. Erfiðleikar við þrif. Nefna má fjölda smáatriða sem gætu eifaldað líf fólks. Sumstaðar hafa örbylguofnar verið settir í lokaða skápa hátt á vegg. Til hvers?

Svo má endurhugsa dýrahald í þessum íbúðum. Mjög margir fá mikið út úr samvistum við hund eða kött og getur það samband oft komið í veg fyrir alvarlega einsemd auk þess sem gæludýrin kalla á aukna hreyfingu eigandans, sem er til góðs.

Lífsgæði við flutning á efri árum eru svo mikilvæg. Þess vegna þarf fólk að gera gátlista til að geta fengið þá aðstöðu sem mun henta því sem lengst.

Þarf að breyta byggingarreglugerð eða endurmennta arkitekta og skipulagsfræðinga?

Stór spurning. Nú skulum við bretta upp ermar og hugsa út frá fólkinu sem þarf að búa í íbúðunum. Danir eru líka með skemmtilegar raðhúsabyggingar sem tengjast þjónustu í nágrenninu. Margt má læra af Dönum og fleirum. Má þar nefna endurskipulagningu á aðstoð við fólk sem býr utan borga og þarf hvatningu til hreyfingar og að takast á við daglegt líf.

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir júlí 25, 2022 07:00