Hugtökin aldursskömm og aldursfordómar eru ljót orð. Þau urðu til þegar við fórum að leggja ofuráherslu á æskufjör og fullkomið útlit sem því miður er forgengilegt ástand. Sú barátta er fyrir fram töpuð. Þessi áhersla hefur verið svo mikil að við getum með engu móti slakað á og leyft okkur að njóta þess að eldast því þá er hættan sú að ekki verði lengur mark á okkur tekið og smátt og smátt gleymumst við.
Sagan af því þegar gamla konan datt og brotnaði og unga aðstoðarkonan á sjúkrahúsinu sagði: ,,Já, það er bara svona. Þegar þetta dettur og brotnar, liggur það svo lengi og andar ekki nógu djúpt og þá fær það sýkingu og bara deyr.” Saga eins og þessi varð kveikjan að því að Þórey Sigþórsdóttir leikkona, fékk löngun til að safna sögum um fullorðið fólk í lífi hennar og víðar. ,,Það var margt sem kallaði á mig að fara að skoða þessi mál,” segir Þórey. ,,Ég hafði síðan samband við Rebekku A. Ingimundardóttur sviðslistakonu, innsæið sagði mér að hún væri rétta manneskjan fyrir sýningu eins og ég vildi gera. Rebekka vinnur mjög sjónrænt og nálgast leikhúsið út frá óhefðbundnu sjónarhorni.“
Rebekka hafið verið í markþjálfanámi. ,,Í hugum flestra er markþjálfun fyrir ungt fólk sem er að fara að stofna fyrirtæki og gera eitthvað stórt,” segir Rebekka. ,,En það er líka um daglega lífið. Ég fór þá að rannsaka hvernig markþjálfun gæti gagnast þeim eldri og komst að ýmsu merkilegu. Í markþjálfun er fólk leitt í gegnum það hvað er mikilvægast fyrir þau, hvernig það vill taka pláss lífi sínu og fylgja eftir lífsgildum sínum. Markþjálfinn er ekki ráðgefandi eins og sálfræðingur heldur hlustandi og þátttakandi.”
Þegar Þórey setti sig í samband við Rebekku small þetta sameiginlega lýðheilsulega markmið, að kveikja meðvitund á aðstæðum eldra fólks og þær sóttu um handritsstyrk til Sviðslistaráðs. Í verkefninu, Ég lifi enn-sönn saga, vildu þær leita að samvinnu við eldra fólk og finna farveg til að koma sýningu á svið. Þær fengu handritstyrk í þrjá mánuði hvor, sem var virkilega hvetjandi fyrir málefnið og er eitt af merkjum um viðhorfsbreytingu í samfélaginu og þær fundu meðbyr.
Þegar þarna var komið sögu var komið að því að setja saman hóp til að vinna og þá kom upp nafn Ásdísar Skúladóttur leikkonu, leikstjóra og félagsfræðingi. Ásdís hafði verið forstöðumaður í Hæðargarði og þar var komin mikilvæg tenging. Hún hafði líka leikstýrt Þóreyju í hennar fyrsta leikriti eftir nám svo þar var tenging og með tilkomu Ásdísar opnuðust dyr.
,,Í Hæðargarði byrjuðum við Þórey með hóp sem hét ,,Augnablik-Ég á mér rödd”,“ segir Rebekka. Þórey hefur kennt raddþjálfun og segir að hún hafi viljað eyða mýtunni um að fólk missi röddina af því það eldist. ,,Við missum röddina af því við hættum að nota hana og beitum líkamanum ekki rétt,” fullyrðir hún. ,,Með hópnum í Hæðargarði skerptist hugmyndin um það hvaða sögu við vildum segja. Sumarið 2021 óskaði Reykjavíkurborg eftir fólki í skapandi starf til að hjálpa eldra fólki út úr einangrun eftir kóvíd. Við sóttum um og fórum með vinnusmiðjur í tvö skipti í allar félagsmiðstöðvar í borginni, 17 staði. Þetta var óskaplega dýrmæt reynsla og rannsóknarvinna fyrir okkur.”
Ásdís hefur starfað með fólki yfir miðjum aldri alla tíð ásamt með því að leika og leikstýra og hefur komið geysilega víða við. Hún stofnaði til dæmis frístundahópinn ,,Hana-nú“ í Kópavogi 1978 sem margir muna eftir og var á þeim tíma líka með fjölda útvarpsþátta. Ásdís skrifaði BA ritgerð sína, Aldraðir á Íslandi, 1973 og segir að þá hafi sama vandamál verið uppi eins og núna. ,,Orðræðan var að öldruðum væri að fjölga og tækju of mikið pláss á sjúkrahúsum. Ritgerðin var unnin að tilstuðlan Ólafs Ólafssonar landlæknis og Ólafs Ragnars Grímssonar og það er alveg ótrúlegt að sjá hversu skammt á veg við erum komin síðan þá þótt margt hafi áunnist á löngum tíma,“ segir Ásdís. ,,Orðin sem eru notuð í leikritinu hafa öll verið sögð áður.“ segja þær Ásdís, Rebekka og Þórey. ,,Þetta er sjónræn upplifunarsýning þar sem sögur eru sagðar með verkfærum leikhússins.“
„Sýningin verður frumsýnd í janúar í Tjarnarbíói, heimili Sjálfstæðra Leikhópa, 7. janúar. Þar er dásamlegur vinnuandi, yndislegt kaffihús og stórkostlegt að vera hluti af þeirri grósku sem er að gerast í listinni. Húsið er nánast sprungið. Sjálfstæðir leikhópar mæta ekki alltaf miklum skilningi í kerfinu, ekki frekar en eldra fólk. Það er stundum eins og sumir stjórnmálamenn átti sig ekki á því að þetta er atvinnugrein, ekki áhugaleikfélög.“
Dýpri skilningur er einmitt það sem ljósberarnir Ásdís, Rebekka og Þórey vilja fá. Þær eru sjálfar fæddar 1965, 1967 og 1943 og eru þess vegna allar komnar inn á þetta tímabil ævinnar þegar sumir jafnaldrar þeirra byrja að gefa eftir fyrir þrýstingnum í samfélaginu sem fyllir þá aldursskömm.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar
Leikarar eru:
• Þórey Sigþórsdóttir
• Halldóra Rósa Björnsdóttir
• Ingibjörg Gréta Gísladóttir
• Anna Kristín Arngrímsdóttir
• Árni Pétur Guðjónsson
• Helga E. Jónsdóttir
• Jón Hjartarson
• Sæmi Rokk Pálsson