Tengdar greinar

Hvað er til ráða þegar þér líst ekki á kærasta eða kærustur barnanna þinna?

Það eru ýmis vandamál sem geta skotið upp kollinum, þegar uppkomnu börnin fara að mæta með kærasta eða kærustur heima hjá pabba og mömmu. Það getur verið óþægilegt ef foreldrunum líst ekkert á viðkomandi fólk. En er hægt að gera eitthvað í því? Á systursíðu Lifðu núna í Bandaríkjunum rákumst við á grein um þetta efni og birtum hana hér stytta og örlítið staðfærða.

Þegar Gabe sonur minn var í háskóla, bauð hann kærustunni sinni Tiffany heim til okkar yfir Þakkargjörðarhátíðina. Það var mjög stressandi. Tiffany hékk utaní Gabe í fimm daga, en sagði ekki orð þegar fjölskyldan var að ræða málin og bauðst aldrei til að hjálpa til í eldhúsinu. Hún virtist utanveltu og var stöðugt að tékka á símanum sínum. Hvers vegna er hann með henni? hugsaði ég og gat ekki ímyndað mér að hún gæti verið sú rétta fyrir son minn.

Þegar við vorum að undirbúa aðalmáltíðina fyrir hátíðina, var Gabe í eldhúsinu að huga að kalkúninum, maðurinn minn ryksugaði og ég lagði á borðið. Hvar var Tiffany? Hún sat í sófanum að tala við vinkonu sína á FaceTime. Áhyggjur mínar og pirringur tóku af mér völdin og ég stormaði inní eldhús og hreytti út úr mér, Heldurðu að hún gæti ekki hálpað eitthvað til? Hann brást illa við og sagði. Láttu mig aldrei heyra svonalagað aftur.

Það eru mörg ár liðin og ég sé enn eftir að hafa látið skapið hlaupa með mig í gönur. Það vita allir að það er slæmt að gagnrýna kærustu eða kærasta barnsins. Það eru ekki til margar rannsóknir á þessu, en það er vitað að það gerist iðulega að börnin koma heim með einhvern sem fer verulega í taugarnar á foreldrunum. Bresk könnun um þetta efni, leiddi í ljós að þriðjungur foreldra voru óánægð með þá eða þann, sem barn þeirra var í sambandi við.

Stundum getur óánægja foreldranna bent til þess að það séu vandamál í sambandi barnsins, jafnvel ofbeldi. Þá er vissulega ástæða til þess fyrir foreldrana að ræða við barnið. En hvernig er hægt að vita hvenær á að skipta sér af og hvenær ekki? Greinarhöfundur leitaði til nokkurra fjölskylduráðgjafa og tók saman leiðbeiningar fyrir þá sem eru í þessari stöðu.

Undirbúningur

Reyndu að setja fingurinn á það sem nákvæmlega angrar þig varðandi kærastann eða kærustuna.Hvaða áhyggjur ertu með varðandi sambandið?  Kannski er það bara að þú óttast að hann eða hún, séu að notfæra sér góðmennsku barnsins þíns. Eða ertu kannski að dæma kærustuna eða kærastann út frá talsmáta þeirra, stétt eða stöðu? Ef þú sérð að viðbrögð þín eru órökrétt og yfirborðskennd, þá er þögnin gulls ígildi.

Veldu rétta tímann

Þegar þú ert búin að átta þig á hvað það er í raun og veru sem þú telur að þurfi að ræða varðandi samband barnsins, veldu réttan stað og stund til að taka málið upp. Ekki hefja umræðuna þegar fjölskyldan er að slaka á í fríi. Þú skalt hefur ekki gera það ef þú ert í slæmu formi. Taktu málið upp þegar þú ert í rólegum gír, á hlutlausum stað þar sem hægt er að vera í næði. Það er hægt að ræða málin í bílnum, í gönguferð eða með því að skreppa á kaffihús..

Spurðu spurninga

Reyndu að ræða málið með opnum huga, alveg sama hversu illa þér fellur við kærastann eða kærustuna. Sýndu sambandinu áhuga í stað þess að fordæma það. Þú vilt ekki skapa stemminguna  Við gegn þeim, hjá parinu. Það þjappar þeim saman. Spurðu frekar hvað þau geri saman og hvað barnið þitt sér við kærastann/kærustuna. Hlustaðu svo vel á svarið. Ef þú skilur hvers vegna barnið vill vera með viðkomandi, er mögulegt að þér fari að líka betur við manneskjuna.

Náðu sáttum

Ef þér finnst samt sem áður að þú þurfir að ræða áhyggur þínar við barnið þitt, byrjaðu á að segja því að þig langi að ræða við það ákveðið mál. Segðu því fyrst hvað þér þykir vænt um það og lýstu síðan í eins stuttu máli og mögulegt er, áhyggjum þínum af sambandinu. Fyrir alla muni endurtaktu þig ekki. Þrátt fyrir allt er líklegt að barnið viti vel hvernig þér er innanbrjósts.Þú skalt ljúka samtalinu með því að endurtaka hversu vænt þér þykir um barnið og lýsa þeirri skoðun að þeirra val á vinum eða maka, sé þeirra mál, ekki þitt. Eftir samtalið má vera að barnið ræði þau atriði sem þú nefndir við ástina sína, en kannski ekki. Þú getur ekki stjórnað því, bara hvernig þú bregst við.

Gerðu þér grein fyrir hvenær grípa á inní

Við ákveðnar aðstæður þarft þú sem foreldri að grípa inní. Það er ef þú verður vör/var við að barnið sé beitt ofbeldi. Sjúkleg afbrýðissemi er merki um þetta og tilraunir til að stjórna viðkomandi. Ef barnið lætur þig vita að því hafi verið hótað ofbeldi og það sé hrætt, verður að stíga strax inní aðstæðurnar. Í versta falli þarf að hafa samband við lögregluna og jafnvel aðstoða barnið við að fá sett nálgunarbann á ofbeldismanninn/konuna. Hér á landi er hægt að hafa samband við Stígamót til að fá upplýsingar um hvernig best er að bregðast við.

Sem betur fer, var pirringurinn sem ég fann þegar sonur minn fór að vera með Tiffany, ekki merki um alvarleg vandamál. Hún var bara feimin ung kona, sem hafði engan áhuga á heimilisverkum. Þetta vissi Gabe frá upphafi og sætti sig við það. Sambandið virkar hjá þeim. Þau eru enn saman og verkaskiptingin þeirra á milli er óhefðbundin. Hann sér um matseld og hreingerningar, en hún sér um gæludýrin, reikningana, langtíma áætlanir og fjárfestingar. Með tímanum hefur hún losnað við feimnina og er ekki jafn upptekin af símanum sínum og hún var. Mér þykir vænt um hana og finnst dásamlegt að sonur minn skuli vera hamingjusamur.

Núna hjálpa þau bæði til á heimilinu þegar þau koma í heimsókn til okkar. Það eru ekki bara foreldrar uppkominna barna sem geta breytt hegðun sinni, ef við erum heppin geta tengdabörnin líka gert það

Ritstjórn mars 9, 2023 07:01