Sparimatur til að falla fyrir

Kjúklingur í vínsósu fyrir fjóra

Skemtilegast af öllu er að bjóða fólki í vel heppnað matarboð. Fyrsta boðorðið er alltaf að matargerðin eigi að vera streitulaus svo gestgjafinn sé öruggur með vinnu sína og þá þarf undirbúinigur að vera góður. Hér er uppskrift sem óhætt er að fara eftir og treysta að gestir munu verða alsáttir. Rétturinn er upprunninn í Frakklandi og þar í landi kalla menn hann Cock au vin en við segjum bara kjúklingur í vínsósu. Frakkar nota gjarnan rautt Burgundy vín í þennan rétt en nota má aðrar tegundir. Gerið þið svo vel:

12 kjúklingalæri

salt og nýmalaður svartu pipar

20 g smjör

1 msk. olía

140 g beikon, skorið í bita

1 stór laukur, skorinn í bita

1 stór gulrót, skorin í munnbitastærð

12 perlulaukar

2 msk. koníak

35 g hveiti

3 greinar af fersku tímían

12  litlir sveppir, helmingaðir ef þeir eru stórir

1 sellerístöngull, skorinn í bita

450 ml kjúklingasoð, vatn og kjúklingateningur

1 flaska rauðvín, 750 ml

3 lárviðarlauf, má sleppa

Hitið ofninn í 180°C. Takið fram stóran pott og setjið á miðlungshita. Látið smjör og olíu í pottinn þegar hann er orðinn heitur. Kryddið lærin með pipar og salti. Komið þeim fyrir í heitri olíunni með skinnið niður. Snúið þeim eftir 2 mínútur og eldið áfram á hinni hliðinni í 2 mínútur. Færið lærin yfir á disk. Látið beikonið í olíuna og steikið þar til það er orðið gyllt. Bætið lauknum, gulrótunum, selleríinu út í pottinn og steikið í 2 mínútur. Fjarlægið ysta hlutann af perlulaukunum og bætið honum út í. Hellið því næst koníakinu út í og losið það sem hefur fest við botninn á pottinum. Bætið hveitinu út og hrærið vel í eina mínútu. Bætið tímíangreinunum út í og svo sveppunum og hrærið í. Látið kúklinginn síðan út í pottinn og hellið kjúklingasoðinu út í og látið sjóða í 5 mínútur. Bætið rauðvíninu og lárviðarlaufunum út í. Lokið pottinum og látið inn í forhitaðan ofninn í einn og hálfan tíma eða þar til kjúklingurinn er eldaður vel í gegn og orðinn meir. Þá er slökkt á ofninum. Berið fram með mörðum kartöflum. Þennan rétt er mjög gott að gera í tíma þannig að hann sé fulleldaður þegar gestir mæta og hafður í heitum ofninum þar til sest er að borðum.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 5, 2021 20:21