Inga Dagný Eydal hjúkrunarfræðingur skrifar
Ég hef alltaf haft tilhneigingu til að fara hratt yfir í lífinu.
Setningar eins og „maður getur sofið þegar maður er dauður“, „þolinmæði er tímasóun“ og fleiri slíkar fannst mér þá talaðar út úr mínum veruleika. Ég lærði snemma í vinnunni sem söngkona að „the show must go on“ hvað svo sem erfiðleikum og sorgum líður og lærði svo fljótlega sem hjúkrunarfræðingur að pissa helst ekki á vaktinni og að borða á methraða, þetta var þá sem nú okkar leið til að reyna að komast yfir verkefnin í heilbrigðiskerfinu. Ég vildi svo mikið standa mig, vildi vera ábyrg.
Ég lærði hinsvegar aldrei neitt um sjálfsmildi.
Mín kynslóð lærði að manngildi væri metið í dugnaði,- lærði að bíta á jaxlinn og berjast áfram, lærði að konur gætu vel alið upp börn og stundað háskólanám og náð árangri í starfi og jafnvel fleiri störfum á sama tíma og rofið glerþakið án þess að gefa eftir kröfur um vel snyrtar neglur, snyrtilegt heimili og heimagert bakkelsi.
Við lærðum hinsvegar aldrei neitt um sjálfsmildi.
Við lærðum þegar frá leið, að það væri sjálfsagt mál að fara til útlanda í fríum. Að fara í nudd og leikfimi og gera allskonar skemmtilega hluti í frístundum, fara út að borða, í golf og á skíði. Við lærðum að glasið væri best hálffullt en ekki hálftómt og að við þyrfum bara að vera jákvæð, þá gengi þetta allt saman upp.
En við lærðum hinsvegar aldrei neitt um sjálfsmildi.
Eflaust eru áratugir síðan ofurstjórn og ósanngjarnar kröfur til sjálfrar mín byrjuðu að taka toll af andlegri og líkamlegri heilsu minni. Það eru hinsvegar einungis sjö ár síðan ég var tilneydd til að hægja ferðina. Það urðu sjö ár af endurhæfingu, endurmati á tilverunni, endurmati á sjálfri mér og því hvað mér er mikilvægt í raun. Ég hef verið að vinna við að halda heilsu og auka við heilsu mína. Á því hafa verið annmarkar, ég þarf að taka tillit til líkamlegra langvinnra sjúkdóma og álags og streituþol er enn verulega skert. Ég er orðin lífeyrisþegi þar sem ég get ekki unnið nema hluta úr vinnudegi en ég get þó starfað að einhverju leyti að því sem mér er mikilvægt og gefur mér mikið. Við það situr að sinni.
Ég er líka búin að læra heilmikið um sjálfsmildi og það hjálpar mér meira en nokkuð annað.
Sjálfsmildin hefur t.d. hjálpað mér mikið undanfarna daga þegar sérfræðingar hafa stigið fram og kveðið upp úr með það að í raun sé kulnun ranggreining og þeir sem telja sig hafa kulnun hafi í raun þunglyndi og ættu helst að vera virkir og hreyfa sig meira.
Það er nefnilega sjálfsmildin sem hjálpar mér til að mótmæla óréttlæti, til að standa með því sem ég er og skammast mín ekki fyrir að vera ein af þeim sem hafa bognað undan álaginu.
Þessi sjálfsmildi á ekkert skylt við sjálfselsku, sjálfmiðun eða eigingirni.
Það er sjálfsmildin sem kennir mér seint og um síðir að það þurfi ekki allt að vera fullkomið sem ég geri, segi og er. Sem kennir mér að lifa með mistökum mínum og brestum og klappar mér á öxlina þegar ég get ekki meira.
Það er sjálfsmildi sem segir mér að það sé allt í lagi að leggja mig um miðjan daginn, að vatnslita á borðstofuborðinu og að baka pönnukökur á mánudegi.
Ég hef þá trú að iðja sé mikilvæg, það að stunda einhverskonar sköpun og það að geta sinnt gefandi verkefnum skipti alltaf miklu máli. Í mínu ferli skrifaði ég bók um eigin reynslu af örmögnun, byggði hana á dagbókunum mínum og ýmsu öðru, ég fór á mörg myndlistarnámskeið og ég sinnti ljósmyndun. Það er líka stórt verkefni að sinna eigin heilsu þegar hún hættir að vera sjálfgefin og þar er sjálfsmildin mikilvæg.
Nýverið las ég viðtal við Birgi Örn Steinarsson sálfræðing sem minnkaði við sig vinnu nýlega til þess að sinna sköpun. Nú vinnur hann sem sálfræðingur 4 daga vikunnar en notar einn dag til að næra eigin huga og endurhlaða. Frábært dæmi um sjálfsmildi og algjörlega til eftirbreytni. Ég man eftir ungum lækni sem ég vann með eitt sinn. Hann var í 90% vinnu og notaði einn dag vikunnar til að vera með litlu börnunum sínum, til að vera til fyrir sig og sína. Sá fékk nú örugglega einhverjar pillur frá eldri kollegum sínum en eflaust hefur sjálfsmildin sem í þessu fólst, marglaunað það.
Sjálfsmildin hvetur mig til að anda inn í verki og vanlíðan þegar þannig dagar koma og berjast ekki við það sem ég hef enga stjórn á. Hún hvetur mig til fordómaleysis og þess að njóta augnabliksins á meðan það líður. Hún hvetur mig til að vera, ekki bara gera, og njóta í stað þess að þjóta.
Ekki hvað síst þá minnir hún mig á ég er ekki ein að berjast við verkefnið að vera manneskja og að þjáningin er sameiginleg okkur öllum.
Auðvitað gleymi ég mér stundum, lífið er fljótt að grípa mann með með sér og gamlir ósiðir skjóta upp kollinum. Ég man ekki alltaf hvað varð til þess að ég veiktist ,og hvað ég má enn við litlu,- og streitan getur verið svo bráðskemmtileg og ögrandi. Nú fyrir utan það að gamla innrætingin um dugnað og gamli samanburðurinn gerir vart við sig. Kona verður að vera duglegri! Verkefnin eru næg í aukavinnunni minni og þau eru mikilvæg.
En ef ég ætla mér of mikið þá hrasa ég fljótlega um eigin vanmátt en sjálfsmildin grípur mig áður en ég skell í jörðina og gerir mér fallið mýkra. Svo stend ég bara upp of prófa aftur.
Ef ég gæti kennt ungu fólki eitthvað í dag þá myndi ég kenna þeim sjálfsmildi, skilning og kærleika í eigin garð. Ég trúi því að það sé mikilvægara veganesti í hörðum heimi en flest annað. Hörðum heimi sem hampar samkeppni og sterku sjálfstrausti og telur okkur trú um að við getum allt ef við bara viljum það nógu mikið.
Að vinna að góðum verkum af heilum huga er auðvitað eitt af því sem gefur lífinu gildi og það er sannarlega dásamlegt að hvíla sig eftir góða vinnutörn. En þar liggur líka galdurinn – að hvíla sig þegar hvíldar er þörf en hunsa ekki öll boðin sem líkaminn og hugurinn sendir okkur. Það nagar smámsaman af heilbrigði okkar, bæði líkamlegu og andlegu. Við getum ekki allt, alveg sama hversu mikið við viljum það.
Það er merkilegt út af fyrir sig, að við skulum telja okkur svona kyrfilega föst í hamstrahjólinu að það þurfi meiri háttar veikindi eða hrun á sál og líkama til að við stígum út úr því.
En kannski er það einfaldara en við höldum, það þarf ekki annað en að sýna sér skilning og kærleika og taka svo fyrsta skrefið á nýrri vegferð. Það gæti t.d. verið að taka einn dag í viku til endurnæringar, taka alvöru hvíldardag eins og ungu mennirnir sem ég minntist á áður. Það gæti verið að leyfa rykinu að setjast þegar sólin skín og fara frekar í göngutúr en að taka törn með tuskuna. Það gæti verið að sleppa því að taka mastersgráðuna með fullri vinnu og það getur verið að njóta einfaldlega lífsins í hægari takti en hingað til og muna að við erum ekki öll eins. Gefum fullkomnunaráráttunni frí og göngum í lið með sjálfsmildinni.
Og af því að ég er mannleg og langt frá því að vera fullkomin þá man ég ekki alltaf eftir að hún er þarna blessunin, en í það minnsta er ég búin að læra um tilvist hennar og veit hversu mikilvæg hún er mér.