Áhugaverð bók um áföll og líkamsstarfsemi

Áður en fyrsti kafli bókarinnar Líkaminn geymir allt hefst er vitnað í upphafslínur bókarinnar, Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini. Þar segir: „Ég varð sá sem ég er nú á nöprum, þungbúnum degi veturinn 1975 þegar ég var tólf ára …“  Þennan dag reið áfall yfir aðalsögupersónuna og líklega geta margir tekið undir orð hans og hugsað til eigin áfalla. Öll eigum við mótandi augnablik, stundir sem í raun breyta öllu og hafa varanleg áhrif á líf okkar og tilveru. Þegar aldurinn tekur að færast yfir hugsum við til baka til þeirra með nýjum skilningi.

Stundum tekst okkur að endurmóta og endurskilgreina þessa viðburði, vinna úr reynslunni og nýta hana til góðs. En það er ekki gefið. Við höfum öll heyrt talað um að fólk festist í áfallinu, sorginni eða reiðinni. Bókin, Líkaminn geymir allt – Hugur, heili, líkami og batinn eftir áföll eftir Bessel van der Kolk í þýðingu Hugrúnar Hrannar Kristjánsdóttur og Arnþórs Jónssonar skýrir hvers vegna það er.

Segja má að Bessel fari með lesendur, stuttlega, í gegnum sögu geðlæknisfræðinnar um leið og hann útskýrir hvernig lífeðlisfræði líkamans getur bæði varið okkur þegar hræðilegir atburðir gerast og gert illt verra. Hann útskýrir hvernig boðefnin magna upp viðbrögð við hættu en geta einnig skapað hættulegt ástand þegar fólk festist í viðvarandi árásar- eða flóttaviðbragði. Hann sýnir okkur hvernig sumar heilastöðvar verða virkari meðan aðrar nánast lokast og þar með getur dómgreind okkar og hæfni til að takast á við það sem að höndum ber brenglast. Þetta er einstaklega fróðleg og í raun mögnuð bók. Hún opnar augu manns fyrir því að svo margt af því sem við hingað til höfum talið fyrst og fremst hugrænan vanda eða vanhæfni gallaðra einstaklinga til að takast á við eigin veikleika er oft stjórnað af taugakerfinu og engan veginn hægt að laga hjálparlaust. Það er mjög verðmætt og áhugavert að kynnast þessari hlið á áföllum og jafnframt leiðum sem verið er að þróa til að koma heilastarfseminni aftur í rétt horf, manneskjunni til hagsbóta.

Pierre Janet 1889, „Áfallastreita eru þau veikindi að geta ekki verið fullkomlega lifandi í núinu.“

 

Ritstjórn júní 7, 2023 07:00