Það hefur margt verið ritað og rætt síðustu árin, um áfengisvanda eldra fólks. Rætt er um falinn vanda og þegar rýnt er í greinar og upplýsingar um þessi mál, blasir við að eldra fólk drekkur meira áfengi en áður var og að dagdrykkja hefur færst í vöxt hjá þessum hópi. Formaður SÁÁ hefur lýst áhyggjum af þróuninni og segir nýlegar innlagnartölur á Vogi sýna að dagdrykkja 61 árs og eldri hafi nær tvöfaldast.
Þegar fólk hættir að vinna, missa margir það aðhald sem þeir höfðu áður varðandi áfengisdrykkju. Það gekk ekki að drekka á meðan fólk stundaði vinnu, en þegar það hætti störfum á vinnumarkaði var ekki stórmál að fá sér í glas á virkum degi og skemmtilegt að hafa „happy hour“ jafnvel daglega ef því var að skipta.
Heimahjúkrun stundum í vandræðum
Drykkjuvandi eldra fólks hefur verið nokkuð lengi til umfjöllunar og fyrir fimm árum og trúlega enn fyrr, var hann þegar orðinn töluverður. Hildur Þórarinsdóttir öldrunarlæknir var fyrir margt löngu í mjög athyglisverðu viðtali við Læknablaðið þar sem hún sagði meðal annars:
„Það kemur fyrir að fólk er beinlínis lagt inn vegna afleiðinga áfengisdrykkju og getur jafnvel ekki verið heima þess vegna.“ Hún segir þetta sorglega hringrás í mörgum tilfellum þar sem aldraður einstaklingur kemur inn á sjúkrahús vegna áfengisdrykkju, hann nær að jafna sig og fær nokkra endurhæfingu þar til hann getur snúið heim aftur. „Þá fer allt aftur fljótlega í sama farið. Heimahjúkrun er stundum í vandræðum með suma einstaklinga.Það er ekki hægt að sinna þeim á heimili þeirra vegna áfengisdrykkju“.
Líkaminn þolir ekki það sem hann þoldi áður
Hildur segir einnig í viðtalinu að oft sé erfitt að fá nákvæmar og réttar upplýsingar hjá sjúklingunum sjálfum um hversu oft og hversu mikið þeir drekka. „Sumir segjast drekka eðlilega og það getur verið eðlilegt fyrir fullhrausta manneskju á besta aldri en ekki fyrir heilsuveilan einstakling kominn á áttræðisaldur. Oft áttar fólk sig ekki á þessu eða er í ákveðnu mynstri sem erfitt er að koma auga á sjálfur eða brjóta upp. Sumir hafa vissulega sögu um óhóflega áfengisneyslu og átt tímabil án áfengis en hafa misst tökin aftur. Svo eru aðrir sem hafa haft stjórn á drykkju sinni í gegnum árin en þegar komið er á þennan aldur fer hún úr böndunum, eða líkaminn hreinlega þolir ekki það sem hann þoldi áður. Með því að drekka meira verður heilinn fyrir breytingum sem getur valdið því að aldraður einstaklingur þróar með sér fíknsjúkdóm sem verður að meðhöndla sérstaklega. Af þeim sem eru eldri en 60 ára og leggjast inn á Vog eru yfir 50% sem drekka áfengi daglega.“
Óhóf ef drykkjan er orðin að vandamáli
Það er ekki sennilegt að þessi áfengisvandi eldra fólks hafi minnkað. Eldra fólki hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og reglulega er greint frá því að vandinn fari vaxandi. En hvenær drekkur fólk of mikið? Það er svolítð á reiki hvað telst of mikið og það getur verið einstaklingsbundið. En Hildur segir að sé drykkja farin að verða að líkamlegu, andlegu eða félagslegu vandamáli sé óhætt að segja að hún sé orðin óhófleg. „Það er ekki í lagi heilsunnar vegna að drekka tvo drykki á dag alla daga“.